Hvað er þetta hvað?

Og aftur hef ég lesið bók.

Þ.e. bók sem ég tel þess virði að hvetja aðra til að lesa...

Ég rakst um daginn í bókabúð M&M á Laugavegi á bók sem heitir "What is the what". Hún er frásögn eins hinna "týndu drengja", barnungra flóttamanna frá suður Súdan, sem hröktust fótgangandi um Súdan, Eþíópíu og Kenya, en var á endanum boðið til Bandaríkjanna til að hefja nýtt líf.  Á hrakningi sínum um heimaslóðir sínar upplifðu þessir drengir (og auðvitað allar þessar milljónir flóttamanna sem enn mega lifa í ótta) ótrúlegar hremmingar, raunar þannig að "hremmingar", "ógnir", "skelfingar" eru ekki réttu hugtökin.  Ég tel reyndar að ekkert hugtak á íslensku megni að lýsa þeim kringumstæðum sem fólk á stríðshrjáðum svæðum Afríku þarf að búa við í daglegu lífi sínu.

Hvað um það.   Í frásögn Valentino flettast saman frásögnin af flótta hans í Afríku við atburðarrás í nútíð, í Bandaríkjunum, þar sem hann hefur upplifað vonir en einnig vonbrigði, öryggi - en ekki síður öryggisleysi.  Mismunandi aðstæðum hans er teflt saman á merkilegan hátt, lífi á flótta, lífi í flóttamannabúðum og nýju lífi sem innflytjandi.  Sýn hans á Bandaríkin er oft sérstæð, enda ber á hann að baki líf gjörólíkt því sem við þekkjum.  Eins er vonleysinu í flóttamannabúðunum vel lýst og ekki síður því yfirgengilega öryggisleysi sem felst í því að vera á hrakningi mánuðum og árum saman.

 Og hvað er þetta hvað?  Kannski eru það  þau forréttindi að grípa tækifæri sem bjóðast, kjark til að stíga út í óvissuna og ekki síst þau forréttindi að alast upp við von um bjarta framtíð. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband