Verða breytingar í Burma?

Það eru merkilegar fréttirnar sem berast frá Búrma (eða Myanmar eins og ofbeldisfull herforingjastjórnin og einhverjir íslenskir fréttamenn nefna landið).  Búddamunkar virðast leiða mótmæli, sem færast í aukana dag frá degi. 

Mun Aung San Suu Kyi, sem hefur hefur í stofufangelsi meira og minna í nærri tvo áratugi  upplifa það að fara frjáls ferða sinna? Það verður áhugavert að sjá hvort árangur verði af mótmælunum nú - og ekki síður hvort jákvæðar breytingar verði án blóðsúthellinga.

Það verður einnig áhugavert að fylgjast með viðbrögðum ráðamanna annars staðar í heiminum við þessum frengum ef einhver verða.  Frá því að Suu Kyi var hneppt í stofufangelsi hafa Vesturlönd tvisvar farið í stríð til að "bjarga lýðræðinu", í bæði skiptin við Írak, Júgóslavía hefur sprungið í loft upp og alþjóðasamfélagið hefur brugðist við, Rúanda hefur upplifað aðgangsharðari þjóðernishreinsanir er nasistar stóðu fyrir í síðari heimstyrjöld (og við gerðum reyndar ekkert þá) og svo mætti lengi telja. 

Með hvaða hætti munu ráðandi öfl á Vesturlöndum styðja við lýðræðisbaráttu í Búrma?


mbl.is Þúsundir mótmæla í Myanmar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vatn og átök

Ef rétt er að mikill vatnsforði hafi fundist á þessu hrjáða svæði er það vel, enda er það víst svo að Janjaweed ofstopamennirnir sem riðið hafa röftum þarna í rúm fjögur ár eru að upplagi arabískir hirðingjar sem mættu hindrunum á ferðum sínum eftuir að vatnsskortur fór að vera viðvarandi í Darfur.  Hins vegar er óvíst að átökum linni með því einu að vatn finnist, því miður.  Átökin í Darfur eru margræðari en svo - og ekki síst fyrir þá sök að ráðamenn í Khartoum sjá sér hag í að viðhalda þeim.

Vatnsskortinn í Darfur má líklega rekja til margþættrar umhverfisánauðar:  loftslagsbreytinga, ofnýtingar jarðvegs með ýmsum hætti, minnkandi bindingar jarðvegs samfara aukinni sókn í eldivið.  Og e.t.v má tengja þetta allt með einhverjum hætti við enn eitt vandamálið sem steðjar að Afríku: offjölgun.  Með vaxandi mannfjölda eykst ásókn í takmarkaðar auðlindir.

 En á meðan spilltir ráðamenn kjósa að mylja undir sig afrakstur af auðlindum landsins frekar en að beina þeim í félagslega uppbyggingu, menntun og heilsugæslu er næsta víst að  ógæfu Afríku verði áfram allt að vopni. 


mbl.is Vatnsforði fannst í Darfur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tifandi testósterónsprengjur

 Það er löngu þekkt vandamál  að í Kína sé mikið hörmungarfár yfirvofandi - vegna eins barns stefnunnar í bland við viðtekin viðhorf í dreifbýlissamfélögum (til að einfalda málið töluvert og kannski um of).  Kvenbörnum fækkar sífellt, kynjahlutfallið skekkist og ljóst er að þegar er orðinn umtalsverður skortur á gjafvaxta konum til að giftast "litlu keisurunum", sem svo eru stundum kallaðir þegar dálæti foreldranna þykir hafa keyrt fram úr hófi. 

Þegar eru farnar að birtast frétir af ungum konum sem rænt er og þvingaðar í sambúð fjarri heimabyggð sinni og ýmislegt bendir til þess að ofbeldisverkum karla í Kína fjölgi í öfugu hlutfalli við framboð á kvenfólki, hvort sem í því felst orsakasamhengi eða ekki (eða getur maður keypt það að litill aðgangur að kynlífi með gagnstæðu kyni hlaupi beint í árásargirnina?).

Í það minnsta er einnig skrafað um það að skortur á konum í miðausturlöndum, og þar með fá tækifæri til giftinga (og ég hlýt nú hrokafull að kaupa það að sambúð við konu hafi róandi og uppbyggileg áhrif á örgeðja karlmenn) leiði af sér vaxandi ólgu meðal karlanna þar.

Ég var sem sé að lesa áhugaverða bloggfærslu á vefsíðu Foreign Policy (allir þessir tenglar eru þaðan).  Þar er vitnað í skýrslu Berliner Institut für Bevölkerung und Entwicklung þar sem fram kemur að vel menntaðar konur flytjast nú brott frá Austur-Þyskalandi langt umfram karlmennina.

Í grein í der Spiegel er bent á að auk þess að hafa haft neikvæð áhrif á fólksfjölgun og nýburafæðingar, sé kjörlendi þýskra nýnasista þar sem hlutfallið er hvað skakkast milli kynja.  Þar fjölgi þeim ungu mönnum sem gangi í slík samtök.  

 Að vísu, sé myndin sem fylgir bloggfærslunni skoðuð, þá verður manni á að hugsa að ekki sé undarlegt að konurnar flýi ef þetta er dæmi um úrvalið á þessum svæðum.  Eða myndi einhver kvenmaður með sjálfsvirðingu láta sjá sig með þetta nynasskrípi upp á arminn?


Kóksíró í tvöbíó

Fór í tvöbíó í gær með tvær títlur að sjá Shrekþrjú. 

Það er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi, skemmti mér vel, enda brandararnir oft á tíðum nær reynsluheimi fullorðinna en barna - á meðan börnin skemmtu sér líka þá er það vel.  Hins vegar fannst mér skrýtið að sitja undir auglýsingunum í upphafi. 

Nú má gera ráð fyrir að í tvöbíó séu áhorfendur í yngri kantinum, ekki satt, og því skildi ég ekki alveg hvers vegna fyrsta auglýsingin var kóksíróauglýsingin karlrembulega.

Í fyrsta lagi var hún á ensku, sem fæst íslensk börn undir fjögurra ára skilja meira en hrafl í (kunna flest þó að hrópa jess!). Í öðru lagi var hún svo hávær að börnin gripu flest fyrir eyrun, enda heyrn ungra barna viðkvæmari en okkur steingerða fólksins.  Í þriðja lagi, þá finnst mér bara, burtséð frá því að börnin skilja ekkert, asnalegt að hlusta á ungan mann kalla eftir einfaldari brjóstahöldurum og minni forleik í sal fullum af yngstu borgurunum.  Og þaðan af erfitt af svara spurningunni: hvað var hann að segja?

Það er eitthvað sem segir mér að bíóhaldarar gætu sýnt meiri þroska og tillitsemi við þessa viðskiptavini sína með því að ritskoða aðeins þær auglýsingar sem bornar eru á borð á barnasýningum.

Í kjölfar karlrembugaursins kom svo auglýsing fyrir einhverja yfirmáta innantóma og hallærislega unglingsstelpumynd sem tengist eitthvað Bratzdúkkunum ógeðslegu.  Tekið skal fram að hefði ég vitað af þessum tveimur auglýsingum hefði ég frestað því að ganga í salinn fyrr en að þeim loknum. 
Kannski bíóeigendur ættu að gefa upp hvaða auglýsingar á að áreita börnin í tvöbíó með, svo að við foreldrarnir getum nýtt þau réttindi okkar að velja ofan í þau innrætinguna?



Birtingarmynd svo margra vandamála

Í áhengdri frétt kemur fram (sem rétt er farið með) að ein "röksemdin" fyrir limlestingum kvenna í þessum hlutum Afríku sé að með því sé komið í veg fyrir lauslæti kvenna og tryggð þeirra við eiginmanninn fest í sessi.

Í hvert sinn sem ég heyri þessa röksemd ráðamanna í þessum löndum þá setur mig hljóða. Vegna þess að það eru ekki konurnar sem eru lauslátar í þessum löndum.  Það eru ekki eiginkonurnar sem breiða út HIV. Meðal ákveðinna hópa karla er lauslætið yfirgengilegt, þeir smita eiginkonurnar og stinga þær svo af þegar þær veikjast.  Þeir sækja í barnungar stúlkur í von um að það lengi lífdaga þeirra.  Þarna er verið að henda brunnlokinu og kasta börnunum ofan í. Og eyðnin herjar áfram miskunnarlaust.

Svo sitja konurnar eftir, með barnahópinn og geta sér engar bjargir búið.  Skólaganga barnanna fyrir bí og stundum eina lífsbjörgin sú að stunda vændi. Það er að segja ef þær ekki deyja úr barnsförum vegna fyrrnefndrar limlestingar. Og munaðarleysingjum fjölgar með ógnarhraða.

Það er alveg ljóst að þessar athafnir eru smánarlegar og að gegn þeim þarf að berjast. Þær og þá sem mæla þeim bót má tengja við flest stærstu vandamálin sem hrjá íbúa þessara fátæku landa.


mbl.is Giftingar barna bannaðar en umskurn kvenna leyfð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hitt bloggið

Vildi bara benda þeim sem villast hingað inn á að ég er með annað blogg (sjá lista hér að ofan) sem tengist ferðum mínum nú um stundir...

 Ó


Fyrir okkur sem þjáumst af Weltschmertz

Sjá þennan tengil:

http://www.foreignpolicy.com/story/cms.php?story_id=3783&fpsrc=ealert070430

Margt áhugavert til lestrar þar...

Að því sögðu bið ég að heilsa í bili. 

 


Af slæðum og súffragettum

Á sunnudaginn (29. apríl) mátti í Morgunblaðinu lesa erlendan vikuspegil um pólitískt ástand í Tyrklandi.  Þar í landi ríkir stjórnarkreppa, þar sem líklegt er að næsti forseti landsins verði úr röðum AKP flokksins, sem í upphafi greinarinnar er lýst sem hófsömu afsprengi íslamskrar hreyfingar.  Í gær mátti í sama blaði lesa að þessi stjórnarkreppa geti orðið vatn á myllu Íslendinga í viðleitni þeirra til að vinna sæti í öryggisráðinu á næsta ári.  (Raunar mátti alveg túlka fréttina sem svo að fyrir okkur væri það jákvæður viðburður ef þetta 70 milljón (að ég held) manna ríki myndi lenda í alvarlegum stjórnarfarslegum hremmingum.  Undarlegt sjónarhorn fréttamannsins a.m.k.)

Fram kemur í greininni að andstæðingum þessa þyki alvarlega vegið að aðskilnaði ríkisvalds og trúar, sem hefur verið meginstoðin í satjórnskipulagi tyrkneska ríkisins allt frá því að Ataturk lýsti landið lýðveldi árið 1923 (margar áhugaverðar skáldsögur ssem gerast í Tyrklandi vísa í þessa atburði og áhrif hans á þjóðfélag og samfélagsgerð í Tyrklandi).  Það er ekki síst herinn sem hefur stutt þennan aðskilnað og beitt sér gegn öllum tilhneigingum til þess að auka vægi trúarinnar í stjórnun landsins (gaman aððí að herinn skuli vera talinn málsvari veraldlegs lýðræðis einhversstaðar...).  Í frétt Morgunblaðsins í dag kemur fram að forsætisráðherra (Erdogan), samflokksmaður forsetans tilvonandi (Gul), leggi til að forseti verði þjóðkjörinn.

Fyrirsögn samantektarinnar í Sunnudagsblaðinu er “Höfuðklútur Harissu” og er þar vísað til þess að eiginkona forsetans tilvonandi fer ekki út á meðal fólks nema með slæðu – og slíkt er bannað með lögum í Tyrklandi. Frúin hefur mátt berjast hatrammlega fyrir klútnum sínum, m.a. hefur hún kært til Mannréttindadómstóls Evrópu þá ákvörðun háskólans í Ankara að leyfa henni ekki að stunda nám með slæðu.  Það kemur einnig fram í greininni að dætur Erdogans hafi farið til Bandaríkjanna til að fá að stunda háskólanám með slæðuna á sér, en að dóttir Guls þrjóskist við í háskóla í Tyrklandi, með hárkollu yfir slæðunni.

Þegar konur gengu sem harðast fram í því að berjast fyrir sjálfsögðu jafnrétti á ýmsum sviðum mátti gjarnan sjá þess stað í einmitt uppreisn gegn þvingandi klæðaburði, korselettum, brjóstahöldurum – og ég raunar hef aldrei skilið hvers vegna nælonsokkar eru ekki úthrópaðir.  Á póstmódernískum tímum hafa þessi klæði verið hafin til vegs og virðingar.  Madonna klæðist þeim utanyfir eins og Súperman nærbuxunum, tískuflíkur eru hannaðar með hliðsjón af fyrrum pyntingartólum fyrir konur og síðast en ekki síst virðast konur í tónlistarmyndböndum upp til hópa annað hvort kjósa eða hafa bara efni á að ganga í nærfötum einum klæða.  Kristileg tákn eru á Vesturlöndum nýtt í tískiskartgripi og hafa lengi verið, gjarnan sem fylgihlutir við téð nærhöld.

Það er áhugavert að bera þessa þróun saman við þá útbreiddu skoðun að gagnrýnivert og raunar neikvætt sé að heimila íslömskum konum að hylja hár sitt – kjósi þær svo.  Er ekki hægt að gera tískuflíkur úr hárslæðum?  Er saga hárslæðanna neikvæðari en saga korseletta úr hvalbeini, sem afmynduðu innylfi vestrænna kvenna um árabil?  Eða teljum við konur í miðausturlöndum allstaðar vera komnar skemmra á veg í réttindabaráttu sinni, þannig að ólíklegra sé að þær veifi slæðunum með póstmódernískum hætti?  Á maður kannski að reyna að setja upp hliðstæða mynd – segjum svo að tilvonandi forsetafrú á Íslandi væri í söfnuði sem leggði bann við að konur hefðu stutt hár og krefðist þess að þær gengju í hnjásíðum pilsum?  Myndum við vilja banna konunni að ganga í hnésíðu pilsi?  Myndum við kjósa forseta sem ætti svona konu?  Og ef Tyrkir kjósa Gul í almennri kosningu, hvort segir það okkur þá? Að Tyrkir séu nægilega póstmódernískir til að telja það ekki skipta máli að eiginkona forsetans vilji hylja hár sitt af trúarástæðum, eða að Tyrkland sé að hverfa til þess að verða trúarríki?
Hvort fá slæður (eða krossar, eða kollhúfur, eða korselett, eða brjóstahaldarar...) aukið táknrænt vægi séu þær bannaðar eða leyfðar?  Og hvernig, kannski fyrst og fremst, getum við tryggt að sannanlega frjálst val liggi að baki ákvörðun konu um klæðaburð? 

Og að lokum þá bara spyr ég: Ef AKP er “hófsamt afsprengi íslamskrar hreyfingar”, þýðir það þá að hann sé eins og kristilegir demókratar í Þýskalandi?  Frú Kohl skildist mér eyddi mestum sínum tíma í að elda handa kallinum...en það var aldrei talað um að kristilegir demókratar væru hófsamt afsprengi kristinnar hreyfingar?  Hvað þýða eiginlega þau hugtök sem við notum?

Spyr sá sem ekki veit...


Hvað er þetta hvað?

Og aftur hef ég lesið bók.

Þ.e. bók sem ég tel þess virði að hvetja aðra til að lesa...

Ég rakst um daginn í bókabúð M&M á Laugavegi á bók sem heitir "What is the what". Hún er frásögn eins hinna "týndu drengja", barnungra flóttamanna frá suður Súdan, sem hröktust fótgangandi um Súdan, Eþíópíu og Kenya, en var á endanum boðið til Bandaríkjanna til að hefja nýtt líf.  Á hrakningi sínum um heimaslóðir sínar upplifðu þessir drengir (og auðvitað allar þessar milljónir flóttamanna sem enn mega lifa í ótta) ótrúlegar hremmingar, raunar þannig að "hremmingar", "ógnir", "skelfingar" eru ekki réttu hugtökin.  Ég tel reyndar að ekkert hugtak á íslensku megni að lýsa þeim kringumstæðum sem fólk á stríðshrjáðum svæðum Afríku þarf að búa við í daglegu lífi sínu.

Hvað um það.   Í frásögn Valentino flettast saman frásögnin af flótta hans í Afríku við atburðarrás í nútíð, í Bandaríkjunum, þar sem hann hefur upplifað vonir en einnig vonbrigði, öryggi - en ekki síður öryggisleysi.  Mismunandi aðstæðum hans er teflt saman á merkilegan hátt, lífi á flótta, lífi í flóttamannabúðum og nýju lífi sem innflytjandi.  Sýn hans á Bandaríkin er oft sérstæð, enda ber á hann að baki líf gjörólíkt því sem við þekkjum.  Eins er vonleysinu í flóttamannabúðunum vel lýst og ekki síður því yfirgengilega öryggisleysi sem felst í því að vera á hrakningi mánuðum og árum saman.

 Og hvað er þetta hvað?  Kannski eru það  þau forréttindi að grípa tækifæri sem bjóðast, kjark til að stíga út í óvissuna og ekki síst þau forréttindi að alast upp við von um bjarta framtíð. 


Hvað er þetta hvað?

Og aftur hef ég lesið bók.

Þ.e. bók sem ég tel þess virði að hvetja aðra til að lesa...

Ég rakst um daginn í bókabúð M&M á Laugavegi á bók sem heitir "What is the what". Hún er frásögn eins hinna "týndu drengja", barnungra flóttamanna frá suður Súdan, sem hröktust fótgangandi um Súdan, Eþíópíu og Kenya, en var á endanum boðið til Bandaríkjanna til að hefja nýtt líf.  Á hrakningi sínum um heimaslóðir sínar upplifðu þessir drengir (og auðvitað allar þessar milljónir flóttamanna sem enn mega lifa í ótta) ótrúlegar hremmingar, raunar þannig að "hremmingar", "ógnir", "skelfingar" eru ekki réttu hugtökin.  Ég tel reyndar að ekkert hugtak á íslensku megni að lýsa þeim kringumstæðum sem fólk á stríðshrjáðum svæðum Afríku þarf að búa við í daglegu lífi sínu.

Hvað um það.   Í frásögn Valentino flettast saman frásögnin af flótta hans í Afríku við atburðarrás í nútíð, í Bandaríkjunum, þar sem hann hefur upplifað vonir en einnig vonbrigði, öryggi - en ekki síður öryggisleysi.  Mismunandi aðstæðum hans er teflt saman á merkilegan hátt, lífi á flótta, lífi í flóttamannabúðum og nýju lífi sem innflytjandi.  Sýn hans á Bandaríkin er oft sérstæð, enda ber á hann að baki líf gjörólíkt því sem við þekkjum.  Eins er vonleysinu í flóttamannabúðunum vel lýst og ekki síður því yfirgengilega öryggisleysi sem felst í því að vera á hrakningi mánuðum og árum saman.

 Og hvað er þetta hvað?  Kannski eru það  þau forréttindi að grípa tækifæri sem bjóðast, kjark til að stíga út í óvissuna og ekki síst þau forréttindi að alast upp við von um bjarta framtíð. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband