Kóksíró í tvöbíó

Fór í tvöbíó í gær með tvær títlur að sjá Shrekþrjú. 

Það er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi, skemmti mér vel, enda brandararnir oft á tíðum nær reynsluheimi fullorðinna en barna - á meðan börnin skemmtu sér líka þá er það vel.  Hins vegar fannst mér skrýtið að sitja undir auglýsingunum í upphafi. 

Nú má gera ráð fyrir að í tvöbíó séu áhorfendur í yngri kantinum, ekki satt, og því skildi ég ekki alveg hvers vegna fyrsta auglýsingin var kóksíróauglýsingin karlrembulega.

Í fyrsta lagi var hún á ensku, sem fæst íslensk börn undir fjögurra ára skilja meira en hrafl í (kunna flest þó að hrópa jess!). Í öðru lagi var hún svo hávær að börnin gripu flest fyrir eyrun, enda heyrn ungra barna viðkvæmari en okkur steingerða fólksins.  Í þriðja lagi, þá finnst mér bara, burtséð frá því að börnin skilja ekkert, asnalegt að hlusta á ungan mann kalla eftir einfaldari brjóstahöldurum og minni forleik í sal fullum af yngstu borgurunum.  Og þaðan af erfitt af svara spurningunni: hvað var hann að segja?

Það er eitthvað sem segir mér að bíóhaldarar gætu sýnt meiri þroska og tillitsemi við þessa viðskiptavini sína með því að ritskoða aðeins þær auglýsingar sem bornar eru á borð á barnasýningum.

Í kjölfar karlrembugaursins kom svo auglýsing fyrir einhverja yfirmáta innantóma og hallærislega unglingsstelpumynd sem tengist eitthvað Bratzdúkkunum ógeðslegu.  Tekið skal fram að hefði ég vitað af þessum tveimur auglýsingum hefði ég frestað því að ganga í salinn fyrr en að þeim loknum. 
Kannski bíóeigendur ættu að gefa upp hvaða auglýsingar á að áreita börnin í tvöbíó með, svo að við foreldrarnir getum nýtt þau réttindi okkar að velja ofan í þau innrætinguna?



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband