Myndir

Það eru komnar myndir í myndaalbúmið.  Vildi bara láta vita af því.

Allt tekur enda

Mér tekst að fara í safari einn síðasta daginn minn í Namibíu.  Ek af stað snemma morguns frá Shcwarzkopmund, upp úr þokunni og inn í land.  Eftir því sem innar kemur í landið verður gróðursælla, ef þannig má að orði komast.  Enn er langt í land með það að gróðurþekjan líkist iðagrænum völlum Uganda, en um það leyti sem ég átta mig á því að ég er rammvillt terk ég líka eftir því að ég er komin í allt annað vistkerfi.

Ég hringi á hótelið mitt til að fá leiðbeiningar.  Starfsstúlkan flissar þegar ég segi henni hvar ég er.

- Þú átt alls ekki að vera þarna, segir hún og vísar mér sem leið liggur í nýjar villur.  Ég ek inn stórgrýttan vegarspotta eftir tilmælum hennar, hitti þar fyrir fúllyndan eldri mann sem fer í ennþá meiri fýlu þegar ég biðst undan því að gista hjá honum frekar en á hótelinu og þegar ég er búin að loka á eftir mér hliðinu á leið tilbaka að aðalmalarveginu ("Enter at your own risk") fæ ég stærsta áfall ferðarinnar.

Ég rigsa að bílnum til að halda áfram.  Bíldyrnar eru læstar.  Bíllinn er í gangi, síminn milli sætanna og ég kemst ekki inn.  Ég mun þurfa að ganga tilbaka eftir áhættuslóðanum, leita ásjár hjá fýlukallinum.  Ég tek á öllu sem ég á til sem yfirvegaður þátttakandi í samfélagi þjóðanna og finn réttu viðbrögðin við þessari katastrófu:

 -  Neiiiiiiiiii! arga ég út í runnaþekjuna og stappa niður fæti.  Nei!Nei!Nei!Nei!

Og svo sé ég að stýrið er öfugu megin.  Skömmustuleg geng ég hinum megin að bílnum og sest undir stýri.  Helvítis vinstri umferð.  Eins gott að ég var ein.  Keyri sem hraðast í burtu, ef kallinn skyldi hafa heyrt til mín, það var jú ekki nema kílómeter að bænum og ég með nokkuð sterk lungu. 

 Daginn eftir endurheimti ég æruna í eigin huga þegar ég sýni einstök viðbrögð og sveifla mér undir stýri í safaritrukknum eftir að stýrið bilar og fararstjórinn gleymir að taka bílinn úr gír þegar hann fer út að sparka í dekkið til að geta beygt.  Hlýt aðdáun mikla frá austurrísku húsmóðurinni sem er með mér í för og bjartasta bros álfunnar frá fararstjóranum, sem er því fegnastur hversu hamingjusöm við erum með að vera á ónýtum bíl í grennd við nashyrninga og önuga fílafjölskyldufeður. Og eftir að hafa keyrt til Windhoek á bílaleigubílnum, án áfalla og án þess að brjóta fleiri umferðarreglur en þær að smygla mér gegnum vegartálma ökuskírteinislaus, þá er komið að því að kveðja.  Ekki bara Namibíu heldur Afríku alla.  Að sinni.

Í þessum rituðu orðum, þar sem ég sit í íbúð bróður míns í Rotterdam innan um óhreina tauið mitt, þá liðast upp úr fatahrúgunni gamalkunnug lyktin af brenndum viði.  Afríkulyktin.

Og ég er strax farin að þrá að fara aftur.

Ég set nokkrar myndir inn á þessa síðu á næstu dögum, en mun að öðru leyti hætta skrifum hér  með.


Namibeyðimörkin

Georg er fæddur í Þýskalandi en fluttist eins árs gamall til Namibíu og hefur alið allan sinn aldur þar síðan, utan þriggja ára sem hann dvaldi við nám í Frankfurt.  Segist akkúrat ekkert hafa að sækja til Þýskalands síðan, ekki einu sinni þótt pabbi hans búi þar.  Leið bara illa í borginni og þurfti að komast aftur út í auðnina sína. Hann er Namibíubúi og fararstjórinn minn þennan dag.

Við keyrum af stað eftir þjóðveginum um stund, en beygjum síðan út af og inn í eyðimörkina.  Það er ýmislegt hér sem minnir mig á íslenskt landslag, sér í lagi Kverkfjalla- og Öskjusvæðið.  Þó er umhverfið allt annars eðlis; í stað basalthraungrýtis í grunninn er hér granít, með glitrandi innskotum og marmaralagi.  Basaltranar, svartir og ævafornir skera fjöll og hóla eins og æðar, svo járnríkir að þegar slegið er í grjótið klingir í því eins og bjöllu.  Aloe vera jurtir hafa skriðið fram um aldir, myndað nýja sprota og losað sig við þá gömlu.  Hér er allt í hægagangi.  Samanburður á gömlum ljósmyndum sýnir hversu lítið gróðurinn breytist á einni öld – runnar sem þá voru til staðar hafa ekkert breitt úr sér og trjávöxtur er með afbrigðum hægur.  Eðlur skjótast milli skugga í leit að svala. Á einum stað er basaltið gljápússað; hér voru fílahjarðir fyrir tvöhundruð árum síðan og gljáinn er minnismerki um hvernig þeir hafa nýtt sér hnullungana til að losa sig við óværu.
Eftir því sem við keyrum lengra inn í eyðimörkina verður landslagið óraunverulegra. Við erum komin inn í fjalllendi, rauðbrennt og skorið, trén lauflítil að jafnaði en skyndilega skærgrænir blettir sinnepsrunna.  Þeir bera vitnu um háa grunnvatnsstöðu þó að hvergi sjáist vatn á yfirborði.  Það vatn sem hér rennur undirniðri er ísalt og þar sem það hefur gutlað upp úr sandinu sitja saltskellur eftir.  Allsstaðar eru gamlir árfarvegir.
Georg er í eðli sínu landvörður.  Hann hefur grúskað í gömlum ljósmyndum og þrátt fyrir að hafa ekki formlega líffræðimenntun hefur hann viðað að sér fróðleik og túlkar náttúruna í kringum sig með næmum hætti.
Við heimsækjum Welwitschiaplöntuna fornu og skoðum skortíturnar sem ala aldur sinn í sérkennilegum blöðum hennar.  Við rekumst líka á Gordoniiaplöntuna, sem Sanfólkið hefur um aldir notað til að kveða niður hungurtilfinningu og sem verið er að vinna í dag fyrir ofalda Vesturlandabúa.  Ég skoða heiminn gegnum Mikaplötur, náttúruleg sólgleraugu sem víða liggja á yfirborði eyðimerkurinnar.  Þetta er heillandi staður ssem ég er ákveðin í að heimsækja aftur.
Á leið heim mætir okkur strandþokan sem á hverjum degi læðist um þýskar götur Schwarzkopmund, milli jugendstilhúsanna og klukkuturna.  Ég get bara ímyndað mér hvernig fyrstu íbúum bæjarins, sem líklega voru oft giska ókunnugir um umhverfi sitt, leið þegar myrkrið og rakinn læddist að með þessum hætti.  Eða hvítum innflytjendum sem leituðu leiða inn í landið, stofnuðu til styrjalda við heimamenn í stað þess að læra af þeim, hvað þá að sýna lífi þeirra og menningu virðingu.  Þetta fólk, oft óupplýst og illa að sér, alið á þjóðernishyggju 19. aldar og nýlendukapphlaupi Evrópuþjóða, hlýtur að hafa verið skelfingu lostið í xenofóbisma sínum og Schwarzkopmund hefur verið eina umhverfið sem það þekkti.
Einhverra hluta vegna verður mér hugsað til þeirra sem sendir hafa verið í brjálsemisstríðið í Írak.



Náttúruleg Namibía 1

Þegar ég skoða þessi fyrstu skrif mín sannast enn og aftur það sem orðið er að mottói mínu í lífinu – það eina sem ég veit er að seinna þarf ég að éta allt ofan í mig. 
Það skal játað að ég var ekki sérlega hrifin af Namibíu fyrstu mínúturnar mínar í landinu.  Það verður líka að segjast eins og er að miðborg Windhoek er barasta ekkert sérlega spennandi staður.  En landið heillaði mig. Og það þrátt fyrir að ég lenti í fyrsta vasaþjófnaði ævinnar við samlokurekka í súpermarkaði (snilldarlega framkvæmdur reyndar, en hvað um það).  Sat sem sagt uppi kredítkortalaus – og þar af leiðandi gjaldþrota - síðustu dagana mína í Afríku.
Ég ákvað eftir fyrstu reiðiviðbrögðin (gagnvart sjálfri mér aðallega) að láta þetta ekki á mig fá, þykjast ekkert vera gjaldþrota og leigja mér bíl til að fara í þriggja daga ferð og skoða landið.  Þurfti að fá samlanda til að ljá mér þrykk af kredítkorti sínu og passaði mig auðvitað á því að láta hann ekki vita að ég keyrði síðast í vinstri umferð fyrir 12 árum...


Það er dáldið skrýtið að keyra í vinstri umferð.  Allt snýr öfugt í bílnum, þess vegna setur maður rúðuþurrkurnar alltaf á þegar þarf að beygja.  Umferðin á vegum úti í Namibíu er líka afskaplega hröð og ég keyrði eins og gamall kall með hatt niður til Schwarzkopmund.  Þurfti þó nokkrum sinnum að taka fram úr vöruflutningabílum, en lenti ekki nema einu sinni í návígi við dauðann vegna þess.  Rúðuþurrkurnar voru settar kurteislega á með góðum fyrirvara í hvert sinn eftir það.  Vandræðalegt, þegar til þess er tekið að það rigndi síðast á svæðinu í apríl 2006.
Mér tókst þó, þrátt fyrir skelfingu, fjárskort og niðurlægingu, að komast til Schwarzkopmund fyrir myrkur, eins og hafði lofað.  Kom mér fyrir á gistiheimilinu og fór snemma að sofa til að geta vaknað tímanlega morguninn eftir.
Næsta dag keyrði ég til Walvis Bay, sem er næst stærsti bær Namibíu með um 60 þúsund íbúa.  Þetta er einnig að mér skilst helsta sjávarpláss landsins.  Það var undurfagurt að fá sér morgungöngu meðfram lóninu úti fyrir bænum, þar sem þúsundir flamingófugla eiga heimkynni á samt fjölmörgum öðrum tegundum.

Hvítir flamingóar tipla í flóknum dansi í leðjunni til að róta upp smádýrum og hinir bleiku skófla í sig grænþörungunum sem gefa þeim litinn.  Vaðfulgar trítla um leðjufjöruna, lóur (sandlóan á hér heimkynni en er í sumardvöl á Íslandi sem stendur), ættmenni tjaldsins, avocatfugl sem ég kann engin frekari deili á, ásamt spörfuglum, erlum og tittum og auðvitað hegrum.  Þernur sveima yfir.

Milli flamingóanna úti í lóninu stukku boldangsfiskar hátt í loftið og yfir höfði mínu mynduðu pelíkanar v-laga fylkingu.  Úti fyrir landi, en þó ótrúlega nálægt því, voru togarar að veiðum.  Við bæjarmörkin inn til landsins breiða rauðir sandhólar Namib eyðimerkurinnar úr sér svo langt sem augað eygir. Litrík auðnin myndar ávalar og með einhverjum hætti munaðarfullar línur sem bera við himin.

Ótrúlega flott, lónið er enda eitt af Ramsarsvæðum heimsins, eins og raunar Mývatn.

Eftir hádegi dreif ég mig svo í skoðunarferð með eina leiðsögumanninum í Schwarzkopmund sem fer með staka ferðalanga út í eyðimörkina. Afskaplega skemmtileg ferð og það rifjaðist upp fyrir mér hvaðp það er gaman að vera líffræðingur. En meira um það síðar.



Kampala-Windhoek

Windhoek er við fyrstu kynni algjörlega absúrd borg, eftir upplifanir mínar undanfarnar vikur.  (Ég býst fastlega við því að Frosti vinur minn skilji sérstaklega hvað ég á við með þessu lýsingarorði). Líklega er ég í einhverskonar kúltúrsjokki. 
Eftir að hafa eytt undanförnum vikum austanmegin í Afríku, heimssvæðis sem ég hef þó haft einhver kynni af áður, þá finnst mér eins og ég sé komin, ja, ég veit ekki hvert?  Ég líkti því að koma til Maputo frá Malawi um daginn við það að fara til Kaupmannahafnar, en það var ekki góð líking, sé eg núna.  Því að ef það var Kaupmannahöfn, þá er þetta Potsdam.
Í morgun var samsetning farþega í vélinni til Windhoek með miklu nýjabrumi.  Meirihlutinn voru bleiknefjar, meirihlutinn talaði þýsku.  Ég sat við hliðina á indælum þýskum hjónum sem hrósuðu mér fyrir þýskuna (Þjóðverjar gera það alltaf hvernig sem maður misþyrmir henni) og tóku undir þegar ég rifjaði upp söguþráð bókarinnar sem ég var að ljúka við að lesa, “On the other side of silence” eftir André Brink.  Ég mæli sterklega með henni. Við vorum sammála um að saga Þjóðverja í landinu væri ekki falleg – en á hitt ber auðvitað að líta að AB beinir sjónum sínum eingöngu að því illa. Núna búa í Namibíu margir afkomendur þýskra innflytjenda, sem ekki mega vamm sitt vita.
Bók AB litar líka fyrstu upplifun mína af landinu, þegar ég keyrði frá flugvellinum til borgarinnar.  Saga konunnar, sem send er á skipi ásamt öðrum fátækum, ungum þýskum konum, til handargagns (og annarra líkamshluta) fyrir þýska landnema og hermenn í nýlendunni.  Útlegð hennar í eyðilendum Namibíu, kynni hennar af hrjóstrugri náttúrunni.  Af vísu skáldsaga, en svo fantavel skrifuð að söguhetjan Hanna X líður mér seint úr minni.
Vangaveltur um harðstjórn Þjóðverja og síðari tíma apartheid stjórn Suður Afríku leiða þó óneitanlega hugann að því hversu friðsamlega virðist hafa tekist til með sjálfstæðið frá Suður Afríku 1990.  Hér virðist ríkja meiri sátt meðal ólíkra íbúa en t.d. í nágrannaríkinu.  Ég þarf að velta þessu fyrir mér á næstu dögum – getur ekki verið að fæstir íbúar hafi verið sáttir við aðskilnaðarstefnu Suður-Afrísku stjórnarherranna?

Og svo keyrum við inn í Windheok. Á leiðinni sé ég ekkert fólk.  Viðbrigðin frá yfirfullum löndunum hinum megin í álfunni eru ótrúleg.
Í borginni sjálfri, þ.e. þeim hluta sem keyrt er gegnum á leið frá flugvellinum í miðbæinn eru göturnar tómlegar en snyrtilegar, húsin vel byggð, búðirnar fallegar.  Og það er svalt; mér finnst ég vera í Evrópu að hausti. Ég hef verið bókuð inn á afskaplega fínt hótel í miðbænum.  Þar er spilavíti og ferðamenn, sem eru dónalegir við starfsfólk, hreyta í það skipunum og krefjast þess með þjósti að barinn verði opnaður.  Ég fer í fýlu og upp í herbergi. Ég fíla ekki þetta hótel.


Síðdegis fæ ég mér stuttan göngutúr um miðbæinn.  Það er ekki mikið fólk á ferli, fáir bílar, engir í skúr að selja símakort, engir að selja samósur og tómata, en nokkrir að selja minjagripi, sem við fyrstu sín eru alveg eins og þeir sem eru seldir hinum meginn í álfunni.  Ég geng upp Fidel Castro götu og beygi inn á Robert Mugabe.  Á þessari leið eru tveir minnisvarðar, annar um hetjurnar þýsku sem féllu í stríðinu gegn Nama þjóðflokknum í lok 19. aldar, hinn um hetjurnar, samlanda þeirra, sem féllu í baráttunni gegn Herero þjóðflókknum í upphafi þeirrar tuttugustu.  Það er enginn minnisvarði um Namafólkið eða hvað þá heldur Herero. Ég á ekki orð. (Kemst reyndar að því síðar að þau eiga sinn minningagarð, en er sagt að Ovambofólkið, sem ræður mestu hér í landi er sosem ekkert umfram um að upphefja aðra þjóðflokka.  Veit ekki hvað er til í því).


Ég er algjörlega týnd.  Ég þarf að reyna að skilja þetta land.  Þetta er allt önnur Afríka


Sterki stjórnarherrann í Afríku

Eitt hið skemmtilegasta við það að dvelja í Kampala er að hlusta á og taka þátt í pólitískum umræðum hér.  Mönnum er heitt í hamsi og skoðanir eru skiptar á því hver og hvernig halda eigi um stjórnartaumana.

Margir, svosem Rwandískur maður sem ég á langar samræður við, telja að Afríku sé nauðsynlegt að hafa sterka leiðtoga.  Viðmælandi minn kveðst hafa starfað með pólitískum armi RPF (Rwandian Patriotic Front að ég held), um það leyti sem þeir réðust inn í Rwanda í eftirmála þjóðarmorðsins á Tutsum 1994.  Hann er ánægður með það hvernig til hefur tekist eftir að nýir stjórnarherrar tóku við og þakkar Kigame hershöfðingja og forseta landsins friðinn og þá uppbyggingu sem orðið hefur á undaförnum áratug.

- He just ordered people to live together and they do!

Almenn sátt virðist að stærstum hluta ríkja með stjórnarfyrirkomulag í landinu, þrátt fyrir að fólki finnist tjáningarfrelsi vissulega takmarkað. Það virðist og rétt að byltingarherinn, sem kom Hutu power frá völdum, fór skipulega yfir og hefndaraðgerðir voru furðufáar (sé miðað við það að það var nýbúið að slátra 800000 ættingjum og vinum innrásarmanna).  Hart var tekið á ofbeldisverkum og að megninu til hefur verið reynt að fara lögformlegar leiðir í því að refsa glæpamönnum, a.m.k. ef marka má það sem ég hef hlerað og lesið.  Í Rwanda ríkir friður núna og þar eru jákvæðir hlutir að gerast er mér tjáð; ég hitti að máli forstöðumann górilluþjóðgarðs og hún tekur undir þetta - við erum báðar í raun furðu lostnar yfir þessu.  hvernig er hægt að bbúa við hliðina á manni sem drap alla fjölskyldu þína og nágranna án þess að sjá rautt?

Það er styrk stjórn núna í Rwanda og það er líklega rétt að hún heldur fólki saman og kemur í  veg fyrir að allt fari í bál og brand.  Því að auðvitað kraumar undirniðri.  og ég get ekki að því gert að mér verður hugsað til Jógóslavíu og Tító.  Hvað gerist þegar Kigame fellur frá?

------------------------------------

Í Úganda eru skoðanir mjög skiptar orðnar um ágæti Musaveni.  Manni virðist helst að hann sé á nokkuð sömu leið og aðrir sterkir stjórnarherrar í Afríku - sem sé hinni slæmu.  Spilling meðal samverkamanna hans er rázðandi og sumir segja að konan hans, sem ekki gegnir neinu opinberu embætti, hafi ansi mikið um það að segja hvert opinbert fjármagn rennur.  Og horfi þá ekki mikið neðar en Marie Antoinette í þeim efnum.

Á meðan ég er í Kampala er um fátt annað talað í ræðu og riti en skandalsins með Global fund fjárveitingar upp á milljarða, sem var stolið.  Búið er að handtaka hátt setta stjórnarliða og fyrrverandi ráðherra vegna málsins, sem er auðvitað allt hið vandræðalegasta fyrir Úgandísk stjórnvöld, ekki síst þegar til þess er tekið að menn virðast sammála um að peningarnir hafi allir farið í kosningabaráttu Musaveni og samflokksmanna hans í fyrra að mig minnir.  Kannski þar sé komin forsendan fyrir tilgangslausu trjánum í Kalangala?

Og svo stendur fyrir dyrum stórfundur samveldislandanna í nóvember (CHORGUM, ef ég fer rétt með).  Þangað ætla þjóðhöfðingjar 59 samveldislanda að mæta og drottningin sjálf.  Drottningarhollir Úgandabúar eru svekktir.  Finnst drottningin svíkja með því að segja ekkert gegn spillingunni sem þrífst í landinu og láta það viðgangast að mestallt fjármagnið sem veitt er vegna fundarins renni í vasa þeirra sem fyrir eru ríkir - og í kattarþvott á borginni. 

- This is an evil queen, segir einn þeirra sem ég ræði við.

Fimm stjörnu hótel rísa út um allt til að hýsa prjálliðið í þrjá daga á meðan stærstur hluti þjóðarinnar býr við fátækt og kröm.  Vegkantar eru hreinsaðir og skýli, sem hýsa smáfyrirtæki fátæklinganna eru jöfnuð við jörðu, látin hverfa því að ekki viðjum við að þjóðhöfðingjarnir þurfi að sjá að hér ríki fátæktin meðal fólksins. Og hvað verður svo þegar fundinum lýkur? 

Einn kunningi minn segir hvasst:

- Hvurslags heimilisfaðir er það sem tekur bara til þegar von er á gestum?  Á maður ekki alltaf að reyna að halda gott heimili? 

Hvað segir þú, Beta?


Kampala - Kalangari

Thad er tiltolulega audvelt ad gelyma thvi i midborg Kampala, ad madur se staddur i einu fataekasta riki heims.  Borgin er lifleg og fallega stadsett, liggur a morgum haedum sem mynda thannig natturulega hverfaskiptingu.  Byggdin er blondud, thannig ad madur verdur ekki var vid serstok slum, eda fateakrahverfi, heldur ma i grifum drattum segja ad eftir thvi sem ofar dregur i haedabyggdinni, thvi betur staedari eru ibuar.

Thad er ekki fyrr en komid er ut i uthverfin ad raunverulegar adstaedur ibua rifjast upp, og se siglt ut a eyjuna Kalangala verda thaer ollum ljosar.

 

Kalangalaeyjar eru um 84 talsins og thar af er byggd a 63.  Ibuarnir eru ekki nema 36 thusund, eftir thvi sem mer er sagt og samgongur milli eyjanna strjalar og erfidar, eigi folk ekki eigid farartaeki.  Rafmagn hefur ekki verid lagt ut i eyjarnar, thratt fyrir ad thvi hafi verid lofad, og i fyrra voru af stjornarflokknum (ad mer skilst) settir upp rafmagnsstaurar i meginthorpinu og strengdir milli theirra vir.  Thetta eru gagnlausustu tre a eyjunum.

Eg mun skrifa meira um Kalangala sidar.


Póstkort frá Kampala

Örstutt skilaboð til þeirra sem hafa verið að kíkja á mig:

 

Mikið þykir mér gaman að því að vita af ykkur!

Á morgun fer ég á Kalangalaeyju í Viktoríuvatni, verð í sambandi þegar ég kem tilbaka.

 

Og Logi:  að sjálfsögðu sjáumst við næsta vetur! 


Nairobi

Ég er að keyra á flugvöllinn í Nairobi.  UNESCO fundurinn afstaðinn og ég búin að tékka mig útaf fína hótelinu.

Á leið á flugvöllinn verð ég aftur slegin af þeim myndum sem við blasa.  Og ég hef aftur nægan tíma til að velta þeim fyrir mér; í Nairóbi virðist alltaf vera umferðarteppa og 18 kílómetrarnir á flugvöllinn eru farinir á einum og hálfum klukkutíma. Og hægt og rólega breytir borgin um svip:  frá grænum görðunum í kringum fínu hótelin og hús hinna ríku, til ruslahauganna utan við hverfi hinna fátæku.

Það gefst góður tími til spjalls við bílstjórann minn á leiðinni, eins og gefur að skilja. Hann heitir Peter, er giftur tveggja barna faðir.  Konan hans hefur verið frá vinnu frá því í nóvember eftir að hún smitaðist af berklum í kviðarholi.

Ég lít út um gluggann og sé konu bogra yfir litlum ræktunarskika utan við verksmiðjuhús.  Peter segir mér að fólk nýti sér auð svæði til þess arna.  Þessi reitur sé í eigu bjórverksmiðjunnar og að ef ákveðið verði að nýta hann verði hún að láta sig hverfa.  En á meðan skikar eru ekki nýttir reyni fólk að rækta matjurtir á þeim. 

Við ökum fram á geitahóp.   "Þetta eru ólöglegar geitur," segir Peter.  "Það er ólöglegt að selja þær hér, það á að selja þær á sérstökum stöðum.  En sláturhúsið er hér rétt fyrir innan og það er ekki ólöglegt að koma með geit á sláturhúsið.  Þess vegna stelst fólk til að kaupa geitur af þessum mönnum á lægra verði og rölta með í slátrun. 

Við silumst fram úr reiðhjólum með háum stöflum afg kössum, og mönnum sem ýta á undan sér drekkhlaðnar handherrur.  þetta eru menn sem kaupa vörur á markaðnum, fara með í úthverfin og selja þeim sem ekki eiga heimangengt.  Allstaðar er verið að búa til virðisauka.

Á ruslahaug við veginn er fólk að gramsa í leit að einhverju nýtanlegu.  Tötrum klæddur maður staldrar við og starir á ljósastaur.  Beygir sig niður, tínir plastsnifsi upp úr vatnsræsinu sem rennur meðfram haugnum.  Hann hristir plasitð til að hreinsa það, og fer svo að tína eitthvað af staurnum.  hvað það er sé ég ekki, en það er greinilega einhvers virði fyrir hann.  Svo setur hann samanbrotið plastið í vasann sinn og heldur áfram ráfi sínu.

Peter er duganaðarforkur. Eftir að konan hans veiktist fékk hann sér heimilishjálp, en auk þess er hann með tvo menn í vinnu við að yrkja 5 ekru land sem hann á.  Aðspurður um hvort honum líki það að aka leigubíl segir hann:  "It is better than doing nothing".

Hann er einnig með ákveðnar hugmyndir um hvað mætti betur fara í landinu.  Við horfum á þrjá menn með harðkúluhatta, sem virðast vera að moka holu.  Einn mokar og tveir standa hjá.  "Ég held að allir geti unnið í þessu landi.  Og ég held að það væri hægt að skapa atvinnu.  Ekki bara ríkisstjórnin heldur allir.  Sko, ef allir sem eiga peninga gerðu eins og ég, fjárfestu í jörð eða einhverju og réðu menn í vinnu, þá væru sköpuð fullt af störfum. Og þannig gætu hjólin farið að snúast."

Mér verður óhjákvæmilega hugsað til ráðherra í ríkisstjórn Kenya, sem eru með milljónkall í laun á mánuði.  Ætli þeir hugsi eins? 

 Aðspurður um spillingu segir hann að jú, það sé svolítil spilling núna meðal æðstu ráðamanna, en ekkert eins og þegar arap Moi var við völd.  þá var algengt að hringt væri í banka og mönnum tilkynnt að veita lán - til manna sem aldrei greiddu svo af þeim.  Þannig voru mörg hótel og stórhýsi í Nairobi byggð.

 

Aðalvandinn núna segir Peter að sé vanhæfni - incompetence.  Hann vísar í holóttar götur höfuðborgarinnar sér til stuðnings, en rekur líka dæmi um afurðageymslur, sem byggðar voru að hans sögn út um allt land fyrir 1,6 milljarða íslenskra króna.  Svo standa þær núna ónotaðar, vegna einhvers ótilgreinds vandamálss, en engu að síður séu ráðnir verðir og eytt í þær rafmagni til að viðhalda þeim. 

Það er hressandi að tala við Peter.  Hvort sem maður er sammála honum eða ekki, þá er hann með ákveðnar hugmyndir um land sitt og þetta eru ekki hugmyndir sem ganga út á aðkomu erlendra aðila - nema þá til fjárfestinga.  Ef ykkur sem lesið þetta vantar góðan leigubílstjóra í Nairóbi, þá er ég með nafnspjaldið hans. 


Dagmar

Ég er á tali við samferðakonu mína hér á UNESCO þinginu í Nairobi.  Sú á sér merkilega sögu:

Hún starfaðiu með FRELIMO í Tansaníu á meðan þau samtök börðust gegn nýlendustjórn Portúgala í Mósambík, bjó í Japan lengi og kynntist þar belgískum manni sínum, flutti til Zimbabwe, en var rekin úr landi eftir ágreining við stjórn Mugabe, hrökklaðist til Kenya og þaðan til Bandaríkjanna þar sem hún er fædd. Þar sem þau horfðu á útsendingu frá Suður Afríku af því þegar Mandela var sleppt úr haldi, ákváðu þau að flytja til Suður Afríku til að leggja sitt af mörkum til uppbyggingar eftir apartheid tímabilið, þá full bjartsýni og hugsjóna.

En nú ríkja vonbrigðin ein hjá henni, að minnsta kosti er það tilfinningin sem ég les út úr því sem hún segir mér.  Hugsjónirnar eru fyrir bí.

Dagmar og maður hennar búa núna í Jóhannesarborg, bakvið fimmvalt hlið, með verði.   Hún segir mér að sá ótti sem búi hið innra með henni nú geri hana sorgmædda vegna þeirra áhrifa sem hann hefur haft á sýn hennar á mannkyn.  

Háskóli sá sem hún hóf störf við í upphafi og settur var á stofn á apartheidtímanum af hvítu fólki fyrir innfædda, í andstöðu við vilja stjórnvalda, er núna orðinn algjört spillingarbæli, þar sem fordómar gagnvart hvítu fólki eru allsráðandi.  ANC virðist sífellt færast fjær því að vilja lýðræðislega umræðu og gagnrýni, og hefur t.a.m. hrósað stjórnvöldum Mugabe í Zimbabwe síðastliðnar þrennar "kosningar" fyrir framkvæmd.

"Ég segi öllu ungu fólki sem ég kemst í tæri við að fara bara.  Fara eitthvert þar sem raunverulegt lýðræði og jafnræði ríkir.  En við förum ekkert.  Hvert ættum við svosem að fara? Hálfsjötug?  Við verðum áfram þar sem við erum," segir Dagmar.  "En æ, hvað ég er vonsvikin." 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband