Inhaca

Eg er a Inhaca eyju rett utan vid Maputo.  Flaug thangad i pinulitilli flugvel.  Ferdin tok sjo minutur.  Saetid mitt var laust.  Eg akalladi allar godar vaettir allan timann.

 Eg er ad skoda natturugripasafn Inhaca.  her er rekin rannsoknarstod um sjavarliffraedi.  Strakurinn sem er ad syna mer bendir a gripina, vardveitt i formalini og segir adeins fra theim.  Eg spyr hann hvort hann se liffraedistudent.  Nei, segir hann og svipurinn verdur dreymandi.  mer finnst thetta bara svo gaman.

 

Vid erum ad keyra tilbaka a fina hotelid mitt hinum megin a eyjunni.  Jomo, bilstjorinn minn gaetir thess ad eg goni mer ekki til obota.  Her er thettur grodur vid mjoan sandslodann, sem slaest inn i bilinn reglulega.  I loftinu liggur brunalykt, vida sjast pyttir thar sem verid er ad brenna rusli.  Geiturnar tritla kringum ruslabingina og narta. 

Vid keyrum inn i thorpid.  A torginu sitja konurnar vid hrorleg bord og selja tomata.  Thetta eru konurnar sem verda eftir ad passa bornin i thorpinu thegar adrar maedur sigla yfir til Maputo til ad selja fisk a markadnum.  Thetta eru opnir batar sem fara um 40 km leid og aftur tilbaka.  A hverjum degi nema laugardaga og sunnudaga.  5-6 tima sigling hvern dag.  Karlarnir sja um veidarnar.

 Solin skin a bornin, sem koma hlaupandi i skolabuningum, henda akof fra ser toskum og reyna ad stokkva upp a bilinn.  Jomo hlaer.  Thetta gera thau alltaf.  Svo velta thau af bilnum og ofan i sandinn.

 Eg spyr Jomo hvort thad se gott starf ad vera bilstjori.   Jaaaa, segir hann og dregur vid sig. 

 Er thad betur borgad en veidarnar?

Nei, segir Jomo.  Thad er verr borgad. 

 Og hvers vegna er hann tha i thessari vinnu?  ju, hann er ad reyna ad klara gagnfraedaskola.  Langar ad utskrifast.  Hann er thritugur.


Monkey Bay

Ég er á gangi með Matthews.  Hann er í skólanefnd Zamboskóla, í lítilli vík við Malawivatn.  Þar lifir fólk á fiskeríi.  Veiðimenn fara út á vatn um miðja nótt til að veiða sardínur, tvær bátkænur saman, önnur með litlum mótór, hin kanó, sem holaður er úr trjábol.  Vegna ofveiði upp viðströndina þarf sífellt að leita lengra út á vatn, allt upp undir fjóra tíma.

Þeir strengja netið milli bátanna í myrkrinu.  Einhverjir eru með ljós, til að laða sardínurnar upp á yfirborðið.  Þegar sést í fiskinn, er bátunum siglt saman og netið lokast.  Það er kolniðamyrkur og stundum blæs upp án viðvörunar.  Það er enginn í björgunarvesti.  Margir drukkna.

Matthews á fimm börn með konu sinni.  Hún er með tannpínu, hefur verið í heilan mánuð.  Tanndráttargaurinn segir hana ekki geta komið í tanndrátt fyrr en bólgan hefur hjaðnað.  Mér sýnist ljóst að hún er með sýkingu.  Matthews og kona hans ala líka önn fyrir sex munaðarleysingjum úr fjölskyldunni.  Slíkt er algengt hér.  Ekki bara er starfið lífshættulegt, heldur deyja margir úr sjúkdómnum.

Ég þarf ekki aðspyrja hvaða sjúkdóm verið er að tala um.

Við komum niður að strönd.  Þar sitja veiðimennirnir flötum beinum að staga í nót.  Tvær ungar mæður sníkja far með okkur tilbaka til Monkey Bay.  Þær eru að fara með börnin sín á spítalann. Við setjum alla í björgunarvesti, siglum af stað á sléttu vatninu, framhjá Chisali, þar sem sardínurnar liggja til þerris á hjöllunum.
 
 Ég er í bíltúr í Chirombo með Joseph. Hann er að sýna mér þorpið sitt. Hann hægir á og bendir út um bílrúðuna.

Sjáðu, segir hann og bendir á hóp af konum og börnum.  Þarna er þorpshöfðinginn.

Ég skanna hópinn. Þarna er enginn höfðinglegur karl.  Hvar, spyr ég.

Hún situr þarna með höfuðklútinn.  Eigum við aðheilsa upp á?Ég jánka því.   Spyr hvort hann haldi að ég megi taka mynd. 

Nei, segir Joseph.  Það er ekki góð hugmynd.  Höfðingjar þurfa alltaf að fá borgað fyrir öll svona aukaviðvik.

Við stígum út úr bílnum og göngum að húsinu. Joseph kynnir mig á Chichewa.  Allir flissa.  Ég spyr hvað hann hafi sagt.  Hann gefur lítið út á það, segir að hann hafi sagt mig vera að rannsaka ICEIDA.

Mbulibwansi, segir ég.  Allir hlæja.  Höfðinginn tekur undir.  Mdelibwini, segi ég.  Allir hlæja glaðir og gefa mér þumalinn upp.  Mér líður eins og ég hafi unnið mikið afrek á sviði tungumála.  Svo horfumst við í augu.  Segjum ekki margt, enda fátt sem við getum sagt hvor við aðra.   Svo kveð ég.  Kann reyndar ekki að segja bless á Chichewa svo ég segi bara bæbæ.  Enn hlæja allir.  Börnin veifa.

Þegar við erum komin í bílinn aftur spyr ég Joseph hvort algengt sé að konur séu höfðingjar.

Já, núorðið, svarar hann.  Ekki áður.

Ég veit ekki við hvað hann er að miða.  Kannski útbreiðslu sjúkdómsins.

Og er hún góður höfðingi?

Já, svarar Joseph.  Hún er hljóðlát.

Hvað meinarðu?

Sumir höfðingjar öskra og æpa til aðleysa mal.  Hún leysir hlutina í hljóði.  Þannig eru góðir höfðingjar.

Annað land - önnur mynd

Þegar farið er milli Malawi og Mósambík á einum degi birtast manni tvö gjörólík lönd.  Það grundvallast auðvitað ekki síst á því að flogið er milli höfuðborganna. Maputo er bara allt annar heimur en Lilongwe.  Fyrrnefnda borgin hefur á sér yfirbragð borgar, með miðbæ, veitingahúsum, götulífi og umferð.  Hin síðarnefnda er ósýnileg.  Hún er eins og mörg lágreist þorp, tengd saman með óupplýstum vegum.  Eftir Lilongwe leið mér eins og ég væri komin til Kaupmannahafnar þegar við renndum í hlað við Polana shopping center.

Ekki það að ég sé endilega að leita eftir Köben.  Ég dvaldi í Monkey Bay tvo síðari daga mína í Malawi og endurupplifði þar fyrri Malawidvöl.  Malawi er eitt af fimm fátækustu ríkjum heims og sú staðreynd hverfur manni ekki úr sýn þegar ferðast er um landsbyggðina.  Fólk er allstaðar á ferli, jafnvel löngu eftir myrkur, við óupplýsta þjóðvegina. Umferðarslys eru nú orðin meðal 10 algengustu dánarorsaka Malawa, ef ég skil heimidarmann minn rétt.  Þetta skýtur ansi skökku við, sé litið til þess hversu lítil umferð er.  Í Monkey Bay sjást nær engir aðrir bílar á ferð en almenningsfarartæki og bílar ICEIDA.  Jú og reiðhjól.  Alveg hellingur af reiðhjólum, með tveimur og jafnvel þremur farþegum.

Fegurðin niðri við Malawivatn er óviðjafnanleg.  Ég gisti í einu húsi ICEIDA, í Chiromboþorpi við ströndina.  Um kvöldin ráfaði ég niður að ströndinni, keyrði hnakkann aftur á hrygg og sneri mér í hringi.  Óteljandi stjörnur skinu á himinhvolfinu, fleiri en nokkurn tímann sjást á Íslandi. NSvefninn kom snemma, enda orðid dimmt um klukkan sex og mið nótt um klukkan níu.  Þess vegna var eðlilegt að vakna fyrir sex aðmorgni, liggja um stund og hlusta á konurnar þvo þvotta í vatninu og börnin leika sér í kringum þær. Fyrsti kaffibollinn var drukkinn á skuggsælum svölum með útsýni yfir vatnið. 

Meira síðar.

Nokkurnvegin lent

Það er svo undarlegt að þessar fyrstu stundir sem ég hef átt í Afríku að þessu sinni hafa ekki síst falist í að rifja upp minningar.  Ég er að koma aftur til Malawi eftir 15 ár og það kemur mér sjálfri á óvart hvað sú upplifun er sterk. 

Malawi var fyrsta landið í Afríku sem ég heimsótti og jafnframt fyrsta landið utan Vesturlanda.  Hver einasti dagur í þeirri ferð fól í sér einstaka upplifun og reynslu sem með einhverjum hætti býr með mér enn í dag.  öll skilningarvit foru yfirfyllt, sjón, heyrn, lykt, snerting...stundum var það yfirþyrmandi, svo sem eins og fyrsta heimsóknin á markaðinn (verð að komast þangað aftur).  Þrátt fyrir að núna sé ég bara búin að vera í einn dag hér, og þrátt fyrir að ferðin sé á næsta ólíkum forsendum við fyrri ferð, þá finnst mér dýrmætt að hafa reynsluna frá 1992. 

Og margt hefur breyst.  Þá var Banda við völd og meðal þess sem ég þurfti að finna út úr var að koma mér upp pilsum í samræmi við opinberar reglur um pilsasídd kvenna (konum var bannað með lögum að vera í buxum, svo og pilsum sem náðu upp fyrir hné).  Veitingastaðir voru faír og fátæklegir, það var ekkert sjónvarp rekið í landinu...raunar allt má segja lúxusvandamál, en þó aðstæður sem juku á þá tilfinningu að hér væri maður í öðrum heimi.  

Fleira er þó það sem ekki hefur breyst.  Malawar eru upp til hópa hjálpsamasta og kurteisasta fólk sem ég a.m.k. hef kynnst (hljómar hjárænulega - en ég meina það).  Börnin eru ólýsanlega falleg.  Lilongwe er enn undarleg - ekki eins og borg, heldur frekar eins og risastórt, hálffalið þorp.  Maður getur verið að keyra í henni miðri og verið eins og úti á landsbyggðinni.

 Og ég er enn besti vinur moskítóflugna, sem leita allra leiða, getum net og skerma til að geta verið í nágrenni við mig og hjalað við mig á nóttunni.  Ég svaf í einnoghálfan tíma aðfararnótt sunnudags, á elleftu hæð á hóteli í Nairóbí.  Hvernig komast þær svona hátt?  Og hver sagði þessari að ég væri á staðnum?

Og að lokum þá eru aðstæður almennings því miður lítt breyttar frá því sem var. Malawi er enn eitt af fátækustu ríkjum heims, misskiptingin gífurleg og fátæktin við völd á flestum sviðum.  Rafmagn fer af með reglulegu millibili, umferð er lítil. Landið er háð framlögum Vesturlanda að langstærstum hluta, spilling er vandamál og uppbygging víða erfið.  Það er ekki minnst það sem hefur setið með mér í fimmtán ár og sem gerir það að verkum að ég reyni eftir megni að kveða niður eigin væl um vandamál.  Því að samanborið við daglegt líf fólks á þessum slóðum eru öll mín vandamál lúxusvandamál.  Ég er heppin.


Brottför yfirvofandi

Jæja.

Þá er komið að því - ferðin hefst á morgun.  Fyrsti leggur Amsterdam.  Ég er ekki enn komin með staðfesta gistingu á laugardagskvöld.  Það hlýtur að reddast.

Ég er líka með risastóran hnút í maganum - ástæða hnútsins situr núna í herberginu sínum sönglandi lagið með Eiríki Hauks.  Hún híaði á mig í morgun vegna þess að ég missi a júróvisíón.  Ég á eftir að sakna hennar óumræðanlega.  Hins vegar hef ég markvisst neitað að hleypa hnútnum upp í kok.  Þetta er jú mín ferð - ég skipulagði hana, ákvað hana og er að fara í hana algjörlega af sjálfsdáðum.  Það væri bara kjánalegt að fara að búa til drama út úr því að vera að fara að leggja í'ann.

 En mikið óskaplega á ég eftir að sakna stelpunnar minnar.

Hvað um það - þá er stokkið af stað...

Ég vona að þessi síða verði til þess að þau sem þess óska geti fylgst með ferðum mínum - þori ekki að lofa póstkortum, en afhendi líkast til nokkur þegar ég kem heim aftur, eða bið Kristján bróður að póstleggja frá Rotterdam.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband