Föstudagur, 27. apríl 2007
Þjófnaður á sjúkraskrám er lögbrot
Burtséð frá óvéfengjanlegum alvarleika þess hversu illa er búið að starfsfólki Impregilio við Kárahnjúka, má alls ekki týnast í umræðunni sú staðreynd, sem ég hef ekki heyrt neinn véfengja (talsmaður Impregilio staðfestir lögbrotið m.a.s. í Morgunblaðinu í dag), að með stuldi heilbrigðisupplýsinga úr fórum Þorsteins Njálssonar, þá var framið alvarlegt lögbrot.
Lög um réttindi sjúklinga, Lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og reglur um meðferð sjúkraskráa eiga að tryggja skjólstæðingum íslenskrar heilbrigðisþjónustu trúnað. Upplýsingar um heilsufar eru viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi laga um persónuvernd og sjúkraskrár teljast svo viðkvæmar að um þær gilda sérstakar reglur. Launþegar á Íslandi eiga skýlausan rétt á því að heilbrigðisstarfsfólk verndi þessar upplýsingar, hver svo sem borgar launin þeirra. Geti fólk ekki treyst því að heilsufarsupplýsingar þeirra séu verndaðar fyrir ágangi vinnuveitenda og annarra sem vilja nýta þær í eigin þágu, er hið nauðsynlega trúnaðartraust sem ríkja þarf milli heilbrigðisstétta og almennings brostið.
Þorsteinn Njálsson á þakkir skildar fyrir framgöngu sína við að ganga fram fyrir skjöldu til varnar verkafólki við Kárahnjúka. Ef rétt er farið með í Morgunblaðinu, að heilbrigðisstarfsmaður hafi tekið trúnaðarupplýsingar traustataki og afhent þær Impregilio, þá á sá starfsmaður ekkert skilið nema skömmina og raunar tel ég að það ætti að íhuga starfsleyfissviptingu. Það er alveg ljóst að viðkomandi hefur brugðist æðstu skyldum sínum, sem eru klárlega við skjólstæðingana, ekki vinnnuveitendur þeirra (og mér er alveg sama hver borgar laun þessa starfsmanns). Ef málið er svona vaxið þá skaltu skammast þín, hver sem þú ert.
Fram hefur komið að talsmaður Impregilio staðfestir að fyrirtækið hafi þessar trúnaðarupplýsingar undir höndum. Í lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga segir:
Brot á ákvæðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim varða fésektum eða fangelsi allt að þremur árum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Sama refsing liggur við ef ekki er farið að fyrirmælum Persónuverndar.
Við hljótum að fara fram á að þetta mál verði rannsakað til hlítar af þar til bærum yfirvöldum og það fordæmi sett að svona lagað líðist ekki.
Segja að einungis brot af 180 veikindatilfellum tengist mengun í göngunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég er mjög sammála þér með persónu Dr. Þorsteins Njálssonar. Hann var minn yfirmaður á Kárahnjúkum, er ofangreindur starfaði þar sem sjúkraflutningamaður. Hann er ótrúlega hæfur maður og að vinna í umhverfi líkt og þarna sem er boðið upp á ......... Engill í mannsmynd.
Gísli B. (IP-tala skráð) 27.4.2007 kl. 09:42
Sæl Ólof Ýrr
er svo mikið sammála þér, lögbrot er það og gustukaverk hjá doksa að ganga framfyrir skjöldu - en las ég ekki rétt að blessaður maðurinn sé "kominn í frí" ?
merkilegt
Ester Rut Unnsteinsdóttir, 30.4.2007 kl. 08:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.