Annað land - önnur mynd

Þegar farið er milli Malawi og Mósambík á einum degi birtast manni tvö gjörólík lönd.  Það grundvallast auðvitað ekki síst á því að flogið er milli höfuðborganna. Maputo er bara allt annar heimur en Lilongwe.  Fyrrnefnda borgin hefur á sér yfirbragð borgar, með miðbæ, veitingahúsum, götulífi og umferð.  Hin síðarnefnda er ósýnileg.  Hún er eins og mörg lágreist þorp, tengd saman með óupplýstum vegum.  Eftir Lilongwe leið mér eins og ég væri komin til Kaupmannahafnar þegar við renndum í hlað við Polana shopping center.

Ekki það að ég sé endilega að leita eftir Köben.  Ég dvaldi í Monkey Bay tvo síðari daga mína í Malawi og endurupplifði þar fyrri Malawidvöl.  Malawi er eitt af fimm fátækustu ríkjum heims og sú staðreynd hverfur manni ekki úr sýn þegar ferðast er um landsbyggðina.  Fólk er allstaðar á ferli, jafnvel löngu eftir myrkur, við óupplýsta þjóðvegina. Umferðarslys eru nú orðin meðal 10 algengustu dánarorsaka Malawa, ef ég skil heimidarmann minn rétt.  Þetta skýtur ansi skökku við, sé litið til þess hversu lítil umferð er.  Í Monkey Bay sjást nær engir aðrir bílar á ferð en almenningsfarartæki og bílar ICEIDA.  Jú og reiðhjól.  Alveg hellingur af reiðhjólum, með tveimur og jafnvel þremur farþegum.

Fegurðin niðri við Malawivatn er óviðjafnanleg.  Ég gisti í einu húsi ICEIDA, í Chiromboþorpi við ströndina.  Um kvöldin ráfaði ég niður að ströndinni, keyrði hnakkann aftur á hrygg og sneri mér í hringi.  Óteljandi stjörnur skinu á himinhvolfinu, fleiri en nokkurn tímann sjást á Íslandi. NSvefninn kom snemma, enda orðid dimmt um klukkan sex og mið nótt um klukkan níu.  Þess vegna var eðlilegt að vakna fyrir sex aðmorgni, liggja um stund og hlusta á konurnar þvo þvotta í vatninu og börnin leika sér í kringum þær. Fyrsti kaffibollinn var drukkinn á skuggsælum svölum með útsýni yfir vatnið. 

Meira síðar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband