Þjófnaður á sjúkraskrám er lögbrot

Burtséð frá óvéfengjanlegum alvarleika þess hversu illa er búið að starfsfólki Impregilio við Kárahnjúka, má alls ekki týnast í umræðunni sú staðreynd, sem ég hef ekki heyrt neinn véfengja (talsmaður Impregilio staðfestir lögbrotið m.a.s. í Morgunblaðinu í dag), að með stuldi heilbrigðisupplýsinga úr fórum Þorsteins Njálssonar, þá var framið alvarlegt lögbrot.

Lög um réttindi sjúklinga, Lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og reglur um meðferð sjúkraskráa eiga að tryggja skjólstæðingum íslenskrar heilbrigðisþjónustu trúnað.  Upplýsingar um heilsufar eru viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi laga um persónuvernd og sjúkraskrár teljast svo viðkvæmar að um þær gilda sérstakar reglur.  Launþegar á Íslandi eiga skýlausan rétt á því að heilbrigðisstarfsfólk verndi þessar upplýsingar, hver svo sem borgar launin þeirra.  Geti fólk ekki treyst því að heilsufarsupplýsingar þeirra séu verndaðar fyrir ágangi vinnuveitenda og annarra sem vilja nýta þær í eigin þágu, er hið nauðsynlega trúnaðartraust sem ríkja þarf milli heilbrigðisstétta og almennings brostið.

Þorsteinn Njálsson á þakkir skildar fyrir framgöngu sína við að ganga fram fyrir skjöldu til varnar verkafólki við Kárahnjúka.  Ef rétt er farið með í Morgunblaðinu, að heilbrigðisstarfsmaður hafi tekið trúnaðarupplýsingar traustataki og afhent þær Impregilio, þá á sá starfsmaður ekkert skilið nema skömmina og raunar tel ég að það ætti að íhuga starfsleyfissviptingu. Það er alveg ljóst að viðkomandi hefur brugðist æðstu skyldum sínum, sem eru klárlega við skjólstæðingana, ekki vinnnuveitendur þeirra (og mér er alveg sama hver borgar laun þessa starfsmanns).  Ef málið er svona vaxið þá skaltu skammast þín, hver sem þú ert.

Fram hefur komið að talsmaður Impregilio staðfestir að fyrirtækið hafi þessar trúnaðarupplýsingar undir höndum.  Í lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga segir:


Brot á ákvæðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim varða fésektum eða fangelsi allt að þremur árum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Sama refsing liggur við ef ekki er farið að fyrirmælum Persónuverndar.

Við hljótum að fara fram á að þetta mál verði rannsakað til hlítar af þar til bærum yfirvöldum og það fordæmi sett að svona lagað líðist ekki. 

 


mbl.is Segja að einungis brot af 180 veikindatilfellum tengist mengun í göngunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samsærið gegn Ameríku - bók að lesa

Var að ljúka við að lesa bók Philips Roth, The plot against America.  Hún kom út í fyrra og fjallar um þá atburðarás sem fer af stað í Bandaríkjunum þegar flugkappinn, einangrunarsinninn og anti-semistinn Charles Lindbergh vinnur kosningarnar 1940 í stað Franklin D. Roosevelt.

Fyrstu afleiðingar þessa eru að Lindbergh fer á fund Hitler á Íslandi og semur frið milli Þýskalands og Bandaríkjanna, een samningurinn kveður m.a. á um að Bandaríkjamenn halda sig algjörlega utan við stríðsreksturinn, senda Bretum t.a.m. engin vopn og vistir.  Þetta breytir vitaskuld gangi stríðsins og gerir allan stríðsrekstur erfiðari fyrir Breta.  

Meginatburðarásin á sér þó stað á heimavígstöðvum, meðal gyðinga í Bandaríkjunum og það er þar sem ógnin verður áþreifanlegust og átakanlegust.

 Roth veltir upp áleitnum spurningum um sjálfsmynd manna í eigin augum og annarra; á meðan gyðingarnir sem eru í aðalhlutverkum söguþráðar líta á sjálfa sig sem margþættar manneskjur, Bandaríkjamenn, gyðinga, fjölskyldufólk, starfsmenn, börn, eiginmenn, eiginkonur, nágranna o.sv.fr. fara yfirvöld í Bandaríkjunum æ meira að leggja ofuráherslu á einn þátt í sjálfsmynd þeirra.  Gyðinglegur uppruninn verður kjarninn í þeirri mynd sem dreginn er upp af þessum samfélagshópi og allt annað sem gerir fólk að því sem það er verður að víkja.  Bókin lýsir þannig vel hættunni sem fylgir því að einblína á einn þátt í fari manna - og slík áminning hefur e.t.v. aldrei verið mikilvægari en í dag.

En bókin er margþætt og veltir upp fleiri spurningum sem varða stöðu manna í samfélagi sínu og þætti trúarbragða í samfélagsmyndum. Áberandi er að í bókinni er telft saman tveimur trúarhopum sem andstæðum, án þess að trúarbrögðin sjálf liggi sosem til grundvallar hjá almenningi.  Í raun líta aðalpersónur ssögunnar á sig sem gyðinga, bara af því að það er það sem þeir eru, það er ekki áberandi að trúarhiti þeirra sé meiri en sá sem ríkir t.a.m. hér á landi,m þar sem fólk fer í mesta lagi í kirkju á jólum og páskum. Það er athyglivert að ein áberandi persóna er einmitt trúarleiðtogi meðal gyðinga, sem "spilar með" ráðandi elítu og telur sjálfum sér trú um að þannig sé hann að leiða flokk sinn á braut bjargvættis, á meðan faðir aðalpersónunnar, sem er það sem kalla mætti "trúlausan" gyðing, sér alla tíð í gegnum yfirvöld og gerir sér grein fyrir að það sé einmitt gyðinglegur uppruninn sem verði beitt gegn fólki sínu, hvað sem það reynir að gera.

Í ljósi þeirrar umræðu sem orðið hefur vart við hér á landi, þar sem kvartað er undan því að útlendingar safnist í sérstök hverfi, er einnig athyglivert að rifja upp við lestur bókarinnar að í bandarískum borgum er algengt að fólk af svipuðum uppruna myndi sérstök hverfi og það er ekki lögmál að slíkt þurfi að verða vandamál.  Í bókinni er einmitt lýst tilraun til þess að blanda börnum gyðinga með "alvöru Bandaríkjamanna" og þeim sársauka og sjálfsmyndarmissis sem það leiðir til.

 Og ógnin ágerist.  "Samsærið gegn Ameríku" skilur eftir margar spurningar um samfélög dagsins í dag og umræðu okkar um þjóðfélags- og alþjóðamál - auk þess að vera áhugaverð skáldsaga úr smiðju eins helsta rithöfundar Bandaríkjamanna í dag.


Ekki nytt vandamál, því miður

Ég var gestur í Zimbabwe í um vikutíma fyrir 15 árum. Á þeim tíma var Zimbabwe enn í góðum málum, þó blikur væru á lofti. Ég kom keyrandi inn í landið, eftir æsilega ferð gegnum Mósambík, sem þá var enn í helgreipum borgarastyrjaldar. Við vinkonurnar höfðum húkkað far með simbabvískum ævintýramanni, sá rak björgunarfyrirtæki sem gerði við bíla sem biluðu á leið gegnum Mósambík. Hann talaði þó alltaf um Rhódesíu og fannst lítið til Mugabe koma. Á þeim tíma fannst mér hann þröngsýnn og rasískur.

Á síðari árum hef ég þó þurft að milda afstöðu mína nokkuð þegar ég minnist þessa manns (hann hét Terry og reykti dóp af kappi undir stýri - ég er ekki frá því að við vinkonurnar höfum verið orðnar skakkar af óbeinum reykingum þegar komið var gegnum Mósambík). Þrátt fyrir að mér finnist almenn heift hans út í innfædda óskiljanleg og óafsakanleg, hef ég þurft að viðurkenna með sjálfri mér að hann hafði rétt fyrir sér að einu leyti: Mugabe var að fara með þjóðina beinustu leið til helvítis.

Og síðan eru liðin mörg mörg ár. Enginn sér ástæðu til að ráðast inn í Zimbabwe (hef sem sé ákveðið að minna á þetta í hvert sinn sem ríki í fangbrögðum kúgunar veruleikafirrtra despotta ber á góma) og það er nú fyrst í gær sem það fréttist af því að Bandaríkin sjái ástæðu til að vera verulega þungorð í garð Mugabe.

Á meðan býr alþýða manna við skort á lífnauðsynjum, örbirgð og yfir 1700% verðbólgu. Hvernig er það hægt? Slíkt minnir helst á sögu Remarque, Fallandi gengi, sem gerist í Þýskalandi millistríðsáranna. Þar er því lýst hvernig menn fóru með hjólbörur fullar af seðlum til að kaupa brauð og hvernig verðlag breyttist dag frá degi svo að ekkert varð við ráðið. Og við vitum öll hverfs konar valdhafar náðu yfirráðum þar með loforðum um að tryggja batnandi hag.

Hvers vegna er ekki fyrir löngu farið að þrýsta fyrir alvöru á, með umræðu og ígrunduðum aðgerðum, að gæfan fari að snúast íbúum Zimbabwe í hag? Hvar eru staðfastar og viljugar þjóðir þegar kemur að því að reyna að byggja upp samfélög frekar en að rífa þau niður?


mbl.is Tsvangirai heitir að halda baráttunni áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimsborgaraleg hræsni

Það eru ekki nýjar fréttir að mannréttindi séu fótum troðin í Myanmar, eða Burma.  Mér skilst að herforingjastjórnin sem nú er við völdhafi tekið upp Myanmar og vil því síður nota nafnið á meðan ég er ekki leiðrétt.  Fæ óbragð í munninn þegar ég hugsa til þessara ráðamanna.

Aung San Suu Kyi fékk Friðarverðlaun Nóbels árið 1991, ári eftir að flokkur hennar sigraði í kosningum ári áður.  Hún hefur í stofufangelsi meira og minna síðan.  Í sextán ár.  Á þeim tíma hafa synir hennnar tveir vaxið úr grasi og maður hennar látist - án þess að hún hafi getað hitt þá eða kvatt mann sinn.  Aung San Suu Kyi er ein merkasta, ef ekki hin merkasta manneskja sem lifir í dag - líklega er Nelson Mandela hinn eini sem stendur henni jafnfætis.  Hún heldur virðingu sinni að því er virðist, hvað sem á dynur, og í þeim fáu sjónvarpsviðtölum sem hefur verið hægt að taka við hana geislar hún frá sér yfirvegun og friði sem er með ólíkindum.  Og jafnframt þessu fasi sýnir hún ótrúlegan, einbeittan vilja og andspyrnu gegn yfirvöldum sem hafa núna í hartnær tvo áratugi lagt á hana ómanneskjulegar byrðar til að brjóta niður vilja hennar.  Hún er sú manneskja sem ég vil helst hitta.  Og auðvitað allra helst í réttmætri ráðamannsstöðu sinni í Burma.

Lýðum hefur verið ljóst sem sé í sextán ár hið minnsta að mannréttindi eru fórum troðin í Burma.  Umfjöllun um þetta land hefur verið lítt áberandi í íslenskum fjölmiðlum.  Ekki verður t.d. séð að  utanríkisráðuneytið hafi séð ástæðu til þess að minnast sextugsafmælis hennar í júní 2005 (enga fréttatilkynningu að finna á heimasíðu). Ekki verður heldur séð að ráðuneytið hafi gert sér mat úr mótmælum Bandaríkjanna í nóvember sama ár, né heldur ákvörðun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna að leggja áherslu á málefni Myanmar, en hún var tekin í september 2006.  Ég minnist þess ekki að þessu síðasta hafi verið slegið upp í fjölmiðlum heldur.

http://www.un.org/apps/news/storyAr.asp?NewsID=19862&Cr=myanmar&Cr1=&Kw1=Myanmar&Kw2=&Kw3=

 Hún er undarleg hræsni heimsins. Einhverra hluta vegna þykir þeim þjóðum, sem réttlæta hernaðaraðgerðir til að tryggja frið, engin ástæða til að safna saman liði til að koma á lýðræði í Myanmar - og þó er þar fyrir leiðtogi, sem er elskuð af landsmönnum.  Ekki hefur heldur verið beitt sérstaklega miklum friðsamlegum þrýstingi - það skyldi þó aldrei tengjast verðmætum gasleiðslum sem yfirvöld hafa aðstoðað fjölþjóðafyrirtæki við að leggja (staðfestar sagnir bárust af þrælkun og nauðungaflutningum í sambandi við þá lögn).

Og við, hin viljuga og staðfast þjóð, gátum lesið fyrir örfáaum árum frásögn ferðafrömuðar, sem sagði að hann skildi ekkert í því að verið væri að tala um áþján búrmísks almennings - allir voru svo brosmildir í kringum hann og íslenska fimm stjörnu hópinn hans!  Hið merkilega var eftir þessa frásögn heimsferðafrömuðarins, sem birtist sem bréf í Morgunblaðinu, að enginn kváði. 

Ég vil að við kváum.  Við eigum að spyrja, og þrýsta á um upplýsingar og velta fyrir okkur hvers vegna íslenskum stjórnvöldum fannst Hussein vera verri harðstjóri en herforingjastjórnin í Burma - hvers vegna ekki er vakið opinberlega máls á ástandi mannnréttindamála í Burma, með reglulegum hætti og á vegum yfirstjórnar utanríkismála á Íslandi.  Við eigum að marka okkur einarða stefnu í mannréttindamálum.  Núna strax.


mbl.is Svört skýrsla um mannréttindi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Japanir enn í afneitun...

Í NYT í dag er fjallað um kúvendingu Japana í málum sem tengjast löngu tímabæru uppgjöri þeirra við atburði síðari heimstyrjaldar.

Japanir hafa, öfugt við Þjóðverja, enn ekki komist áleiðis í að gera upp fortíð sína og þau ódæðisverk sem staðið var fyrir í nafni þeirra á tímum síðari heimstyrjaldar.  Árið 1992 fékk japanskur sagnfræðingur, Yoshiaki Yoshimi, nóg af afneituninni og birti sannanir þess efnis að japönsk hermálayfirvöld hafi staðið að rekstri vændishúsa þar sem kínverskar og suður kóreskar konur voru þvíngaðar til að þjóna hermönnum japanska keisaraveldisins.  Í kjölfar þess viðurkenndu japönsk yfirvöld, í yfirlýsingu 1993 fyrst tilveru þessara vændishúsa að einhverju leyti, þrátt fyrir að gagnrýnt hafi verið með hvers konar hálfkáki staðið var að þeirri yfirlýsingu og greiðslum bóta til þessara kvenna.

Shinzo Abe, núverandi forsætisráðherra Japan hefur núna hafnað þessari viðurkenningu og meira að segja gefið til kynna að ekkert sýni fram á að konurnar hafi verið þvingaðar til að láta loka sig inni til að þjóna japönskum innrásarher.

Hm.  Ég hefði talið að þessu ættu íslensk yfirvöld að mótmæla kröftuglega. Ef þetta er hin opinbera afstaða gagnvart nauðung kvenna á styrjaldartímum, við hverju er að búast þar sem Japanir ákveða að taka þátt í uppbyggingarstarfi á örsnauðum svæðum, t.d. á vegum Sameinuðu þjóðanna eða í nafni hjálparstarfs?  Þurfa Japanir ekki að standa fyrir máli sínu til að vera teknir alvarlega í samfélagi þjóðanna?  Við hverju getum við búist af þjóð sem enn afneitar 60 ára gömlum glæpum gagnvart konum? Og viljum við í alvöru vera í bissness við svona stjórnvöld? Og teljast samherjar í t.d. veiðum á sjávarspendýrum?

 Hvar eru femínistar?  Og afhverju eru ekki fréttir af þessu blásnar upp í fjölmiðlum hér á landi? Oj bara - skammastu þín Abe!

http://www.nytimes.com/2007/03/02/world/asia/02japan.html?_r=1&th&emc=th&oref=slogin


Afleiðingar Íraksstríðsins okkar

Enn er deilt um aðferðafræðina sem beitt var við mat á dauðsföllum í Írak, sem rekja má til stríðsins.  Deilurnar komast alla leið í Nature og þar kemur fram að þessi rannsókn hafi verið sundurgreind og metin fram og tilbaka í vísindasamfélaginu, jafnvel hafi verið kennd framhaldsnámskeið á háskólastigi.  Enda var hún áfall: niðurstöður hennar gáfu til kynna að 2,5% Íraka, eða yfir hálf milljón manna hefði látist sem afleiðing af stríðsrekstrinum.  George Bush varð alveg vitlaus og réðist á rannsóknina strax sama dag og niðurstöðurnar birtust.  Það fer þó ekki miklum sögum af vísindalegri röksemdafærslu hans í þeirri krítík.

Hvað sem öðru líður, þá hafa rannsakendur ekki getað fullvissað vísindasamfélagið með óyggjandi hætti um að aðferðafræðin sem beitt var sé hafin yfir gagnrýni.  Nú hafa rannsakendur birt hrágögnin sín, til að auðvelda hlutlæga umfjöllun um niðurstöðurnar.  Það er þá von til þess að hætt verði að deila um aðferðafræðina.  Mér finnst hún líka draga athyglina frá því, að hvort sem niðurstöðurnar reynast réttar, eða að deila megi í þær með tveimur, þá hefur stríðsreksturinn tekið gífurlegan toll.  Írökum blæðir.

http://www.nature.com/nature/journal/v446/n7131/full/446006a.html

Í ljósi þeirra fórna sem Írakar hafa þurft að færa, er athyglivert að skoða greiningu Foreign Policy á því hverjir það eru sem grætt hafa á stríðinu.  Á topp tíu eru:

Íran: völd þeirra í þessum heimshluta hafa aukist
Moqtada al Sadr: orðinn einn valdamesti maðurinn í Írak - og er ekki beint að boða frið og lýðræði
Al Qaeda: hafa numið áður óaðgengileg lönd eftir niðurbrot hins íraska samfélags
Samúel Huntington:  fræðimaður sem boðaði  óumflýjanleg átök milli  svk.  "siðmenninga" (eða hópa sem hann  skilgreindi  út frá afar  þröngum  forsendum )
Kína: er að vaxa Bandaríkjunum yfir höfuð, treysta ítök í auðlindaríkum Afríkuríkjum og stöðu sína almennt í heiminum á meðan  Bandaríikjamenn sökkva í dýpra í fenið í Írak
Einræðisherrar í Arabíulöndum: Allt í einu er ekki lengur þrýstingur á umbætur af þeirra hálfu
Olíuverð: hefur ekki alveg held ég skilað sér til arabísks almúga
Sameinuðu þjóðirnar: samræðustjórnmálin virðast allt í einu ekki svo vitlaus
Gamla Evrópa: Geta núna sagt "hvað sagði ég?"
Ísrael: það er allavega búið að brjóta niður einn óvin, eða hvað?

Og hvað er merkilegast við þennan lista - jú það sem vantar á hann.  Sem sé Íraka sjálfa. Sem heldur áfram að blæða.

http://www.foreignpolicy.com/story/cms.php?story_id=3704&fpsrc=ealert070226 


Erkitýpa Íslendsingsins: undarlegheit

"...til að sýna fram á að eiginleikar hinna undarlegu (strange) Íslendinga eigi líka við um annað fólk". 

Ég sat ráðstefnu um daginn.  Ekki í frásögur færandi í sjálfu sér, umfjöllunarefnið áhugavert,  fróðleikur vel matreiddur, skipuagning til fyrirmyndar.  Nema hvað.  Í setningarávarpi sínu komst framsögumaður að orði einhvernveginn með ofangreindum hætti, og fundarstjórinn, sem tók við af honum, bætti um betur og sagði, með vingjarnlegu brosi, eitthvað á þá leið að það væri þakkarvert að fá tækifæri til að kynna sér rannsóknir á þessari furðulegu (wierd) þjóð.

Allir Íslendingar í salnum brostu á móti, stoltir yfir því að vera álitnir sérstakir.  Ég fékk kjánahroll.  

Hvað er það með okkur og mýtuna um undarlegheitin?  Hvers vegna göngumst við upp í því að vera álitin skrýtin á alþjóðavettvangi? Takið eftir, skrýtin - ekki sérstök.  Ég hef verið að velta þessu fyrir mér síðan ég hristi af mér hrollinn, en er eiginlega engu nær.  Ég hef leitað í huga mér að annarri þjóð sem leggur sig fram um að lýsa sér sem undarlegri, en ekki fundið. Ég hef heimsótt lönd þar sem lögð er áhersla á vinsemd,  gestrisni,  framtaksemi,  dugnað,  sköpun og þar fram eftir götunum.  Vissulega eru þessi hugtök notuð um Ísland og Íslendinga,  en hvers vegna viljum við líka vera álitin furðuleg?

 Þau einkenni, eða sérkenni sem gera okkur að þjóð eru kannski margslungin (á stundum á undanförnum árum hefur mér reyndar fundist tilhneigingin freklar beinast í þá átt að leggja áherslu á það sem skilur okkur að innbyrðis) og það er óneitanlega erfitt að reyna að finna sameiginleg þjóðareinkenni. 

Þrátt fyrir að við viljum líta á okkur sem sjálfstæð, er fjöldi manna ófær um að mynda sér sjálfstæða skoðun.  Þrátt fyrir að við segjumst unna íslenskri náttúru, umgöngumst við umhverfið af fáheyrðu virðingarleysi.  Þrátt fyrir að við viljum teljast fegurst og sterkust (vonandi reyndar úrelt óskhyggja, enda hallærisleg með afbrigðum), þá erum við nú bara svona í meðallagi - eins og hinir.  Þrátt fyrir að nú sé verið að draga upp ímynd fjármálasnillingsins til að lýsa okkur, þá berst ég eins og vinir mínir flestir við að reyna að skilja í hvað allir plús tíu peningarnir mínir fara í hverjum mánuði.  Þrátt fyrir að við vísum í agaleysi og djörfung, mæta nú flestir í vinnuna á réttum tíma og vanda sig við að tryggja börnum sínum öryggi, frekar en að lifa sem hinn frjálsi förumaður. Við erum eins og aðrar þjóðir, sem skilgreina sig innan landamæra, margbreytileg.  Einkennileg, vegna þess að við höfum fjölda misvisandi einkenna, sérkennileg vegna þess að hvert okkar hefur sín sérkenni. 

Kannski viljum við vera skrýtin, vegna þess að aðrir vilja sjá okkur þannig.  Kannski er það hið eina sem raunverulega heldur okkur saman.  Kannski vitum við sem er, að það sé ekkert til í þessu frekar en öðrum tilbúnum heildareinkennum og lítum á þetta sem sameiginlegan brandara þjóðarinnar. Eða kannski viljum við vera skrýtin vegna þess að það er skárra en ekkert.  

 


Athyglisverð hlið á fuglaflensufárinu

Í NYT í dag er sagt frá því að Indónesíustjórn sé hætt að veita Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni aðgang að fuglaflensuveirunni vegna þess að hún stendur í samningaviðræðum við lyfjafyrirtæki um sölu á veirusýnum til þróunar á bóluefni.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur þannig ekki fengið send sýni af H5N1 veirunni frá landinu síðan seint á síðasta ári. Indónesía er það land sem tilkynnt hefur um flest tilfelli fuglaflensu og talið er nauðsynlegt að hafa aðgang að veirum þaðan til rannsókna og þróunar á bóluefni.

Indónesía og önnur fátæk ríki hafa gagnrýnt það að þeim sé ætlað að afhenda veirur án endurgjalds, þar sem bóluefni sem svo eru þróuð eru oft of dýr til að íbúar þessara landa geti nýtt sér þau.  Auk þess eru fuglaflensan og aðrar flensur ekki í forgangi í þessum löndum; þar eru landlægir sjúkdómar sem verða fjölda barna að aldurtila á ári hverju, s.s. mislingar og lömunarveiki, sem ekki valda lengur áhyggjum á Vesturlöndum.

 Fréttin af því að Indonesíaætli að bjóða lyfjafyrirtækinu upp á einkaaðgang að veirusýnum sínum er athygliverð fyrir afar margra hluta sakir:

- Enn og aftur erum við minnt á þá gjá sem ríkir í aðstæðum Vesturlanda og fátækra ríkja þegar kemur að aðgangi að heilsugæslu

- Sú spurning vaknar hvers vegna fuglaflensa, sem ekki smitast milli manna, fær svona mikla athygli á meðan ekki hefur verið fundin leið til að auka jafnræði í vörnum gegn algengum og lífshættulegum barnasjúkdómum

- Geta veirustofnar talist til hugverkaréttinda - og ættu Indónesar þá að geta krafist hlutdeildar í bóluefni sem þróað er út frá þeim? Eða er um sameiginlega eign mannkyns að ræða?  Og ef svo - ætti þá ekki að tryggja aðgang allra að nauðsynlegum bóluefnum?

Ég bara spyr svona...

http://www.nytimes.com/2007/02/07/world/asia/07birdflu.html?th&emc=th


Myndir fyrir líffræðinörda

Get ekki að því gert, það er alltaf eitthvað heillandi við myndir sem teknar eru innan í mannskepnunni með hátæknilegum óskiljanlegum aðferðum.  Bendi öðrum áhugasömum á þessar, myndir ársins hjá tímaritinu BMC Cell Biology:

http://www.biomedcentral.com/browse/browse.asp?abbrev=bmccellbiol&imageofthemonth=y&imageoftheyear=y=y&year=2006


Tímabær ákvörðun

Sú ákvörðun umhverfisráðherra að fara fram á að erfðabreytt matvæli verði sérstaklega merkt er auðvitað löngu tímabær.  Ég er raunar ein þeirra sem hef ekki verið andsnúin neyslu og nýtingu erfðabreyttra matvæla af prinsippástæðum og tel raunar að sé rétt að farið, þá sé um að ræða mikla möguleika til að framleiða matvæli í auknum mæli án þess gengdarlausa eiturefnahernaðar sem viðgengst í matvælaiðnaði víða um veröld.  Ég geri mér þó grein fyrir að þessar skoðanir mínar eru umdeildar, svo ekki sé meira sagt.

Þegar ég var við nám í Bretlandi undir lok síðustu aldar (æ), þá fóru andstæðingar erfðabreyttra matvæla mikinn og mótmæli gegn óskilyrtri dreifingu þeirra og neyslu voru áberandi.  Það var áhugavert að fylgjast með þessu andófi, því að þrátt fyrir að mörg þeirra varnaðarorða sem andstæðingarnir höfðu í frammi væru tímabær og nauðsynleg, þá sá maður að oft á tíðum var gengið of langt og villandi upplýsingum leyft að haldast, þrátt fyrir að andófsmenn réðu til sín hámenntaða erfðafræðinga til að koma með fræðileg innlegg í umræðuna.  Mér eru sérstaklega minnisstæð skilti sem voru áberandi í amk einni mótmælagöngu - á þau ver letrað:  Ekkert DNA í minn mat!  Ég náði nú aldrei alveg hvernig menn ætluðu að komast hjá því að neyta þessa undirstöðuefnis í lífverum...

En hvað um það, í ríkjum ESB hafa nú um nokkra hríð verið í gildi reglur um merkingar matvæla.  Að sjálfsögðu á að gefa fólki kost á því að taka upplýsta ákvörðun um hvort það vill neyta slíkra matvæla, alveg eins og ég tel rétt að ég sé upplýst um hvort í þeim mat sem ég neyti sé eitthvað sem ég í sérvisku, af heilsufarsástæðum eða prinsippi vill ekki láta inn fyrir mínar varir (þeir sem þekkja mig vita að það er þó nokkur fjöldi tegunda).

Á sama hátt ætti að sjálfsögðu að krefjast þess að innflytjendur grænmetis öfluðu upplýsinga um hvaða eiturefni og áburður voru notuð til að flýta fyrir vexti þess grænmetis sem hingað til flutt og merktu þessar upplýsingar á pokana.  Slíkt hlyti að flýta fyrir almennri, upplýstri  umræðu um málefni sem varða ræktun matvæla - umræðu sem ég hef beðið eftir síðan ég horfði upp á mótmælin í Bretlandi - á síðustu öld.


mbl.is NS fagna ákvörðun um að merkja erfðabreytt matvæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband