Föstudagur, 28. september 2007
Ólíku saman að jafna
Ég get ekki að því gert að minnast orða forseta okkar í tengslum við persaflóastríðið 1991, þegar hann fullyrti að ef aðalatvinnuvegur Kuweit hefði verið gulrótarrækt, þá hefði alþjóðasamfélaginu verið slétt sama um að "bjarga lýðræðinu" þar á bæ. Orð hans öðluðust enn merkingu í þjóðarmorðinu í Rúanda 1994, svo og þegar litið er til allra þeirra gleymdu stríða og harðstjórna sem einhverra hluta vegna virðist ekki taka því að minnast á.
Og eftir nokkra daga verða mótmælin barin niður af hörku og smám saman verður Búrma aftur eitt af gleymdu löndunum. Herforingjastjórnin fer sínu fram áfram og risafyrirtæki gera fleiri samninga við hana um að leggja gasleiðslur þar sem fólk er flutt nauðungarflutningum og látið vinna nauðungarvinnu.
Það væri gott ef þetta gerðist ekki.
Í Morgunblaðinu í morgun er að finna ferðalýsingu blaðamanns og minningar hennar frá samtölum við innfædda í Burma fyrir einhverjum árum. Hún getur þess að það sé sérkennilegt hvað þrátt fyrir allt sé stutt í brosið. Þegar ég las þessi orð urðu aftur hjá mér hugrenningatengsl: fyrir um áratug las ég dulbúna auglýsingu í formi lesendabréfs frá ónefndum ferðafrömuði sem stóð þá fyrir ferðum til Austurlanda fjær. Hann gat líka um brosmildi búrmískrar alþýðu - setti hana í það samhengi að það væri vitleysa að vera að halda því fram að þjóðin væri kúguð.
Það er eins gott að þessi aðili er ekki sérstakur heimildarmaður um umheiminn.
Mannfjöldanum í Yangon var dreift | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.