Færsluflokkur: Dægurmál

Hvað er þetta hvað?

Og aftur hef ég lesið bók.

Þ.e. bók sem ég tel þess virði að hvetja aðra til að lesa...

Ég rakst um daginn í bókabúð M&M á Laugavegi á bók sem heitir "What is the what". Hún er frásögn eins hinna "týndu drengja", barnungra flóttamanna frá suður Súdan, sem hröktust fótgangandi um Súdan, Eþíópíu og Kenya, en var á endanum boðið til Bandaríkjanna til að hefja nýtt líf.  Á hrakningi sínum um heimaslóðir sínar upplifðu þessir drengir (og auðvitað allar þessar milljónir flóttamanna sem enn mega lifa í ótta) ótrúlegar hremmingar, raunar þannig að "hremmingar", "ógnir", "skelfingar" eru ekki réttu hugtökin.  Ég tel reyndar að ekkert hugtak á íslensku megni að lýsa þeim kringumstæðum sem fólk á stríðshrjáðum svæðum Afríku þarf að búa við í daglegu lífi sínu.

Hvað um það.   Í frásögn Valentino flettast saman frásögnin af flótta hans í Afríku við atburðarrás í nútíð, í Bandaríkjunum, þar sem hann hefur upplifað vonir en einnig vonbrigði, öryggi - en ekki síður öryggisleysi.  Mismunandi aðstæðum hans er teflt saman á merkilegan hátt, lífi á flótta, lífi í flóttamannabúðum og nýju lífi sem innflytjandi.  Sýn hans á Bandaríkin er oft sérstæð, enda ber á hann að baki líf gjörólíkt því sem við þekkjum.  Eins er vonleysinu í flóttamannabúðunum vel lýst og ekki síður því yfirgengilega öryggisleysi sem felst í því að vera á hrakningi mánuðum og árum saman.

 Og hvað er þetta hvað?  Kannski eru það  þau forréttindi að grípa tækifæri sem bjóðast, kjark til að stíga út í óvissuna og ekki síst þau forréttindi að alast upp við von um bjarta framtíð. 


Samsærið gegn Ameríku - bók að lesa

Var að ljúka við að lesa bók Philips Roth, The plot against America.  Hún kom út í fyrra og fjallar um þá atburðarás sem fer af stað í Bandaríkjunum þegar flugkappinn, einangrunarsinninn og anti-semistinn Charles Lindbergh vinnur kosningarnar 1940 í stað Franklin D. Roosevelt.

Fyrstu afleiðingar þessa eru að Lindbergh fer á fund Hitler á Íslandi og semur frið milli Þýskalands og Bandaríkjanna, een samningurinn kveður m.a. á um að Bandaríkjamenn halda sig algjörlega utan við stríðsreksturinn, senda Bretum t.a.m. engin vopn og vistir.  Þetta breytir vitaskuld gangi stríðsins og gerir allan stríðsrekstur erfiðari fyrir Breta.  

Meginatburðarásin á sér þó stað á heimavígstöðvum, meðal gyðinga í Bandaríkjunum og það er þar sem ógnin verður áþreifanlegust og átakanlegust.

 Roth veltir upp áleitnum spurningum um sjálfsmynd manna í eigin augum og annarra; á meðan gyðingarnir sem eru í aðalhlutverkum söguþráðar líta á sjálfa sig sem margþættar manneskjur, Bandaríkjamenn, gyðinga, fjölskyldufólk, starfsmenn, börn, eiginmenn, eiginkonur, nágranna o.sv.fr. fara yfirvöld í Bandaríkjunum æ meira að leggja ofuráherslu á einn þátt í sjálfsmynd þeirra.  Gyðinglegur uppruninn verður kjarninn í þeirri mynd sem dreginn er upp af þessum samfélagshópi og allt annað sem gerir fólk að því sem það er verður að víkja.  Bókin lýsir þannig vel hættunni sem fylgir því að einblína á einn þátt í fari manna - og slík áminning hefur e.t.v. aldrei verið mikilvægari en í dag.

En bókin er margþætt og veltir upp fleiri spurningum sem varða stöðu manna í samfélagi sínu og þætti trúarbragða í samfélagsmyndum. Áberandi er að í bókinni er telft saman tveimur trúarhopum sem andstæðum, án þess að trúarbrögðin sjálf liggi sosem til grundvallar hjá almenningi.  Í raun líta aðalpersónur ssögunnar á sig sem gyðinga, bara af því að það er það sem þeir eru, það er ekki áberandi að trúarhiti þeirra sé meiri en sá sem ríkir t.a.m. hér á landi,m þar sem fólk fer í mesta lagi í kirkju á jólum og páskum. Það er athyglivert að ein áberandi persóna er einmitt trúarleiðtogi meðal gyðinga, sem "spilar með" ráðandi elítu og telur sjálfum sér trú um að þannig sé hann að leiða flokk sinn á braut bjargvættis, á meðan faðir aðalpersónunnar, sem er það sem kalla mætti "trúlausan" gyðing, sér alla tíð í gegnum yfirvöld og gerir sér grein fyrir að það sé einmitt gyðinglegur uppruninn sem verði beitt gegn fólki sínu, hvað sem það reynir að gera.

Í ljósi þeirrar umræðu sem orðið hefur vart við hér á landi, þar sem kvartað er undan því að útlendingar safnist í sérstök hverfi, er einnig athyglivert að rifja upp við lestur bókarinnar að í bandarískum borgum er algengt að fólk af svipuðum uppruna myndi sérstök hverfi og það er ekki lögmál að slíkt þurfi að verða vandamál.  Í bókinni er einmitt lýst tilraun til þess að blanda börnum gyðinga með "alvöru Bandaríkjamanna" og þeim sársauka og sjálfsmyndarmissis sem það leiðir til.

 Og ógnin ágerist.  "Samsærið gegn Ameríku" skilur eftir margar spurningar um samfélög dagsins í dag og umræðu okkar um þjóðfélags- og alþjóðamál - auk þess að vera áhugaverð skáldsaga úr smiðju eins helsta rithöfundar Bandaríkjamanna í dag.


Erkitýpa Íslendsingsins: undarlegheit

"...til að sýna fram á að eiginleikar hinna undarlegu (strange) Íslendinga eigi líka við um annað fólk". 

Ég sat ráðstefnu um daginn.  Ekki í frásögur færandi í sjálfu sér, umfjöllunarefnið áhugavert,  fróðleikur vel matreiddur, skipuagning til fyrirmyndar.  Nema hvað.  Í setningarávarpi sínu komst framsögumaður að orði einhvernveginn með ofangreindum hætti, og fundarstjórinn, sem tók við af honum, bætti um betur og sagði, með vingjarnlegu brosi, eitthvað á þá leið að það væri þakkarvert að fá tækifæri til að kynna sér rannsóknir á þessari furðulegu (wierd) þjóð.

Allir Íslendingar í salnum brostu á móti, stoltir yfir því að vera álitnir sérstakir.  Ég fékk kjánahroll.  

Hvað er það með okkur og mýtuna um undarlegheitin?  Hvers vegna göngumst við upp í því að vera álitin skrýtin á alþjóðavettvangi? Takið eftir, skrýtin - ekki sérstök.  Ég hef verið að velta þessu fyrir mér síðan ég hristi af mér hrollinn, en er eiginlega engu nær.  Ég hef leitað í huga mér að annarri þjóð sem leggur sig fram um að lýsa sér sem undarlegri, en ekki fundið. Ég hef heimsótt lönd þar sem lögð er áhersla á vinsemd,  gestrisni,  framtaksemi,  dugnað,  sköpun og þar fram eftir götunum.  Vissulega eru þessi hugtök notuð um Ísland og Íslendinga,  en hvers vegna viljum við líka vera álitin furðuleg?

 Þau einkenni, eða sérkenni sem gera okkur að þjóð eru kannski margslungin (á stundum á undanförnum árum hefur mér reyndar fundist tilhneigingin freklar beinast í þá átt að leggja áherslu á það sem skilur okkur að innbyrðis) og það er óneitanlega erfitt að reyna að finna sameiginleg þjóðareinkenni. 

Þrátt fyrir að við viljum líta á okkur sem sjálfstæð, er fjöldi manna ófær um að mynda sér sjálfstæða skoðun.  Þrátt fyrir að við segjumst unna íslenskri náttúru, umgöngumst við umhverfið af fáheyrðu virðingarleysi.  Þrátt fyrir að við viljum teljast fegurst og sterkust (vonandi reyndar úrelt óskhyggja, enda hallærisleg með afbrigðum), þá erum við nú bara svona í meðallagi - eins og hinir.  Þrátt fyrir að nú sé verið að draga upp ímynd fjármálasnillingsins til að lýsa okkur, þá berst ég eins og vinir mínir flestir við að reyna að skilja í hvað allir plús tíu peningarnir mínir fara í hverjum mánuði.  Þrátt fyrir að við vísum í agaleysi og djörfung, mæta nú flestir í vinnuna á réttum tíma og vanda sig við að tryggja börnum sínum öryggi, frekar en að lifa sem hinn frjálsi förumaður. Við erum eins og aðrar þjóðir, sem skilgreina sig innan landamæra, margbreytileg.  Einkennileg, vegna þess að við höfum fjölda misvisandi einkenna, sérkennileg vegna þess að hvert okkar hefur sín sérkenni. 

Kannski viljum við vera skrýtin, vegna þess að aðrir vilja sjá okkur þannig.  Kannski er það hið eina sem raunverulega heldur okkur saman.  Kannski vitum við sem er, að það sé ekkert til í þessu frekar en öðrum tilbúnum heildareinkennum og lítum á þetta sem sameiginlegan brandara þjóðarinnar. Eða kannski viljum við vera skrýtin vegna þess að það er skárra en ekkert.  

 


Hvað er með þessar skjáauglýsingar í Háskólanum?

Klukkan er hálfníu.  Eða rétt rúmlega það.  Ég kem höktandi inn á taktlausu hálfvalhoppi og æði gegnum kennslustofuna í Neskirkju.  Ég er að leita að kaffi.  

Kaffistofan opnar auðvitað ekki fyrr en eftir hálftíma - það er jú ennþá nótt. Þannig að ég neyðist til að bakka inn í kennslustofuna, kaffilaus í umræðutíma.  Um miðja nótt. Og eftir örlitla stund verð ég vör við sífellt suð, ekki hávært en þó ágengt, svona hljóð sem þú tekur því sem næst ekki eftir, en sem sargar á taugarnar.  Skjávarpinn í stofunni er í gangi en þegar ég lít upp sé ég ekki virðulegt innsigli HÍ, heldur gervilegt gleiðgosabrosið á skogellunni.  Og það rifjast upp fyrir mér að ég sá hana í gær líka, í tíma á Aðalbyggingu.  Síðar um daginn, þegar ég er að hefja kennslufyrirlestur í Eirbergi, þá birtist ljótmynnta gellan aftur. 

Ég velti fyrir mér: Hver bauð henni í Háskólann?  Af hverju eru farnar að birtast auglýsingar í frímínútum Háskólans? Er háskólanám bíó? Verður frímínútum fjölgað og farið að selja popp? Verða seldar auglýsingar á kennarana næst? Á þakið á Aðalbyggingu? Verða kennslustofur eins og íþróttavellir, með auglýsingaspjöldum allt í kring?

 

Eða borgar sig kannski frekar að fikra sig neðar í skólakerfið, fá heimild grunnskóla til að auglýsa síma, sælgæti, gosdrykki, skyndimat og tölvuleiki. Kannski getum við svo að lokum gert eins og var eitt sinn í Kólórado.  þar "sponsoreraði" Kókakóla skóla gegn því að fá að setja upp sjálfsala alls staðar í skólanum.  Samningurinn gekk út á að ef drukkið væri ákveðið magn gosdrykkja í skólanum á ársgrundvelli, þá fengi skólinn ákveðna upphæð. Þegar samningurinn virtist í hættu vegna of lítillar neyslu nemenda, þá hvatti skólastjórinn kennara sína til að leyfa nemendum að drekka gosdrykki í tímum.

 

Ég segi ekki að við séum endilega á þessari leið með ljótum símauglýsingum milli tíma í HÍ.  En finnst öllum í lagi að auglýsendur komist að allstaðar?  Kannski verður farið að auglýsa í kirkjum?!

Úps - það var jú í Neskirkju sem skogellan birtist mér fyrst - það vígi er fallið.  Þessi messa var í boði Ogskosímans. 

 


Og enn ertu kominn...

Þetta er vikan sem ég enduruppgötva skammdegið.  Það kemur á hverju ári og alltaf jafnmikið á óvart.  Allt í einu er orðið dimmt þegar ég fer út að kaupa í kvöldmatinn, það er dimmt þangað til að ég er löngu komin í vinnuna.  Þungir skýjaflókar koma í veg fyrir að dagsbirtan nái til jarðar, jafnvel svo dögum skiptir.  Myrkrið grúfir yfir, það er endalaust rökkur, vegna þess að hvorki snjór né sólargeislar ná að brjóta sér leið. 

Það eru til óendanlegar birgðir af rigningu þarna uppi.  Eina veðurfarslega tilbreytingin er þegar skyndilega dimmir enn meir og hávaðasamur hraglandinn lemur gluggana.  Ég hef kveikt á kertum allan daginn til að fá smá mýkt inn í lífið. 

Undarlegir eru reykvískir vetur.  Þeir koma aðallega fram í versnandi birtuskilyrðum, síður í kólnandi veðri.

Það er auðvelt að breytast í moldvörpu við þessi skilyrði.  Fá sér teppi, fara í lopasokkana og grúfa sig ofan í sófann.  Afneita tilverunni fyrir utan í nokkra mánuði – bíða þess að birta taki að nýju.  En slíkt þýðir víst ekkert.  Láti maður slíkt eftir sér er það uppskrift að atvinnuleysi, blankheitum og félagslegri einangrun. 

Því styn ég þungan þegar útvarpið kviknar að morgni.  Skreiðist fram úr til að njóta eigin fúllyndis í einsemd um stund - steypi í mig nokkrum lítrum af kaffi og rífst upphátt við dagblöðin.  Lími svo blíðlyndið utan á mig og fer inn til barnsins að vekja.  Bíð þess að hún brosi framan í mig og þíði yfirborðið svo blíðlyndið síist inn.  Það gerist alltaf.  Og víst verður bjart að nýju.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband