Samsærið gegn Ameríku - bók að lesa

Var að ljúka við að lesa bók Philips Roth, The plot against America.  Hún kom út í fyrra og fjallar um þá atburðarás sem fer af stað í Bandaríkjunum þegar flugkappinn, einangrunarsinninn og anti-semistinn Charles Lindbergh vinnur kosningarnar 1940 í stað Franklin D. Roosevelt.

Fyrstu afleiðingar þessa eru að Lindbergh fer á fund Hitler á Íslandi og semur frið milli Þýskalands og Bandaríkjanna, een samningurinn kveður m.a. á um að Bandaríkjamenn halda sig algjörlega utan við stríðsreksturinn, senda Bretum t.a.m. engin vopn og vistir.  Þetta breytir vitaskuld gangi stríðsins og gerir allan stríðsrekstur erfiðari fyrir Breta.  

Meginatburðarásin á sér þó stað á heimavígstöðvum, meðal gyðinga í Bandaríkjunum og það er þar sem ógnin verður áþreifanlegust og átakanlegust.

 Roth veltir upp áleitnum spurningum um sjálfsmynd manna í eigin augum og annarra; á meðan gyðingarnir sem eru í aðalhlutverkum söguþráðar líta á sjálfa sig sem margþættar manneskjur, Bandaríkjamenn, gyðinga, fjölskyldufólk, starfsmenn, börn, eiginmenn, eiginkonur, nágranna o.sv.fr. fara yfirvöld í Bandaríkjunum æ meira að leggja ofuráherslu á einn þátt í sjálfsmynd þeirra.  Gyðinglegur uppruninn verður kjarninn í þeirri mynd sem dreginn er upp af þessum samfélagshópi og allt annað sem gerir fólk að því sem það er verður að víkja.  Bókin lýsir þannig vel hættunni sem fylgir því að einblína á einn þátt í fari manna - og slík áminning hefur e.t.v. aldrei verið mikilvægari en í dag.

En bókin er margþætt og veltir upp fleiri spurningum sem varða stöðu manna í samfélagi sínu og þætti trúarbragða í samfélagsmyndum. Áberandi er að í bókinni er telft saman tveimur trúarhopum sem andstæðum, án þess að trúarbrögðin sjálf liggi sosem til grundvallar hjá almenningi.  Í raun líta aðalpersónur ssögunnar á sig sem gyðinga, bara af því að það er það sem þeir eru, það er ekki áberandi að trúarhiti þeirra sé meiri en sá sem ríkir t.a.m. hér á landi,m þar sem fólk fer í mesta lagi í kirkju á jólum og páskum. Það er athyglivert að ein áberandi persóna er einmitt trúarleiðtogi meðal gyðinga, sem "spilar með" ráðandi elítu og telur sjálfum sér trú um að þannig sé hann að leiða flokk sinn á braut bjargvættis, á meðan faðir aðalpersónunnar, sem er það sem kalla mætti "trúlausan" gyðing, sér alla tíð í gegnum yfirvöld og gerir sér grein fyrir að það sé einmitt gyðinglegur uppruninn sem verði beitt gegn fólki sínu, hvað sem það reynir að gera.

Í ljósi þeirrar umræðu sem orðið hefur vart við hér á landi, þar sem kvartað er undan því að útlendingar safnist í sérstök hverfi, er einnig athyglivert að rifja upp við lestur bókarinnar að í bandarískum borgum er algengt að fólk af svipuðum uppruna myndi sérstök hverfi og það er ekki lögmál að slíkt þurfi að verða vandamál.  Í bókinni er einmitt lýst tilraun til þess að blanda börnum gyðinga með "alvöru Bandaríkjamanna" og þeim sársauka og sjálfsmyndarmissis sem það leiðir til.

 Og ógnin ágerist.  "Samsærið gegn Ameríku" skilur eftir margar spurningar um samfélög dagsins í dag og umræðu okkar um þjóðfélags- og alþjóðamál - auk þess að vera áhugaverð skáldsaga úr smiðju eins helsta rithöfundar Bandaríkjamanna í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: birna

Ég datt inn til þín fyrst í dag. Góðir pistlar Ólöf !

Til hamingju með Meistarann ..

birna, 30.3.2007 kl. 19:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband