Miðvikudagur, 18. júlí 2007
Vatn og átök
Ef rétt er að mikill vatnsforði hafi fundist á þessu hrjáða svæði er það vel, enda er það víst svo að Janjaweed ofstopamennirnir sem riðið hafa röftum þarna í rúm fjögur ár eru að upplagi arabískir hirðingjar sem mættu hindrunum á ferðum sínum eftuir að vatnsskortur fór að vera viðvarandi í Darfur. Hins vegar er óvíst að átökum linni með því einu að vatn finnist, því miður. Átökin í Darfur eru margræðari en svo - og ekki síst fyrir þá sök að ráðamenn í Khartoum sjá sér hag í að viðhalda þeim.
Vatnsskortinn í Darfur má líklega rekja til margþættrar umhverfisánauðar: loftslagsbreytinga, ofnýtingar jarðvegs með ýmsum hætti, minnkandi bindingar jarðvegs samfara aukinni sókn í eldivið. Og e.t.v má tengja þetta allt með einhverjum hætti við enn eitt vandamálið sem steðjar að Afríku: offjölgun. Með vaxandi mannfjölda eykst ásókn í takmarkaðar auðlindir.
En á meðan spilltir ráðamenn kjósa að mylja undir sig afrakstur af auðlindum landsins frekar en að beina þeim í félagslega uppbyggingu, menntun og heilsugæslu er næsta víst að ógæfu Afríku verði áfram allt að vopni.
Vatnsforði fannst í Darfur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.