Mánudagur, 7. maí 2007
Nokkurnvegin lent
Það er svo undarlegt að þessar fyrstu stundir sem ég hef átt í Afríku að þessu sinni hafa ekki síst falist í að rifja upp minningar. Ég er að koma aftur til Malawi eftir 15 ár og það kemur mér sjálfri á óvart hvað sú upplifun er sterk.
Malawi var fyrsta landið í Afríku sem ég heimsótti og jafnframt fyrsta landið utan Vesturlanda. Hver einasti dagur í þeirri ferð fól í sér einstaka upplifun og reynslu sem með einhverjum hætti býr með mér enn í dag. öll skilningarvit foru yfirfyllt, sjón, heyrn, lykt, snerting...stundum var það yfirþyrmandi, svo sem eins og fyrsta heimsóknin á markaðinn (verð að komast þangað aftur). Þrátt fyrir að núna sé ég bara búin að vera í einn dag hér, og þrátt fyrir að ferðin sé á næsta ólíkum forsendum við fyrri ferð, þá finnst mér dýrmætt að hafa reynsluna frá 1992.
Og margt hefur breyst. Þá var Banda við völd og meðal þess sem ég þurfti að finna út úr var að koma mér upp pilsum í samræmi við opinberar reglur um pilsasídd kvenna (konum var bannað með lögum að vera í buxum, svo og pilsum sem náðu upp fyrir hné). Veitingastaðir voru faír og fátæklegir, það var ekkert sjónvarp rekið í landinu...raunar allt má segja lúxusvandamál, en þó aðstæður sem juku á þá tilfinningu að hér væri maður í öðrum heimi.
Fleira er þó það sem ekki hefur breyst. Malawar eru upp til hópa hjálpsamasta og kurteisasta fólk sem ég a.m.k. hef kynnst (hljómar hjárænulega - en ég meina það). Börnin eru ólýsanlega falleg. Lilongwe er enn undarleg - ekki eins og borg, heldur frekar eins og risastórt, hálffalið þorp. Maður getur verið að keyra í henni miðri og verið eins og úti á landsbyggðinni.
Og ég er enn besti vinur moskítóflugna, sem leita allra leiða, getum net og skerma til að geta verið í nágrenni við mig og hjalað við mig á nóttunni. Ég svaf í einnoghálfan tíma aðfararnótt sunnudags, á elleftu hæð á hóteli í Nairóbí. Hvernig komast þær svona hátt? Og hver sagði þessari að ég væri á staðnum?
Og að lokum þá eru aðstæður almennings því miður lítt breyttar frá því sem var. Malawi er enn eitt af fátækustu ríkjum heims, misskiptingin gífurleg og fátæktin við völd á flestum sviðum. Rafmagn fer af með reglulegu millibili, umferð er lítil. Landið er háð framlögum Vesturlanda að langstærstum hluta, spilling er vandamál og uppbygging víða erfið. Það er ekki minnst það sem hefur setið með mér í fimmtán ár og sem gerir það að verkum að ég reyni eftir megni að kveða niður eigin væl um vandamál. Því að samanborið við daglegt líf fólks á þessum slóðum eru öll mín vandamál lúxusvandamál. Ég er heppin.
Athugasemdir
Blessuð nafna, gott að heyra að allt gengur vel og gaman að lesa um lífið í Malavi. Þetta með flugurnar................ kannski er það nafnið. Var einu sinni í hitabylgju á Grikklandi, svaf/svaf ekki... af illri nauðsyn í gammosíum, sokkum, langermabol og batt hálsklúta um hendurnar............... og þá bitu þær mig í kinnarnar. Hafðu það gott, knús, ÓRÁ
Ólöf Ragna (IP-tala skráð) 8.5.2007 kl. 09:27
Sæl Ólöf,
gaman að heyra af aðstæðum í Malaví, ég styrki barn í gegnum SOS en hef ekki nema óljósa hugmynd um hvernig aðstæður eru í landinu.
Hvað ertu að gera í Lilongwe? Ertu í samstarfi við einhverja hjálparstofnun eða á eigin vegum?
kv. Birna
birna, 8.5.2007 kl. 10:59
Halló mín fagra líklega tilvonandi mágkona!!
Mikið er gott að heyra af þér, þó mér þyki nú frekar leiðinlegt að heyra að það sé um það bil verið að æta þig lifandi. Ég þakka einmitt fyrir það í hverri utanlandsferð að skordýrum finnist ég ekki góð á bragðið.
Annars vona ég að þú hafir það sem allra best, njótir upplifunarinnar í botn og almennt skemmtir þér vel.
Risa kveðja Alla
Alla (IP-tala skráð) 8.5.2007 kl. 18:13
Sæl Ólöf, vissi ekki að þú værir svona sjóuð í Afríkuferðum. Fróðlegur pistill og gaman að fá að fylgjast með ævintýrinu, hlakka til að heyra meira. Vona að flugurnar séu búnar að venjast nærveru þinni. Hafðu að gott og gangi þér vel með verkefnið. Hlýjar kveðjur frá svala Íslandi. Lína
Lína (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 12:22
Hæ bíóklúbbsmeðskvísa! Vona að allt gangi að óskum. Við á klakanum erum sannarlega lúxuspakk, verð svo oft að minna mig á það en það er erfitt að muna í landi alsnægta. Að því leytinu til er þessi ferð til Afríku án efa holl. Fyrir utan allt annað, svo sem að þú ert að takast á við spennandi verkefni, e-að sem skiptir máli held ég bara. Mikið skil ég vel hvað þú hlýtur að sakna Emblunnar þinnar, en tíminn flýgur hratt! Lára S. Baldursdóttir
Lára S. Baldursdóttir (IP-tala skráð) 13.5.2007 kl. 21:54
Ég fór í fyrsta sinn til Afríku í vor:
http://visir.is/apps/pbcs.dll/section?Category=VEFMIDLAR&Template=VefTV&ChannelID=10&ProgID=31875&ProgType=19002&progCItems=1
Það var ótrúleg upplifun. Ég skil vel hvað þú átt við. Maður fyllist einhverskonar blöndu af vanmáttarkennd og samviskubiti. Það er allt svo framandi og spennandi. Ég hafði engin sérstök áform um að fara til Afríku en ætla klárlega að gera það aftur. Og þangað til að reyna að leggja mitt af mörkum
Logi
ps.
Sjáumst við ekki örugglega næsta vetur?
Logi (IP-tala skráð) 13.5.2007 kl. 23:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.