Myndin stóra

Þegar við tökum ákvarðanir sem varða samfélagið okkar, styðjum ákveðnar aðgerðir ráðamanna - eða mótmælum þeim, þá er ekki úr vegi að við reynum að horfa á "stóru myndina" eða svo má að orði komast. Þetta ber mörgum saman um, en kannski má draga fólk í dilka eftir því hvers stór myndin á að vera. Á hún að rúma alla í hverfinu mínu? Alla sem líta út eins og ég? Alla í bæjarfélaginu mínu? Alla samlanda mína? Alla sem hafa búið á sama stað og ég í ákveðinn tíma? Eða bara allan heiminn?
Er hægt að leggja allan heiminn til grundvallar þeirri ákvarðanatöku sem snertir mig og mína nánustu? Eða get ég gert það í ákveðnum málum og öðrum ekki? Myndi það flokkast undir það að vilja vera dáldið dauður, svona stundum? Kannski er nóg að vera bara meðvitaður um þessa klemmu; sætta sig við að ganga angistarfullan veg ákvarðanatöku sem gagnast mér og mínum hér og nú, en sem hafa að líkindum eyðileggjandi áhrif á annað fólk annars staðar. Fólk sem ég á aldrei eftir að hitta og sem ég þarf ekki að láta hreyfa við mér. Kannski er "heimsþorpið" eitt af þessum innihaldslausu hugtökum sem við sláum um okkur með á góðri stundu, en sem við segjum okkur frá undireins og skóinn kreppir að daglegri værukærð okkar.
Ég hef tilhneigingu til að vilja sjá alla myndina. Mig langar ekki til að daglegar athafnir mínar tengist neikvæðum áhrifum á daglegt líf annarra. Helst vildi ég að þær hefðu jákvæð áhrif, ef einhver. Ég, eins og flestir aðrir, lendi þó í vandræðum með það hvar ég dreg mörkin. Ég hef hreinlega ekki lent í að þurfa að taka verulega stóra ákvörðun, þar sem ég þyrfti að gefa upp á bátinn hluta af eigin velferð (og velferð okkar á Íslandi er jú í heildina mikil) til að bæta lífsafkomu annarra. Kannski kæmi í ljós að ég væri mestur heigull allra í þessum efnum. Það er auðvelt að tala fjálglega þegar athafnir þurfa ekki að fylgja orðum.
En hvað um það. Með því að reyna að sjá eins stóra mynd og mögulegt er í hverju máli, með því að kynna sér mál með gagnrýnum hætti, með því að taka virkar ákvarðanir frekar en óvirkar, þá held ég að hægt sé í það minnsta að sættast við eigin ákvarðanir. Í því felst jafnframt erfiðleikinn við að vera til, vera borgari í opnu lýðræðissamfélagi. Stundum er sagt að vandamál íslensks samfélags felist í að megum allt, en nennum litlu. Okkur þyki sjálfsögð þau mannréttindi sem aðrir berjast fyrir, en erfitt að vera sagt að hlúa að þeim.
Ég held að þetta sé ekki rétt. Ég held að á meðan börn geta sungið um að mála allan heiminn, þá hljóti að vera til fullt af fullorðnum sem vilja virða fyrir sér strigann. Bæði í heild sinni og einstaka hluta í nærmynd.

Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband