Erkitýpa Íslendsingsins: undarlegheit

"...til að sýna fram á að eiginleikar hinna undarlegu (strange) Íslendinga eigi líka við um annað fólk". 

Ég sat ráðstefnu um daginn.  Ekki í frásögur færandi í sjálfu sér, umfjöllunarefnið áhugavert,  fróðleikur vel matreiddur, skipuagning til fyrirmyndar.  Nema hvað.  Í setningarávarpi sínu komst framsögumaður að orði einhvernveginn með ofangreindum hætti, og fundarstjórinn, sem tók við af honum, bætti um betur og sagði, með vingjarnlegu brosi, eitthvað á þá leið að það væri þakkarvert að fá tækifæri til að kynna sér rannsóknir á þessari furðulegu (wierd) þjóð.

Allir Íslendingar í salnum brostu á móti, stoltir yfir því að vera álitnir sérstakir.  Ég fékk kjánahroll.  

Hvað er það með okkur og mýtuna um undarlegheitin?  Hvers vegna göngumst við upp í því að vera álitin skrýtin á alþjóðavettvangi? Takið eftir, skrýtin - ekki sérstök.  Ég hef verið að velta þessu fyrir mér síðan ég hristi af mér hrollinn, en er eiginlega engu nær.  Ég hef leitað í huga mér að annarri þjóð sem leggur sig fram um að lýsa sér sem undarlegri, en ekki fundið. Ég hef heimsótt lönd þar sem lögð er áhersla á vinsemd,  gestrisni,  framtaksemi,  dugnað,  sköpun og þar fram eftir götunum.  Vissulega eru þessi hugtök notuð um Ísland og Íslendinga,  en hvers vegna viljum við líka vera álitin furðuleg?

 Þau einkenni, eða sérkenni sem gera okkur að þjóð eru kannski margslungin (á stundum á undanförnum árum hefur mér reyndar fundist tilhneigingin freklar beinast í þá átt að leggja áherslu á það sem skilur okkur að innbyrðis) og það er óneitanlega erfitt að reyna að finna sameiginleg þjóðareinkenni. 

Þrátt fyrir að við viljum líta á okkur sem sjálfstæð, er fjöldi manna ófær um að mynda sér sjálfstæða skoðun.  Þrátt fyrir að við segjumst unna íslenskri náttúru, umgöngumst við umhverfið af fáheyrðu virðingarleysi.  Þrátt fyrir að við viljum teljast fegurst og sterkust (vonandi reyndar úrelt óskhyggja, enda hallærisleg með afbrigðum), þá erum við nú bara svona í meðallagi - eins og hinir.  Þrátt fyrir að nú sé verið að draga upp ímynd fjármálasnillingsins til að lýsa okkur, þá berst ég eins og vinir mínir flestir við að reyna að skilja í hvað allir plús tíu peningarnir mínir fara í hverjum mánuði.  Þrátt fyrir að við vísum í agaleysi og djörfung, mæta nú flestir í vinnuna á réttum tíma og vanda sig við að tryggja börnum sínum öryggi, frekar en að lifa sem hinn frjálsi förumaður. Við erum eins og aðrar þjóðir, sem skilgreina sig innan landamæra, margbreytileg.  Einkennileg, vegna þess að við höfum fjölda misvisandi einkenna, sérkennileg vegna þess að hvert okkar hefur sín sérkenni. 

Kannski viljum við vera skrýtin, vegna þess að aðrir vilja sjá okkur þannig.  Kannski er það hið eina sem raunverulega heldur okkur saman.  Kannski vitum við sem er, að það sé ekkert til í þessu frekar en öðrum tilbúnum heildareinkennum og lítum á þetta sem sameiginlegan brandara þjóðarinnar. Eða kannski viljum við vera skrýtin vegna þess að það er skárra en ekkert.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband