Fimmtudagur, 3. maí 2007
Af slæðum og súffragettum
Á sunnudaginn (29. apríl) mátti í Morgunblaðinu lesa erlendan vikuspegil um pólitískt ástand í Tyrklandi. Þar í landi ríkir stjórnarkreppa, þar sem líklegt er að næsti forseti landsins verði úr röðum AKP flokksins, sem í upphafi greinarinnar er lýst sem hófsömu afsprengi íslamskrar hreyfingar. Í gær mátti í sama blaði lesa að þessi stjórnarkreppa geti orðið vatn á myllu Íslendinga í viðleitni þeirra til að vinna sæti í öryggisráðinu á næsta ári. (Raunar mátti alveg túlka fréttina sem svo að fyrir okkur væri það jákvæður viðburður ef þetta 70 milljón (að ég held) manna ríki myndi lenda í alvarlegum stjórnarfarslegum hremmingum. Undarlegt sjónarhorn fréttamannsins a.m.k.)
Fram kemur í greininni að andstæðingum þessa þyki alvarlega vegið að aðskilnaði ríkisvalds og trúar, sem hefur verið meginstoðin í satjórnskipulagi tyrkneska ríkisins allt frá því að Ataturk lýsti landið lýðveldi árið 1923 (margar áhugaverðar skáldsögur ssem gerast í Tyrklandi vísa í þessa atburði og áhrif hans á þjóðfélag og samfélagsgerð í Tyrklandi). Það er ekki síst herinn sem hefur stutt þennan aðskilnað og beitt sér gegn öllum tilhneigingum til þess að auka vægi trúarinnar í stjórnun landsins (gaman aððí að herinn skuli vera talinn málsvari veraldlegs lýðræðis einhversstaðar...). Í frétt Morgunblaðsins í dag kemur fram að forsætisráðherra (Erdogan), samflokksmaður forsetans tilvonandi (Gul), leggi til að forseti verði þjóðkjörinn.
Fyrirsögn samantektarinnar í Sunnudagsblaðinu er Höfuðklútur Harissu og er þar vísað til þess að eiginkona forsetans tilvonandi fer ekki út á meðal fólks nema með slæðu og slíkt er bannað með lögum í Tyrklandi. Frúin hefur mátt berjast hatrammlega fyrir klútnum sínum, m.a. hefur hún kært til Mannréttindadómstóls Evrópu þá ákvörðun háskólans í Ankara að leyfa henni ekki að stunda nám með slæðu. Það kemur einnig fram í greininni að dætur Erdogans hafi farið til Bandaríkjanna til að fá að stunda háskólanám með slæðuna á sér, en að dóttir Guls þrjóskist við í háskóla í Tyrklandi, með hárkollu yfir slæðunni.
Þegar konur gengu sem harðast fram í því að berjast fyrir sjálfsögðu jafnrétti á ýmsum sviðum mátti gjarnan sjá þess stað í einmitt uppreisn gegn þvingandi klæðaburði, korselettum, brjóstahöldurum og ég raunar hef aldrei skilið hvers vegna nælonsokkar eru ekki úthrópaðir. Á póstmódernískum tímum hafa þessi klæði verið hafin til vegs og virðingar. Madonna klæðist þeim utanyfir eins og Súperman nærbuxunum, tískuflíkur eru hannaðar með hliðsjón af fyrrum pyntingartólum fyrir konur og síðast en ekki síst virðast konur í tónlistarmyndböndum upp til hópa annað hvort kjósa eða hafa bara efni á að ganga í nærfötum einum klæða. Kristileg tákn eru á Vesturlöndum nýtt í tískiskartgripi og hafa lengi verið, gjarnan sem fylgihlutir við téð nærhöld.
Það er áhugavert að bera þessa þróun saman við þá útbreiddu skoðun að gagnrýnivert og raunar neikvætt sé að heimila íslömskum konum að hylja hár sitt kjósi þær svo. Er ekki hægt að gera tískuflíkur úr hárslæðum? Er saga hárslæðanna neikvæðari en saga korseletta úr hvalbeini, sem afmynduðu innylfi vestrænna kvenna um árabil? Eða teljum við konur í miðausturlöndum allstaðar vera komnar skemmra á veg í réttindabaráttu sinni, þannig að ólíklegra sé að þær veifi slæðunum með póstmódernískum hætti? Á maður kannski að reyna að setja upp hliðstæða mynd segjum svo að tilvonandi forsetafrú á Íslandi væri í söfnuði sem leggði bann við að konur hefðu stutt hár og krefðist þess að þær gengju í hnjásíðum pilsum? Myndum við vilja banna konunni að ganga í hnésíðu pilsi? Myndum við kjósa forseta sem ætti svona konu? Og ef Tyrkir kjósa Gul í almennri kosningu, hvort segir það okkur þá? Að Tyrkir séu nægilega póstmódernískir til að telja það ekki skipta máli að eiginkona forsetans vilji hylja hár sitt af trúarástæðum, eða að Tyrkland sé að hverfa til þess að verða trúarríki?
Hvort fá slæður (eða krossar, eða kollhúfur, eða korselett, eða brjóstahaldarar...) aukið táknrænt vægi séu þær bannaðar eða leyfðar? Og hvernig, kannski fyrst og fremst, getum við tryggt að sannanlega frjálst val liggi að baki ákvörðun konu um klæðaburð?
Og að lokum þá bara spyr ég: Ef AKP er hófsamt afsprengi íslamskrar hreyfingar, þýðir það þá að hann sé eins og kristilegir demókratar í Þýskalandi? Frú Kohl skildist mér eyddi mestum sínum tíma í að elda handa kallinum...en það var aldrei talað um að kristilegir demókratar væru hófsamt afsprengi kristinnar hreyfingar? Hvað þýða eiginlega þau hugtök sem við notum?
Spyr sá sem ekki veit...
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:55 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.