Mestu markaðsbrestir sögunnar?

I fréttum í kvöld var fjallað um nýútkomna skýrslu Nicholas Stern um loftslagsbreytingar. Þar eru tíunduð áhrif loftslagsbreytinga á hagkerfi heimsins, og þeim lýst sem mestu markaðsbrestum sögunnar. Stern er fyrrum aðalhagfræðingur Alþjóðabankans. Sjá: http://news.bbc.co.uk/2/hi/business/6096594.stm

Í skýrslunni eru lagðar til aðgerðir, en einnig fjallað um áhrif loftslagsbreytinga á þróunarlönd og þriðja heiminn. Í frétt mbl.is í kvöld er vitnað í matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ, sem segir heiminum að mistakast í baráttunni við hungursneyð. http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1231673

Skýrsla Sterns kemur ögn of seint til að verða innlegg í þrófkjörsbaráttu Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, en í þeirri prófkjörbaráttu bar umhverfismál meira á góma en áður. Þar vildu margir kenna sig við þann málaflokk, án þess að játast undir að hann væri í eðli sínu örvhentur.

Þrátt fyrir þetta minnist ég ýmissa skrautlegra athugasemda frá þeim frambjóðendum, sem nú hafa raðast á lista til þingkosninga. Einn nýgræðingur ku þannig hafa kallað umhverfismálin "sósíalisma nútímans" eða eitthvað í þá átt. Var það áður en þau voru þvinguð í það að vera rétthent?

Hvernig fara yfirlýsingar annarra frambjóðenda um að markaðsöflunum sé best treystandi til að takast á við umhverfismálin saman við dóm Sterns? Mestu markaðsbrestir sögunnar? Gætu slíkir markaðsbrestir ekki réttlætt ríkisafskipti af þessum málaflokki? Aukna opinbera samvinnu á alþjóðavettvangi?

Eða eigum við kannski bara að treysta því að markaðurinn sjái allt í einu að sér sjálfur, hætti að stefna að hámarksafkomu á skammtímagrunni, hætti að nýta ódýrasta vinnuafl jarðar hverju sinni á sem ódýrastan hátt. Hætti að meta náttúruauðlindanýtingu úr samhengi við önnur verðmæti sem í náttúrunni felast; fyrirtæki verði allt í einu tilbúinn til að játast undir stórhækkaða rekstrarliði vegna þess að þau fara af sjálfu sér að gera auknar kröfur til sín á sviði mengunarvarna.

Loftslagsbreytingar bitna á þeim fátækustu. Hinir fátækustu eru ekki neytendur, eru ekki þrýstihópur á framleiðendur á markaði. Verða ekki til þess að breyta hegðan þeirra eða starfsemi. Stjórnmál framtíðarinnar, þau sem snerta okkur á daglegum grunni, munu í framtíðinni verða æ alþjóðlegri í eðli sínu. Umhverfismál eru alþjóðleg. Neytendamál eru alþjóðleg. Fyrirtæki eru alþjóðleg. Efnahagsmál verða æ alþjóðlegri. Við berum sammannlega ábyrgð í ört smækkandi heimi.

Ég hef einhvernveginn ekki trú á því að stórframleiðendur heimsins hafi miklar áhyggjur af langtímaloftslagsbreytingar og áhrifum þeirra á komandi kynslóðir - barnanna okkar og barna í öðrum heimshlutum. Ég er hrædd um að hið opinbera gegni veigamiklu hlutverki í að stýra markaðnum áfram. Lesið bara skýrslu Stern. Eða útdráttinn úr henni.

Það verður gaman að heyra álit hinna rétthentu og grænu á skýrslu Sterns á komandi vikum. Nú þurfa þau sem ekki vilja vera pólitískt örvhentir að bretta upp ermarnar og koma með raunhæfa pólitíska sýn á nauðsynlegar aðgerðir í umhverfismálum. Fyrir næstu kosningar takk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband