Hin mörgu andlit efnahagsvaxtar

Hinn gífurlegi efnahagsvöxtur í Kína á undanförnum árum hefur ýmsar afleiðingar. vaxandi launamunur er eitt þeirra og það verður áhugavert að sjá hvort stjórnvöld taki á honum með því að beina sjónum að því að auka velferð fátækrar alþýðu eða herja á þá sem efnast hafa.  Enn er það svo að obbi Kínverja í þessu víðfeðma kommúnistaríki býr án þeirrar samfélagshjálpar sem maður hefði haldið að ætti að vera aðall kommúnískrar alræðishyggju skv. bókstafnum - að allir fái skv. þörfum sínum.

Þegar hafa borist fréttir af því (í Newsweek fyrir 2-3 vikum) að borgarstjóri Beijing hafi skorið upp herör gegn áberandi áuglýsingum um hégómagirnd og auð, á þeirri forsendu að slíkar auglýsingar hafi neikvæð áhrif á þá sem ekkert hafa - og þeir eru vissulega enn fjölmargir - auk þess að gefa neikvæða mynd af kínverski þjóðarsál (sé hún yfirhöfuð til í þessu ógnarfjölmenna ríki).  Þessi áhersla borgarstjórans er, eins og flest annað sem viðkemur ímynd Kína þessa dagana, tengt væntanlegum ólympíuleikum.

Í heimsókn minni til Kína fyrir rúmum þremur árum sló það mig hversu ákaflega Kínverjar gengu fram í að breyta yfirbragði borganna sinna, rífa niður byggingar sem mintu á gamla tíma og byggja upp háhýsi og glerhús.  Þetta er raunar annað sem talið er afleiðing skyndilegra efnahagsframfara, og veldur áhugamönnum um menningarlegar minjar og varðveislu verulegum áhyggjum.  Sjá umfjöllun á: http://www.opendemocracy.org/democracy-photography/heritage_3233.jsp

Kannski þyrftu Kínverjar sín eigin Torfusamtök - það hversu þeir forsmá hið gamla minnir dálítið á viðlíka viðhorf hér áður en augu okkar opnuðust fyrir því að fortíð okkar, þótt lágreist sé, er líka mikilvægur partur af því hver við erum.

Það verður ekki síður áhugavert að sjá hvort og þá hvernig Kínverjar hyggjast taka á þeim gífurlega mengunarvanda sem hrjáir landið - mér er enn minnistæður pirringurinn í hálsinum sem ég losnaði ekki við á meðan ég dvaldi í Beijing - og útsýnisskorturinn, þegar gula slikjuna lagði yfir borgina á stilltum morgni.  Það vandamál er ekki einkamál Kínverja frekar en mengunarmál annarra þjóða og eins og allt annað í Kína er það stórt í sniðum.  Kannski verður fjallað um þetta af einhverju viti á þingi hins alvalda kommúnistaflokks?


mbl.is Forseti Kína lýsir áhyggjum af vaxandi launamun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband