Föstudagur, 8. júní 2007
Allt tekur enda
Mér tekst að fara í safari einn síðasta daginn minn í Namibíu. Ek af stað snemma morguns frá Shcwarzkopmund, upp úr þokunni og inn í land. Eftir því sem innar kemur í landið verður gróðursælla, ef þannig má að orði komast. Enn er langt í land með það að gróðurþekjan líkist iðagrænum völlum Uganda, en um það leyti sem ég átta mig á því að ég er rammvillt terk ég líka eftir því að ég er komin í allt annað vistkerfi.
Ég hringi á hótelið mitt til að fá leiðbeiningar. Starfsstúlkan flissar þegar ég segi henni hvar ég er.
- Þú átt alls ekki að vera þarna, segir hún og vísar mér sem leið liggur í nýjar villur. Ég ek inn stórgrýttan vegarspotta eftir tilmælum hennar, hitti þar fyrir fúllyndan eldri mann sem fer í ennþá meiri fýlu þegar ég biðst undan því að gista hjá honum frekar en á hótelinu og þegar ég er búin að loka á eftir mér hliðinu á leið tilbaka að aðalmalarveginu ("Enter at your own risk") fæ ég stærsta áfall ferðarinnar.
Ég rigsa að bílnum til að halda áfram. Bíldyrnar eru læstar. Bíllinn er í gangi, síminn milli sætanna og ég kemst ekki inn. Ég mun þurfa að ganga tilbaka eftir áhættuslóðanum, leita ásjár hjá fýlukallinum. Ég tek á öllu sem ég á til sem yfirvegaður þátttakandi í samfélagi þjóðanna og finn réttu viðbrögðin við þessari katastrófu:
- Neiiiiiiiiii! arga ég út í runnaþekjuna og stappa niður fæti. Nei!Nei!Nei!Nei!
Og svo sé ég að stýrið er öfugu megin. Skömmustuleg geng ég hinum megin að bílnum og sest undir stýri. Helvítis vinstri umferð. Eins gott að ég var ein. Keyri sem hraðast í burtu, ef kallinn skyldi hafa heyrt til mín, það var jú ekki nema kílómeter að bænum og ég með nokkuð sterk lungu.
Daginn eftir endurheimti ég æruna í eigin huga þegar ég sýni einstök viðbrögð og sveifla mér undir stýri í safaritrukknum eftir að stýrið bilar og fararstjórinn gleymir að taka bílinn úr gír þegar hann fer út að sparka í dekkið til að geta beygt. Hlýt aðdáun mikla frá austurrísku húsmóðurinni sem er með mér í för og bjartasta bros álfunnar frá fararstjóranum, sem er því fegnastur hversu hamingjusöm við erum með að vera á ónýtum bíl í grennd við nashyrninga og önuga fílafjölskyldufeður. Og eftir að hafa keyrt til Windhoek á bílaleigubílnum, án áfalla og án þess að brjóta fleiri umferðarreglur en þær að smygla mér gegnum vegartálma ökuskírteinislaus, þá er komið að því að kveðja. Ekki bara Namibíu heldur Afríku alla. Að sinni.
Í þessum rituðu orðum, þar sem ég sit í íbúð bróður míns í Rotterdam innan um óhreina tauið mitt, þá liðast upp úr fatahrúgunni gamalkunnug lyktin af brenndum viði. Afríkulyktin.
Og ég er strax farin að þrá að fara aftur.
Ég set nokkrar myndir inn á þessa síðu á næstu dögum, en mun að öðru leyti hætta skrifum hér með.
Athugasemdir
Skemmtilega ævintýralegur endir á skemmtilegu ferðalagi. Njóttu þess vel að knúsa Embluna þína í Rotterdam - já og kannski bara Jón líka
Lilja & co (IP-tala skráð) 8.6.2007 kl. 17:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.