Miðvikudagur, 14. mars 2007
Ekki nytt vandamál, því miður
Ég var gestur í Zimbabwe í um vikutíma fyrir 15 árum. Á þeim tíma var Zimbabwe enn í góðum málum, þó blikur væru á lofti. Ég kom keyrandi inn í landið, eftir æsilega ferð gegnum Mósambík, sem þá var enn í helgreipum borgarastyrjaldar. Við vinkonurnar höfðum húkkað far með simbabvískum ævintýramanni, sá rak björgunarfyrirtæki sem gerði við bíla sem biluðu á leið gegnum Mósambík. Hann talaði þó alltaf um Rhódesíu og fannst lítið til Mugabe koma. Á þeim tíma fannst mér hann þröngsýnn og rasískur.
Á síðari árum hef ég þó þurft að milda afstöðu mína nokkuð þegar ég minnist þessa manns (hann hét Terry og reykti dóp af kappi undir stýri - ég er ekki frá því að við vinkonurnar höfum verið orðnar skakkar af óbeinum reykingum þegar komið var gegnum Mósambík). Þrátt fyrir að mér finnist almenn heift hans út í innfædda óskiljanleg og óafsakanleg, hef ég þurft að viðurkenna með sjálfri mér að hann hafði rétt fyrir sér að einu leyti: Mugabe var að fara með þjóðina beinustu leið til helvítis.
Og síðan eru liðin mörg mörg ár. Enginn sér ástæðu til að ráðast inn í Zimbabwe (hef sem sé ákveðið að minna á þetta í hvert sinn sem ríki í fangbrögðum kúgunar veruleikafirrtra despotta ber á góma) og það er nú fyrst í gær sem það fréttist af því að Bandaríkin sjái ástæðu til að vera verulega þungorð í garð Mugabe.
Á meðan býr alþýða manna við skort á lífnauðsynjum, örbirgð og yfir 1700% verðbólgu. Hvernig er það hægt? Slíkt minnir helst á sögu Remarque, Fallandi gengi, sem gerist í Þýskalandi millistríðsáranna. Þar er því lýst hvernig menn fóru með hjólbörur fullar af seðlum til að kaupa brauð og hvernig verðlag breyttist dag frá degi svo að ekkert varð við ráðið. Og við vitum öll hverfs konar valdhafar náðu yfirráðum þar með loforðum um að tryggja batnandi hag.
Hvers vegna er ekki fyrir löngu farið að þrýsta fyrir alvöru á, með umræðu og ígrunduðum aðgerðum, að gæfan fari að snúast íbúum Zimbabwe í hag? Hvar eru staðfastar og viljugar þjóðir þegar kemur að því að reyna að byggja upp samfélög frekar en að rífa þau niður?
Tsvangirai heitir að halda baráttunni áfram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.