Dagmar

Ég er á tali við samferðakonu mína hér á UNESCO þinginu í Nairobi.  Sú á sér merkilega sögu:

Hún starfaðiu með FRELIMO í Tansaníu á meðan þau samtök börðust gegn nýlendustjórn Portúgala í Mósambík, bjó í Japan lengi og kynntist þar belgískum manni sínum, flutti til Zimbabwe, en var rekin úr landi eftir ágreining við stjórn Mugabe, hrökklaðist til Kenya og þaðan til Bandaríkjanna þar sem hún er fædd. Þar sem þau horfðu á útsendingu frá Suður Afríku af því þegar Mandela var sleppt úr haldi, ákváðu þau að flytja til Suður Afríku til að leggja sitt af mörkum til uppbyggingar eftir apartheid tímabilið, þá full bjartsýni og hugsjóna.

En nú ríkja vonbrigðin ein hjá henni, að minnsta kosti er það tilfinningin sem ég les út úr því sem hún segir mér.  Hugsjónirnar eru fyrir bí.

Dagmar og maður hennar búa núna í Jóhannesarborg, bakvið fimmvalt hlið, með verði.   Hún segir mér að sá ótti sem búi hið innra með henni nú geri hana sorgmædda vegna þeirra áhrifa sem hann hefur haft á sýn hennar á mannkyn.  

Háskóli sá sem hún hóf störf við í upphafi og settur var á stofn á apartheidtímanum af hvítu fólki fyrir innfædda, í andstöðu við vilja stjórnvalda, er núna orðinn algjört spillingarbæli, þar sem fordómar gagnvart hvítu fólki eru allsráðandi.  ANC virðist sífellt færast fjær því að vilja lýðræðislega umræðu og gagnrýni, og hefur t.a.m. hrósað stjórnvöldum Mugabe í Zimbabwe síðastliðnar þrennar "kosningar" fyrir framkvæmd.

"Ég segi öllu ungu fólki sem ég kemst í tæri við að fara bara.  Fara eitthvert þar sem raunverulegt lýðræði og jafnræði ríkir.  En við förum ekkert.  Hvert ættum við svosem að fara? Hálfsjötug?  Við verðum áfram þar sem við erum," segir Dagmar.  "En æ, hvað ég er vonsvikin." 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband