Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Miðvikudagur, 12. desember 2007
Hræsni Evrópu?
Mugabe kemur heim af fundi Evrópusambandsríkja og Afríkuríkja og lætur að því liggja að hann hafi komið séð og sigrað. Á meðan er allt í rugli á heimaslóðum. Það er auðvitað hverjum manni ljóst að Mugabe er að klúðra málum með einstökum hætti, en í neðangreindri grein af Open Democracy er bent á að hinum háa hesti Evrópuríkja fylgiróneitanlega meira en lítil ólykt af hræsni: það er sem sé ýmislegt sem þau þyrftu að svara fyrir þegar kemur að ástandi mála í álfunni. Og án þess að ég telji rétt að taka undir slíka fortíðarhyggju án gagnrýnnar hugsunar, þá bendi ég fólki á að lesa þessa grein, þar sem viðskilnaður Breta við Zimbabwe annarsvegar og Kenya hinsvegar er borinn saman.
http://www.opendemocracy.net/article/democracy_power/africa/zimbabwe_kenya
Mugabe fagnað við heimkomuna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 12. desember 2007
Vatnsskortur í Sómalíu
Hér er tengill á áhugaverða myndasíðu um afleiðingar vatnsskorts í Sómalíu. Í texta sem fylgir myndunum er bent á að afleiðingar vatnsskortsins eru margvíslegar - ekki bara þær sem varða sjúkdóma og erfiðleika við dýraeldi, heldur t.d. á möguleika flóttamanna (þ.e. IDP, innan eigins lands) til þess að afla sér tekna. Konur afla sér einkum tekna með þvottum - og ef ekkert er vatnið fækkar enn möguleikum þeirra til sjálfsbjargar.
Sjá tengil:
http://www.opendemocracy.net/article/democracy_power/africa/somalia_women_water
Miðvikudagur, 28. nóvember 2007
Ýmsir listar hjá Foreign Policy
FP var að birta lista um hin ýmsu málefni. Þ.á.m. er Globalization index ársins 2007, um margt áhugaverður. Bara leiðinlegt að Íslands er hvergi getið...við erum svo smá. ÞAð væri þó áhugavert að vita hvar við myndum lenda í svona samanburði, ekki síst í ljósi þess að áhnattvæðingarstikunni virðist skipta miklu máli að vera smáþjóð.
http://www.foreignpolicy.com/story/cms.php?story_id=3995&page=0
Af öðrum þörfum listum má nefna lista um verstu flugvelli í heimi, þar af einn í Evrópu, CDG í París...
http://www.foreignpolicy.com/story/cms.php?story_id=4032
Og síðast en ekki síst, lista um eftirsóttustu einhleypu leiðtoga heims, svona fyrir þá sem sækjast eftir því að vera makinn á bakvið manneskjuna ...
http://www.foreignpolicy.com/story/cms.php?story_id=4043
Miðvikudagur, 28. nóvember 2007
Embættismenn sem samviska stofnunar
Mótmæli Guehenno minna óneitanlega á átök Roméo Dalliere við yfirmenn sína á tímum þjóðarmorðsins í Rúanda. Dalliere, yfirmaður friðargæsluliða í Rúanda, reyndi í örvæntingu fyrst að benda á yfirvofandi hörmungar og svo að kalla eftir nauðsynlegum mannafla og aðbúnaði þegar hryllingurinn byrjaði. Yfirmenn hjá SÞ voru hins vegar uppteknir af alls konar pólitík, hnattrænni og persónulegri, og því fór sem fór.
Það er illt til þess að hugsa, eftir allla þá gagnrýni sem beint hefur verið að friðargæslumálum, ef ekki tekst að beita alþjóðasamfélaginu í þetta sinn heldur þannig að árangur verði af.
Skilyrði Súdana óásættanleg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 25. október 2007
Ótrúlegt langlundargeð samkynhneigðra
Hvaða "niðurstaða" er þetta?
"Í tillögunni, sem er að meginefni til samhljóða upphaflegri tillögu biskups Íslands, segir að ef lögum um staðfesta samvist verði breytt þannig að trúfélög fái heimild til að staðfesta samvist þá styðji Kirkjuþing það, að prestum þjóðkirkjunnar, sem séu vígslumenn að lögum, verði það heimilt.
Setningunni, sem eru vígslumenn að lögum" var bætt inn í upphaflegu tillöguna. Jafnframt var dregin til baka önnur tillaga, sem lá fyrir Kirkjuþingi, um að prestum verði heimilt að vígja í staðfesta samvist, verði trúfélögum veitt slík lagaheimild."
Þýðir þetta að prestar ætli í uppreisn ef hjúskaparlögum verði breytt, en ekki lögum um staðfesta samvist? Eru kirkjunnar menn að gefa löggjafarvaldinu tilmæli um hvernig það eigi að haga málum? Telur kirkjan sig enn hafa þau völd að geta sagt kjörnum fulltrúum þjóðarinnar fyrir verkum?
Og hvernig í ósköpunum getur eitthvað verið að því að einstakir prestar fái að vígja þau pör saman sem þeir kjósa, sé eftir því leitað? Ég get ekki séð að í því felist nokkur þvingun fyrir þá afturhaldssömu, sem enn telja kirkjuna vera valdastofnun í samfélaginu.
Mér finnst í raun ótrúlegt hversu samkynhneigðir hafa verið þolimóðir í þessu máli. Og ég get ekki séð að þetta verði til þess að laða fólk að kirkjunni svona almennt. Þessi "niðurstaða" leiðir frekar hugann að nauðsyn þess að skilja að kirkju og ríkisvald.
Verum meðvituð um að niðurstaða er fengin og gleðjumst yfir því" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fimmtudagur, 25. október 2007
Skilgreiningarfenið: Hvenær drepur maður mann?
Í nýjasta fréttabréfi Foreign affairs er vísað í rúmlega tveggja ára gamla grein sem Scott Straus ritaði um þrasið sem virðist oftast eiga sér stað þegar kemur að því að skilgreina og/eða bregðast við þjóðarmorðum. Tilefni tilvísunarinnar er sú ákvörðun utanríkisnefndar Bandaríkjaþings (ef það er rétt þýðing á House Foreign Affairs committee) að setja þennan stimpil á ofbeldisverk Tyrkja gegn Armenum snemma á íðustu öld.
Í grein Straus benti hann á að eftir allt argaþrasið um hvort yfirhöfuð mætti kenna skipulegt, þjóðerniskenndt ofbeldið í Darfur við þjóðarmorð hafi í raun lítið áunnist eftir að það náðist í gegn. Samþykktir Sameinuðu þjóðanna reyndust þegar á hólminn var komið ansi máttlausar - enn eina ferðina. Niðurstaða höfundar er: minna þras - meiri aðgerðir.
Fyrir þá sem vilja rifja upp ástandið í Darfur, nú þegar kastljós fjölmiðlanna beinist í aðrar áttir:
Í greininni er einnig áhugaverð upprifjun á tregðu bandarískra yfirvalda (og raunar allra) til að nota hugtök sem hefðu getað þvingað Vesturlönd til aðgerða þegar þjóðarmorðið í Rwanda átti sér stað.
Mánudagur, 15. október 2007
Skynsemi gegn hvers kyns öfgum
Það er illt til þess að vita að fulltrúi Íslands - í nafni einhverskonar "valfrelsis" eða "sjálfræðis" einstakra aðildarríkja Evrópuráðsins birta svo sérkennilega afstöðu til vísindakennslu sem raun ber vitni. Hún virðist líka hafa misskilið Evrópuráðið eitthvað. Evrópuráðið er ekki Evrópusambandið - langt í frá.
Ályktanir á borð við þá sem Evrópuráðið var hér að samþykkja eru ekki á nokkurn hátt bindandi fyrir einstök aðildarríki, heldur birta meginafstöðu til einstakra mála - og þar með til þeirra ríkja sem eiga fulltrúa á þinginu. Guðfinna var ekki á Evrópuráðsþinginu sem einstaklingur - hun var þar sem fulltrúi Íslands.
Er opinber afstaða Íslands sem sú sú að það sé rétt að leggja að jöfnu í vísindakennslu þróunarkenningu og sköpunarhyggju? Þarf þá ekki í nafni trúfrelsis að fara að kenna sköpunarhugmyndir heiðinna manna, hindúa, búddista og annarra trúarbragða? Við hljótun að geta treyst einstökum menntayfirvöldum fyrir því (til að vitna í orð hennar í Speglinum í kvöld).
Eða er almennt talið að eingyðistrúarbrögð hafi einhverja réttari sýn á sköpun heimsins en þeir sem t.d. aðhyllast fjölgyðistrú? Og telur Guðfinna viskilega að afstaða Íslands sé sú að þessar kenningar eigi allar að geta lagst að jöfnu við þróunarkenninguna, sem er grundvöllur nútímasýnar á lífið hér á jörðu og í raun forsenda stórs hluta þeirrar líffræðilegu þekkingar sem m.a. liggur til grundvallar nútímalæknisfræði?
Á þessum tímum, þar sem mikilvægt er að leggjast gegn hvers kyns trúarofstopa, af hvaða tagi sem hann er, er mikilvægt að missa ekki sjónar á ákveðnum grunngildum. Ég er hrædd um að Guðfinna hafi hér gleymt í fyrsta lagi hvar hún var - og í nafni hvaða samfélags hún var að kjósa.
Harma afstöðu Guðfinnu Bjarnadóttur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 15. október 2007
Hin mörgu andlit efnahagsvaxtar
Hinn gífurlegi efnahagsvöxtur í Kína á undanförnum árum hefur ýmsar afleiðingar. vaxandi launamunur er eitt þeirra og það verður áhugavert að sjá hvort stjórnvöld taki á honum með því að beina sjónum að því að auka velferð fátækrar alþýðu eða herja á þá sem efnast hafa. Enn er það svo að obbi Kínverja í þessu víðfeðma kommúnistaríki býr án þeirrar samfélagshjálpar sem maður hefði haldið að ætti að vera aðall kommúnískrar alræðishyggju skv. bókstafnum - að allir fái skv. þörfum sínum.
Þegar hafa borist fréttir af því (í Newsweek fyrir 2-3 vikum) að borgarstjóri Beijing hafi skorið upp herör gegn áberandi áuglýsingum um hégómagirnd og auð, á þeirri forsendu að slíkar auglýsingar hafi neikvæð áhrif á þá sem ekkert hafa - og þeir eru vissulega enn fjölmargir - auk þess að gefa neikvæða mynd af kínverski þjóðarsál (sé hún yfirhöfuð til í þessu ógnarfjölmenna ríki). Þessi áhersla borgarstjórans er, eins og flest annað sem viðkemur ímynd Kína þessa dagana, tengt væntanlegum ólympíuleikum.
Í heimsókn minni til Kína fyrir rúmum þremur árum sló það mig hversu ákaflega Kínverjar gengu fram í að breyta yfirbragði borganna sinna, rífa niður byggingar sem mintu á gamla tíma og byggja upp háhýsi og glerhús. Þetta er raunar annað sem talið er afleiðing skyndilegra efnahagsframfara, og veldur áhugamönnum um menningarlegar minjar og varðveislu verulegum áhyggjum. Sjá umfjöllun á: http://www.opendemocracy.org/democracy-photography/heritage_3233.jsp
Kannski þyrftu Kínverjar sín eigin Torfusamtök - það hversu þeir forsmá hið gamla minnir dálítið á viðlíka viðhorf hér áður en augu okkar opnuðust fyrir því að fortíð okkar, þótt lágreist sé, er líka mikilvægur partur af því hver við erum.
Það verður ekki síður áhugavert að sjá hvort og þá hvernig Kínverjar hyggjast taka á þeim gífurlega mengunarvanda sem hrjáir landið - mér er enn minnistæður pirringurinn í hálsinum sem ég losnaði ekki við á meðan ég dvaldi í Beijing - og útsýnisskorturinn, þegar gula slikjuna lagði yfir borgina á stilltum morgni. Það vandamál er ekki einkamál Kínverja frekar en mengunarmál annarra þjóða og eins og allt annað í Kína er það stórt í sniðum. Kannski verður fjallað um þetta af einhverju viti á þingi hins alvalda kommúnistaflokks?
Forseti Kína lýsir áhyggjum af vaxandi launamun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 28. september 2007
Ólíku saman að jafna
Ég get ekki að því gert að minnast orða forseta okkar í tengslum við persaflóastríðið 1991, þegar hann fullyrti að ef aðalatvinnuvegur Kuweit hefði verið gulrótarrækt, þá hefði alþjóðasamfélaginu verið slétt sama um að "bjarga lýðræðinu" þar á bæ. Orð hans öðluðust enn merkingu í þjóðarmorðinu í Rúanda 1994, svo og þegar litið er til allra þeirra gleymdu stríða og harðstjórna sem einhverra hluta vegna virðist ekki taka því að minnast á.
Og eftir nokkra daga verða mótmælin barin niður af hörku og smám saman verður Búrma aftur eitt af gleymdu löndunum. Herforingjastjórnin fer sínu fram áfram og risafyrirtæki gera fleiri samninga við hana um að leggja gasleiðslur þar sem fólk er flutt nauðungarflutningum og látið vinna nauðungarvinnu.
Það væri gott ef þetta gerðist ekki.
Í Morgunblaðinu í morgun er að finna ferðalýsingu blaðamanns og minningar hennar frá samtölum við innfædda í Burma fyrir einhverjum árum. Hún getur þess að það sé sérkennilegt hvað þrátt fyrir allt sé stutt í brosið. Þegar ég las þessi orð urðu aftur hjá mér hugrenningatengsl: fyrir um áratug las ég dulbúna auglýsingu í formi lesendabréfs frá ónefndum ferðafrömuði sem stóð þá fyrir ferðum til Austurlanda fjær. Hann gat líka um brosmildi búrmískrar alþýðu - setti hana í það samhengi að það væri vitleysa að vera að halda því fram að þjóðin væri kúguð.
Það er eins gott að þessi aðili er ekki sérstakur heimildarmaður um umheiminn.
Mannfjöldanum í Yangon var dreift | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 24. september 2007
Verða breytingar í Burma?
Það eru merkilegar fréttirnar sem berast frá Búrma (eða Myanmar eins og ofbeldisfull herforingjastjórnin og einhverjir íslenskir fréttamenn nefna landið). Búddamunkar virðast leiða mótmæli, sem færast í aukana dag frá degi.
Mun Aung San Suu Kyi, sem hefur hefur í stofufangelsi meira og minna í nærri tvo áratugi upplifa það að fara frjáls ferða sinna? Það verður áhugavert að sjá hvort árangur verði af mótmælunum nú - og ekki síður hvort jákvæðar breytingar verði án blóðsúthellinga.
Það verður einnig áhugavert að fylgjast með viðbrögðum ráðamanna annars staðar í heiminum við þessum frengum ef einhver verða. Frá því að Suu Kyi var hneppt í stofufangelsi hafa Vesturlönd tvisvar farið í stríð til að "bjarga lýðræðinu", í bæði skiptin við Írak, Júgóslavía hefur sprungið í loft upp og alþjóðasamfélagið hefur brugðist við, Rúanda hefur upplifað aðgangsharðari þjóðernishreinsanir er nasistar stóðu fyrir í síðari heimstyrjöld (og við gerðum reyndar ekkert þá) og svo mætti lengi telja.
Með hvaða hætti munu ráðandi öfl á Vesturlöndum styðja við lýðræðisbaráttu í Búrma?
Þúsundir mótmæla í Myanmar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |