Kampala-Windhoek

Windhoek er við fyrstu kynni algjörlega absúrd borg, eftir upplifanir mínar undanfarnar vikur.  (Ég býst fastlega við því að Frosti vinur minn skilji sérstaklega hvað ég á við með þessu lýsingarorði). Líklega er ég í einhverskonar kúltúrsjokki. 
Eftir að hafa eytt undanförnum vikum austanmegin í Afríku, heimssvæðis sem ég hef þó haft einhver kynni af áður, þá finnst mér eins og ég sé komin, ja, ég veit ekki hvert?  Ég líkti því að koma til Maputo frá Malawi um daginn við það að fara til Kaupmannahafnar, en það var ekki góð líking, sé eg núna.  Því að ef það var Kaupmannahöfn, þá er þetta Potsdam.
Í morgun var samsetning farþega í vélinni til Windhoek með miklu nýjabrumi.  Meirihlutinn voru bleiknefjar, meirihlutinn talaði þýsku.  Ég sat við hliðina á indælum þýskum hjónum sem hrósuðu mér fyrir þýskuna (Þjóðverjar gera það alltaf hvernig sem maður misþyrmir henni) og tóku undir þegar ég rifjaði upp söguþráð bókarinnar sem ég var að ljúka við að lesa, “On the other side of silence” eftir André Brink.  Ég mæli sterklega með henni. Við vorum sammála um að saga Þjóðverja í landinu væri ekki falleg – en á hitt ber auðvitað að líta að AB beinir sjónum sínum eingöngu að því illa. Núna búa í Namibíu margir afkomendur þýskra innflytjenda, sem ekki mega vamm sitt vita.
Bók AB litar líka fyrstu upplifun mína af landinu, þegar ég keyrði frá flugvellinum til borgarinnar.  Saga konunnar, sem send er á skipi ásamt öðrum fátækum, ungum þýskum konum, til handargagns (og annarra líkamshluta) fyrir þýska landnema og hermenn í nýlendunni.  Útlegð hennar í eyðilendum Namibíu, kynni hennar af hrjóstrugri náttúrunni.  Af vísu skáldsaga, en svo fantavel skrifuð að söguhetjan Hanna X líður mér seint úr minni.
Vangaveltur um harðstjórn Þjóðverja og síðari tíma apartheid stjórn Suður Afríku leiða þó óneitanlega hugann að því hversu friðsamlega virðist hafa tekist til með sjálfstæðið frá Suður Afríku 1990.  Hér virðist ríkja meiri sátt meðal ólíkra íbúa en t.d. í nágrannaríkinu.  Ég þarf að velta þessu fyrir mér á næstu dögum – getur ekki verið að fæstir íbúar hafi verið sáttir við aðskilnaðarstefnu Suður-Afrísku stjórnarherranna?

Og svo keyrum við inn í Windheok. Á leiðinni sé ég ekkert fólk.  Viðbrigðin frá yfirfullum löndunum hinum megin í álfunni eru ótrúleg.
Í borginni sjálfri, þ.e. þeim hluta sem keyrt er gegnum á leið frá flugvellinum í miðbæinn eru göturnar tómlegar en snyrtilegar, húsin vel byggð, búðirnar fallegar.  Og það er svalt; mér finnst ég vera í Evrópu að hausti. Ég hef verið bókuð inn á afskaplega fínt hótel í miðbænum.  Þar er spilavíti og ferðamenn, sem eru dónalegir við starfsfólk, hreyta í það skipunum og krefjast þess með þjósti að barinn verði opnaður.  Ég fer í fýlu og upp í herbergi. Ég fíla ekki þetta hótel.


Síðdegis fæ ég mér stuttan göngutúr um miðbæinn.  Það er ekki mikið fólk á ferli, fáir bílar, engir í skúr að selja símakort, engir að selja samósur og tómata, en nokkrir að selja minjagripi, sem við fyrstu sín eru alveg eins og þeir sem eru seldir hinum meginn í álfunni.  Ég geng upp Fidel Castro götu og beygi inn á Robert Mugabe.  Á þessari leið eru tveir minnisvarðar, annar um hetjurnar þýsku sem féllu í stríðinu gegn Nama þjóðflokknum í lok 19. aldar, hinn um hetjurnar, samlanda þeirra, sem féllu í baráttunni gegn Herero þjóðflókknum í upphafi þeirrar tuttugustu.  Það er enginn minnisvarði um Namafólkið eða hvað þá heldur Herero. Ég á ekki orð. (Kemst reyndar að því síðar að þau eiga sinn minningagarð, en er sagt að Ovambofólkið, sem ræður mestu hér í landi er sosem ekkert umfram um að upphefja aðra þjóðflokka.  Veit ekki hvað er til í því).


Ég er algjörlega týnd.  Ég þarf að reyna að skilja þetta land.  Þetta er allt önnur Afríka


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband