Miðvikudagur, 16. maí 2007
Monkey Bay
Ég er á gangi með Matthews. Hann er í skólanefnd Zamboskóla, í lítilli vík við Malawivatn. Þar lifir fólk á fiskeríi. Veiðimenn fara út á vatn um miðja nótt til að veiða sardínur, tvær bátkænur saman, önnur með litlum mótór, hin kanó, sem holaður er úr trjábol. Vegna ofveiði upp viðströndina þarf sífellt að leita lengra út á vatn, allt upp undir fjóra tíma.
Þeir strengja netið milli bátanna í myrkrinu. Einhverjir eru með ljós, til að laða sardínurnar upp á yfirborðið. Þegar sést í fiskinn, er bátunum siglt saman og netið lokast. Það er kolniðamyrkur og stundum blæs upp án viðvörunar. Það er enginn í björgunarvesti. Margir drukkna.
Matthews á fimm börn með konu sinni. Hún er með tannpínu, hefur verið í heilan mánuð. Tanndráttargaurinn segir hana ekki geta komið í tanndrátt fyrr en bólgan hefur hjaðnað. Mér sýnist ljóst að hún er með sýkingu. Matthews og kona hans ala líka önn fyrir sex munaðarleysingjum úr fjölskyldunni. Slíkt er algengt hér. Ekki bara er starfið lífshættulegt, heldur deyja margir úr sjúkdómnum.Ég þarf ekki aðspyrja hvaða sjúkdóm verið er að tala um.
Við komum niður að strönd. Þar sitja veiðimennirnir flötum beinum að staga í nót. Tvær ungar mæður sníkja far með okkur tilbaka til Monkey Bay. Þær eru að fara með börnin sín á spítalann. Við setjum alla í björgunarvesti, siglum af stað á sléttu vatninu, framhjá Chisali, þar sem sardínurnar liggja til þerris á hjöllunum.Sjáðu, segir hann og bendir á hóp af konum og börnum. Þarna er þorpshöfðinginn.
Ég skanna hópinn. Þarna er enginn höfðinglegur karl. Hvar, spyr ég.
Hún situr þarna með höfuðklútinn. Eigum við aðheilsa upp á?Ég jánka því. Spyr hvort hann haldi að ég megi taka mynd.
Nei, segir Joseph. Það er ekki góð hugmynd. Höfðingjar þurfa alltaf að fá borgað fyrir öll svona aukaviðvik.
Við stígum út úr bílnum og göngum að húsinu. Joseph kynnir mig á Chichewa. Allir flissa. Ég spyr hvað hann hafi sagt. Hann gefur lítið út á það, segir að hann hafi sagt mig vera að rannsaka ICEIDA.
Mbulibwansi, segir ég. Allir hlæja. Höfðinginn tekur undir. Mdelibwini, segi ég. Allir hlæja glaðir og gefa mér þumalinn upp. Mér líður eins og ég hafi unnið mikið afrek á sviði tungumála. Svo horfumst við í augu. Segjum ekki margt, enda fátt sem við getum sagt hvor við aðra. Svo kveð ég. Kann reyndar ekki að segja bless á Chichewa svo ég segi bara bæbæ. Enn hlæja allir. Börnin veifa.
Þegar við erum komin í bílinn aftur spyr ég Joseph hvort algengt sé að konur séu höfðingjar.
Já, núorðið, svarar hann. Ekki áður.
Ég veit ekki við hvað hann er að miða. Kannski útbreiðslu sjúkdómsins.
Og er hún góður höfðingi?
Já, svarar Joseph. Hún er hljóðlát.
Hvað meinarðu?
Sumir höfðingjar öskra og æpa til aðleysa mal. Hún leysir hlutina í hljóði. Þannig eru góðir höfðingjar.
Athugasemdir
Blessuð nafna.
Frábært að lesa bloggin þín, mér fannst ég næstum því geta upplifað umhverfið og stemninguna þegar ég las um Matthew. Liggur við að maður skammist sína að vera bara að vinna við sitt skrifborð og vera á leiðinni í grillveislu í kvöld - engin tannpína og engin örbyrgð. kv. Ólöf
Ólöf Ragna (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 13:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.