Miðvikudagur, 1. nóvember 2006
Mótsagnakenndur Moggi II
Í leiðara birtist svo skemmtileg þverstæða. Fyrri hluti leiðarans fjallar um skýrslu Nicholas Stern um loftslagsbreytingar. Í niðurlagi þess hluta er hvatt til þess að tekið verði mark á skýrslunni og spurt. "Eru vísbendingarnar ekki orðnar nógu margar til að loks verði tekið af skarið og alvörukraftur settur í glímuna við vandann?" Góð spurning hjá leiðarahöfundi og vert að fá skýr svör við henni. Þau koma líka með snilldarlegum hætti í síðari hluta leiðarans þar sem fjallað er um umferðaþungann í borginni.
Komið hefur fram að umferðarþunginn veldur m.a. svifryksmengun, sem veldur alvarlegum vandamálum hjá mörgum að vetrum, hann veldur útblástursmengun og er eitt stærsta umhverfisvandamálið sem við búum við hér í borginni. Þess vegna er það undarlegt þverstæða sem birtist þegar því er slegið föstu að ekki sé vænlegt að stefna að því að minnka umferðarþungann: "Þriðja leiðin gæti verið sú að vinna með markvissum hætti gegn fjölgun bíla og [að, innskot ÓÝA] aukinni notkun strætisvagna. En er það raunhæf leið á Íslandi þar sem veður er oft vont yfir vetrartímann? Tæplega." Ég geri ráð fyrir að eitt að hafi vantað þarna inn í, annars verður málsgreinin enn undarlegri. Undarlegheitin eru næg samt.
Eru verstu veður hnattarins á Íslandi? Tæplega. Hér er oft vont veður, en það er vont veður víðar, án þess að fólk skorist undan því að fara í úlpuna og nota almenningssamgöngur. Ég er einmitt að horfa á fréttir af ofsakenndu veðri víða í nágrannalöndum okkar. Óútreiknanlegt veður er af mörgum að hluta rakið til loftsalagsbreytinga. Er það innlegg í lausn á loftslagsvanda jarðar að búa til hraðbraut til að taka við enn aukinni umferð? Tæplega. Og hvers vegna má frekar eyða fjármunum í hraðbrautir en almenningssamgöngur? Eru þær þjóðhagslega og hnattrænt hagkvæmari? Tæplega.
P.S. Hvernig er hægt að gera línubil á þessu #$%T"#&%$& bloggi?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.