Mýtan um heilnæmu höfuðborgina

Það er í rauninni ekki nýtt að sérfræðingar vari við loftmengun í Reykjavík.  Undanfarin ár hefur reglulega verið vakin athygli á mengunargildum á froststilltum vetrarmorgnum í höfuðborginni og skemmst er að minnast umfjöllunarinnar um svifryksmengun í fyrra - og aftur í vetur.

Og þetta er þrátt fyrir að Ísland sé mesti vindarass að jafnaði í heimi (frétt um jafnaðartölur vindhæðar birtust í Morgunblaðinu fyrir nokkrum árum, ég sé ekki ástæðu til að telja þær niðurstöður hafa breyst að ráði síðan).

Á meðan á þessari umfjöllun stendur, og þrátt fyrir að öllum sé ljós hvar upptök mengunarinnar sé helst að finna - í þungri umferð einkabílsins - þá hafa pólitíkusar til hægri (heyrði þetta síðast fyrir kosningar í vor í máli frambjóðanda X-D) í fúlustu alvöru talað um það hvernig við verðum bara að sætta okkur við það að Reykjavík sé borg einkabílismans. Það er fyrst núna sem úr því horninu heyrast raddir skynseminnar um að það verði að reyna að stemma stigu við umferðarþunga.

Á Akureyri er sjálfstæðiskona í bæjarstjórastóli.  Hún veitti ókeypis aðgang í strætó sem sitt fyrsta (eða þar um bil) embættisverk.  Heyr heyr fyrir henni.  Í Reykjavík, með loftmengunina, svifrykið, astmann og berkjubólguna, var þjónustan skert og verðskrá hækkuð.  Vegna þess að það sem mikilvægast er í hugum ráðamann hér er fjárhagsleg afkoma Strætisvagna hf., ekki heilsufarsleg afkoma borgarbúa.

 Og borgin dreifir æ meira úr sér, þannig að illmögulegra verður að halda strætó gangandi á forsendum peningahagfræðinnar. Flugvöllurinn blívur, vegna þess að það er svo gasalega hagkvæmt fyrir 300 þús manns að reka tvo flugvelli frekar en að stytta vegalengdina úr miðbænum til Keflavíkur, borga með hraðsamgöngum og reka bara einn. Það telst hneyksli að þurfa að borga í bílastæði í miðborginni - en sjálfsagt að hækka fargjöld í strætó.  Enginn virðist telja það eftir sér að borga úr sameiginlegum sjóðum til að halda við og fjölga umferðarmannvirkjum, en það er afar neikvætt að borga með almenningsfarartækjum.

Við rekum upp stór augu þegar reseptið er svo skrifað á berkjupústið.

Allt viðtalið við Þórarinn Gíslason lungnalækni má lesa hér:

http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?radnr=1126879


mbl.is Þúsundir búa við svipaða mengun hér og íbúar evrópskra stórborga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn ein könnunin...

...án nokkurra áhrifa...

Íslenskir neytendur bíða í ofvæni eftir væntanlegri matarverðslækkun, á meðan söluaðilar keppast við að slá á væntingar. Fram að því virðumst við vera sátt við að lesa æ ævintýralegri frásagnir af niðurstöðum úr verðsamanburði milli landa á matvöru. Birta mun sem nú hleypur á hundruðum prósenta.

8-16% lækkun í mars virðist hjómið eitt miðað við þennan mun. Og enginn virðist enn geta komið með almennilegar skýringar á honum. Ég minnist enn þunglyndislegrar tómleikatilfinningarinnar sem fyllti mig, nýkomna frá Þýskalandi 2005 þegar ég tók við hálftómum, tepokalegum haldapokanum í Hagkaupum og rétti á móti fimmþúsundkallinn. Afgangurinn hefði ekki talist boðlegur sem þjórfé á hamborgarastað ytra.

Og verðlagsósóminn einskorðast vissulega ekki við matvæli - getur verið að þetta sé orðinn einskverskonar flottræfilsháttur hins blanka? Við pöbullinn, sem ekki höfum efni á að endurreisa Elvis frá dauðum og bjóða í ammæli, göngumst upp í að borga hærra verð en aðrir Evrópubúar fyrir lífsnauðsynjar. Og æmtum lítið, höfumst enn minna að.

Jamm, þetta er vissulega statussymból - en fyrir hvað vil ég hafa sem fæst orð um.


mbl.is Matarkarfan 170% dýrari á Íslandi en á Spáni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósýnilegu börnin

Í Achilahéraði í norður Úganda flykkjast börn á hverju kvöldi úr nálægum þorpum á lestarstöðina í Gula til að forðast það að vera rænt af uppreisnarher Drottins, eða réttara sagt Josef Kony. Þetta eru krakkar einkum á aldrinum 5-12 ára, sem eiga annars von á því að ráðist sé inn á heimili þeirra, þeim rænt og þau heilaþvegin til blóðsúthellinga og morða, eða ef um stúlkur er að ræða, þær nýttar sem næturgagn liðsmanna Konys. Um þessi börn hefur verið gerð heimildamynd, sem hægt er að horfa á hérna:

 http://video.google.com/videoplay?docid=3166797753930210643&q=invisible+children&pl=true 

Saga þessara barna er því miður ekkert einsdæmi, eins og fram kemur í hasarmyndinni um blóðdemantinn, sem nú er sýnd í bíó. Börn þykja af mörgum tilvalinn peð í grimmdarlegum hernaði, auðmótanleg, auðendurnýjanleg og auðdeyðanleg.

Saga þessara barna er heldur ekki ný af nálinni.  Börn voru nýtt með þessum hætti m.a. í borgarastyrjöldinni í Mósambík á níunda áratugnum (reyndar stóð það stríð í 16 ár og lauk formlega 1993), sem viðhaldið var m.a. með stuðningi frá aðskilnaðarstjórninni í Suður-Afríku, hægri öfgamönnum í Bretlandi og Kukluxklan í Bandaríkjunum.  Í því stríði, eins og kom fram í skýrslu UNHCR um málið, voru börn, auk þess að vera nýtt í hermennsku og til nauðgana, látin ganga upp undir 50 km á dag með vistir handa uppreisnarmönnum, eftir að hafa í mörgum tilfellum horft upp á foreldra sína myrta með hrottalegum hætti fyrir augum sínum.  Og það mætti víðar tína til dæmi.  Alltof víða.

Um daginn skarst í brýnu milli frækins sjávarútvegsráðherra Íslendinga og nágranna okkar í vestri.  Í tengslum við þær stympingar voru Bandaríkjamenn (og raunar Bretar) sakaðir um á láta sér meira annt um sjávarspendýr en mannfólkið. En kannski ættum við að líta okkur nær áður en við híum á aðra.

Við híum á Bandaríkjamenn og Breta fyrir það að senda hermenn til Írak, en geta svo fyrst sameinast um að koma í veg fyrir hvaladráp.


Gott og vel – en við?  Við hreykjum okkur af því að berjast farsællega gegn banni við botnvörpuveiðum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna – en þrýstum ekki á um, tökum ekki þátt í fordæmingu á þeim mannaveiðum sem viðgangast í Achilihéraði í Uganda. Ráðherrar okkar berjast ekki fyrir aðgerðum á þessu sviði. Enda er þar bara um að ræða börn, en ekki fiskveiðar sem auka hagvöxt. Við viljum ekki einu sinni hleypa foreldrum barna í Afríku að með landbúnaðarafurðir sínar.

Við berjumst ekki hávært gegn vopnaframleiðslu og sölu til viðurstyggilegra ofbeldismanna um heiminn, gagnrýnum ekki Bandaríkin fyrir að bera ábyrgð á 92% af þeim vopnum sem notuð eru af börn til að myrða börn. Höldum ekki ræður um styrjaldarátök í vestur Afríku, skæruliðahernað í suðaustur Asíu, herforingjasstjórnir á Malakkaskaga. Að ekki sé minnst á arðrán og þrælkun barna í öllum heimsálfum undir formerkjum frjálsra viðskipta. 

Hvar er hneykslunin? Hvar er ákallið um samstöðu?  Hvar er yfirlýsingagleðin?

En, nóta bene, við studdum að sjálfsögðu innrásina í Írak - og stjórnarliðar okkar (þar á meðal ráðherrarnir okkar) segja enn að það hafi verið bara jútakkfyrir rétt ídea á sínum tíma.

Ég hvet fólk til að eyða klukkustund af lífi sínu í að horfa á myndina á ofannefndum tengli. Það er hægt að brása útsölurnar seinna.


Vísindi og tækni í Afríku

 Í Nature þessa vikuna er athyglisverð frétt. 

Þjóðarleiðtogar innan Afríska þjóðarráðsins (mín þýðing á "African Union")  munu halda fund í næstu viku, þar sem annað meginumræðuefnið varðar hagnýtingu vísinda og tækni í þágu þróunar.  Hitt meginviðfangsefnið eru loftslagsbreytingar, eins og ekki þarf að koma á óvart. 

Á fundinum verður lögð tillaga um stofnun afrísks vísindasjóðs sem ætlað er að efla vísindarannsóknir og nýsköpun, með svipuðum hætti og rammaáætlanir Evrópusambandsins. Auk verður lagt til að stofnað verði leiðtogaráð innan þjóðarráðsins, þar sem leiðtogar verða upplýstir um viðfangsefni og stöðu innan rannsóknargeirans og og stefnumarkandi ákvarðanir á sviði vísinda og tækni verða ræddar. Ekki síst er gert ráð fyrir að miklar umræður verði um stöðu líftækni innan landbúnaðar.

Þrátt fyrir að þetta fyrirhugaða fyrirkomulag sé gagnrýnt af þeim sem óttast aukin ítök misviturra þjóðarleiðtoga á þróun innan vísinda, þá endurspegla þessir dagskrárliðir tvennt: aukin ítök lýðræðislegra kjörinna leiðtoga í álfunni og vaxandi opna umræðu um vísindi.

 Það ætti því að vera áhugavert að fylgjast með því til hvers umræðan á fundi næstu viku leiðir. Lítil von er þó til þess að ég fái að gera það gegnum íslenska fjölmiðla.  Í fyrsta lagi vantar í þá blaðamenn með þekkingu á vísindum og vísindastefnu - og í öðru lagi virðist fátt fréttnæmt frá Afríku í augum fjölmiðla, nema að það feli í sér sögur af hörmungum og vanþróun.  Væri ekki ráð að breyta þeirri slagsíðu?

http://www.nature.com/nature/journal/v445/n7126/full/445339a.html

...og fréttin opnast m.a.s. fyrir öllum (einhverra hluta vegna er HÍ ekki með netaðgang að þessu virtast vísindatímariti heims og því oft ómögulegt að komast í greinar þaðan á netinu...)


Hvað er með þessar skjáauglýsingar í Háskólanum?

Klukkan er hálfníu.  Eða rétt rúmlega það.  Ég kem höktandi inn á taktlausu hálfvalhoppi og æði gegnum kennslustofuna í Neskirkju.  Ég er að leita að kaffi.  

Kaffistofan opnar auðvitað ekki fyrr en eftir hálftíma - það er jú ennþá nótt. Þannig að ég neyðist til að bakka inn í kennslustofuna, kaffilaus í umræðutíma.  Um miðja nótt. Og eftir örlitla stund verð ég vör við sífellt suð, ekki hávært en þó ágengt, svona hljóð sem þú tekur því sem næst ekki eftir, en sem sargar á taugarnar.  Skjávarpinn í stofunni er í gangi en þegar ég lít upp sé ég ekki virðulegt innsigli HÍ, heldur gervilegt gleiðgosabrosið á skogellunni.  Og það rifjast upp fyrir mér að ég sá hana í gær líka, í tíma á Aðalbyggingu.  Síðar um daginn, þegar ég er að hefja kennslufyrirlestur í Eirbergi, þá birtist ljótmynnta gellan aftur. 

Ég velti fyrir mér: Hver bauð henni í Háskólann?  Af hverju eru farnar að birtast auglýsingar í frímínútum Háskólans? Er háskólanám bíó? Verður frímínútum fjölgað og farið að selja popp? Verða seldar auglýsingar á kennarana næst? Á þakið á Aðalbyggingu? Verða kennslustofur eins og íþróttavellir, með auglýsingaspjöldum allt í kring?

 

Eða borgar sig kannski frekar að fikra sig neðar í skólakerfið, fá heimild grunnskóla til að auglýsa síma, sælgæti, gosdrykki, skyndimat og tölvuleiki. Kannski getum við svo að lokum gert eins og var eitt sinn í Kólórado.  þar "sponsoreraði" Kókakóla skóla gegn því að fá að setja upp sjálfsala alls staðar í skólanum.  Samningurinn gekk út á að ef drukkið væri ákveðið magn gosdrykkja í skólanum á ársgrundvelli, þá fengi skólinn ákveðna upphæð. Þegar samningurinn virtist í hættu vegna of lítillar neyslu nemenda, þá hvatti skólastjórinn kennara sína til að leyfa nemendum að drekka gosdrykki í tímum.

 

Ég segi ekki að við séum endilega á þessari leið með ljótum símauglýsingum milli tíma í HÍ.  En finnst öllum í lagi að auglýsendur komist að allstaðar?  Kannski verður farið að auglýsa í kirkjum?!

Úps - það var jú í Neskirkju sem skogellan birtist mér fyrst - það vígi er fallið.  Þessi messa var í boði Ogskosímans. 

 


Missum aldrei sjónar á okkar lukku

Við getum þakkað fyrir það að búa ekki í Mogadishu.

http://www.nytimes.com/2007/01/19/world/africa/19victim.html?pagewanted=1&_r=1&th&emc=th

Landið hefur í 16 ár verið í helgreipum borgarastyrjaldar, sem er auðvitað löngu hætt að vera styrjöld og orðin að einhverskonar eftirmynd fútúrískra bíómynda og skáldsagna þar sem allur samfélagsstrúktúr er horfinn og hnefinn ræður ríkjum.  Við getum þakkað fyrir það hversu ólíklegt það er að börnin okkar þurfi nokkurntímann að upplifa það sem börnin í Mogadishu upplifa dag eftir dag, viku eftir viku, ár eftir ár - án þess að í sjónmáli sé nokkur raunverulega endanleg lausn.

Það eru flóknar og margbreytilegar ástæður (sem ég ætla mér ekki þá dul að kunna skil á) sem leiða til þess að brothætt stjórnskipulag fellur saman. Þau dæmi sem við höfum þar um hljóta að vekja okkur til umhugsunar um sammannlega ábyrgð, sem er grundvöllur að tilveru og velferð afkomenda okkar.

Við skulum líka þakka fyrir það að búa ekki í Darfur.  Þar hefur núna í allt of langan tíma viðgengist þjóðarmorð og sér ekki fyrir endann á nokkurri úrlausn þar á.  Hvers vegna ætli þjóðarleiðtogar heimsins séu ekki eins framtakssamir í málefnum þess fátæka fólks sem í Darfur býr og í afskiptum annars staðar í heiminum?  hvers vegna þetta athafnaleysi, sem minnir með hrollvekjandi hætti á athafnaleysið gagnvart Rúanda fyrir rúmum áratug?

http://topics.nytimes.com/top/news/international/countriesandterritories/sudan/index.html?8qa

Ofbeldi, erfiðleikar og hörmungar í öðrum heimshlutum koma okkur við, og því meira sem heimurinn tengist hnattvæddari böndum.  Við skulum ekki gleyma því í daglegu þjarki okkar hér á klakanum, ekki síst núna fyrir kosningar, að við eigum að láta okkur aðra varða - og að við erum flest aflögufær með einhverjum hætti.  Sem betur fer.


Biðraðamenning?

Ja hérna hér.

Ég sé þetta nú ekki ganga alveg upp.  Mín eina reynsla af því að ferðast til Kína eykur ekki trú mína á að unnt verði að skikka þennan fólksmassa til.  Og ekki sé ég að atgangurinn sem nú er vegna uppbyggingar í kringum Ólympiuleikana sé líklegar til að auka þá ró (eða andvaraleysi?) sem nauðsynleg er til að biðraðir geti lifað.

 

Ferðin var reyndar mesta upplifun ævi minnar af ýmsum orsökum - hana má lesa um hér:  www.barnaland.is/barn/17251.  Og ekki verður næsta ferð síðri, fyrir eða eftir Ólympíuleika 2008.  Kína er...já nú skortir mig hugtak?!?


mbl.is Íbúar Peking skikkaðir í röð einu sinni í mánuði og þeim kenndir mannasiðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Batnandi konu?

Mikil en tiltölulega hljóðlát tíðindi berast nú úr utanríkisráðuneytinu.  Þar á bæ augljóslega farið fram ærin vinna á sviði stefnumótunar að undanförnu.  Það er ástæða til að samfagna starfsfólki í ráðuneytinu, sem núna hefur fengið verkefni að uppbyggingu jákvæðrar stefnu í utanríkismálum, sem grundvallast á þeim gildum sem okkur Íslendingum fer vel að hafa í heiðri: mannréttindum, lýðræði og jafnrétti.  Heyr, heyr.

Ég skal verða fyrst til að játa það að ég er langt frá því að vera ánægð með Framsóknarflokkinn og aðkomu hans að þjóðmalum undanfarinna ára.  Ég hef ekki heldur verið hrifin af fulltrúum hans á þjóðþingi okkar og oftar en ekki viljað setja upp gervinef og skegg þegar heyrist til þeirra opinberlega.  Og Valgerður Sverrisdóttir hefur verið mér mikill þyrnir í augum, vegna starfa sinna í iðnaðarráðuneytinu og stóriðjustefnu þeirrar sem hún var óenitanlega talsmaður fyrir.  Ég skal og játa það að ég fylltist kvíða þegar hún tók að sér að verða andlit okkar á alþjóðavettvangi.

En hana nú - það bregður svo við að ég hef þurft að klappa fyrir henni (hljóðlega, hún er jú alltaf í þessari þreyttu ríkisstjórn) oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að undanförnu.  Stefnubreyting frá hallærislegum tindátaleik forvera hennar í málefnum friðargæslunnar, endurskoðun laga um ÞSSÍ, yfirlýsing hennar um að það fari best á því að Ísland sé herlaust land og breytingar á skipulagsmálum innan ráðuneytisins - allt eru þetta þörf verkefni og tímabær.

Ekki síst er ánægjulegt að sjá að hún virðist ætla að ná að setja mark sitt á utanríkismálin með jákvæðum hætti þann stutta tíma sem hún fær til að athafna sig í ráðuneytinu.  Það var sannarlega komin tími á að fá kvenmann í þetta ráðuneyti, eftir undanfarin hörmungarár, sem einkennst hafa af drengjalegri hernaðarhyggju, óráðsíu og þjónkun við einhverja ímyndaða einkavinahagsmuni til vesturs.  Hámarki náði þó niðurlægingin á þeim hörmungartíma sem var þegar Davíð Oddsson settist áhugalaus í embætti utanríkisráðherra, og gerði lítið annað en að ráða mis(ó)hæfa vini sína í sendiherrastöður, þannig að fjárhag ráðuneytisins sveið undan.  Eða fer sögum af stórvirkjum t.d. Júlíusar Hafstein í sendiherrastöðu sinni?

Enda heyrast raddir innan úr ráðuneyti þess efnis að almenn ánægja sé með það að starfa undir stjórn Valgerðar - og það eru ekki minnstu meðmælin, því að þótt ekki séu allir sammála störfum pólitíkusa, þá er mikils um vert að þeir fylgi málum sínum eftir af stefnufestu og jákvæðni, fagmennsku og alúð.  Þá er a.m.k. hægt að deila um málefnin sjálf en ekki á köflum hallærislega handvömm þeirra sem þeim stýra.

Það er ástæða til að taka ofan fyrir Valgerði. Én ég ætla samt ekki að kjósa Framsókn.


mbl.is Konur í friðargæslunni sendar til Afganistan, Balkanskaga og Líberíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flókin veröld II

Að öðru:

Í New England Journal of Medicine (http://click2.nejm.org/cts/click?q=137;155502;zD9Ipv%2FQ8tnl59I35jSVTPYqktU0CntwOmEnuibGOHw%3D)  birtist í dag forvitnileg grein, þar sem fjallað er um vaxandi offituvanda í fátækum ríkjum.  Bent hefur verið áður á þá andstæðu að í vestrænum ríkjum á borð við Bandaríkin sé offituvandinn frekar bundinn við fátækara fólk í samfélaginu, en í fátækari ríkjum s.s. Kína er hann frekar bundinn við hina betur stæðu. Fram kemur í þessari grein að 1.1 milljarður fullorðinna í heiminum séu of þungir, og að minnsta kosti 155 milljónir barna.

Ástæður þessa vaxandi vanda eru ekki ljósar - í sumum löndum er mótsögn að verða áberandi innan fjölskyldna: of þungir foreldrar sem vinna hörðum höndum að því að halda holdum á of léttum börnum sínum.  Jafnvel er talið að þetta eigi sér líffræðilegar orsakir.  Það verður þó ekki litið framhjá þætti aukins framboðs af ódýrum, óhollum og orkumiklum skyndimat í fátækari löndum, sem í samvinnu minni líkamlega áreynslu leiðir til þess að fólk fitnar - án þess að bæta við sig öðrum en innantómum orkueiningum.

Jafnframt aukinni offitu vex tíðni ýmissa áunna sjúkdóma sem tengjast öðru fremur lífsstíl, sykursýki II, hjartasjúkdómum og ýmsum krabbameinum.  Þessir sjúkdómar eru orðnir byrði á ýmsum löndum, s.s. í Austur Evrópu, Suður Ameríku og Asíu - og kemur þar fast á hæla vannæringar.

Raunar er í sama blaði (http://content.nejm.org/cgi/content/full/356/3/213?query=TOC) bent á að krónískir sjúkdómar á borð við hjartasjúkdóma séu afar algengir í fátækari ríkjum heims og sagt að þeir séu mun algengari en þeir smitsjúkdómar sem iðnríki leggja áherslu á í þróunaraðstoð sinni - af ýmsum ástæðum og ekki öllum byggðum á óeigingjarnri hjálpsemi.  Krónískir sjúkdómar eru fátækum samfélögum afar dýrir.  En, eins og bent er á í greininni, þá hefur það ólík áhrif á hjartastrengina að sjá fræga stjörnu halda á eyðnismituðu barni í fanginu og að sjá mynd af fertugum manni með háþrýsting.  Það hefur bara ekki sama sexappílið - og stundum er sexappílið í ýmsum myndum því miður grundvöllur að gjafmildi okkar.

 


Flókin veröld I

Hún er flókin veröldin og full af mótsögnum.  Þar sem ég þekki þessar kringumstæður af eigin raun, þá eru margar og misvísandi tilfinningar sem vakna þegar upplýsingar berast um nýja stefnu Kínverja í ættleiðingamálum.  Við sem ættleiðum erlend börn erum auðvitað meðvituð um það að okkar hamingja er óhjákvæmilega grundvölluð á angist annarrar manneskju og erfiðleikum.  Það er engan veginn hægt að setja sig í spor móður sem neyðist til að yfirgefa barnið sitt.

Þess vegna er það bæði jákvætt og neikvætt að þessi stefnubreyting hafi orðið - afskaplega jákvætt ef færri stúlkubörn er borin út, jákvætt ef það endurspeglar aukin veg stúlkubarna í dreifbýli í Kína og jákvætt ef auðveldara reynist að finna þessum börnum heimili á heimaslóðum, en sorg þeirra sem byggt hafa framtíðardrauma sína á þessum möguleika er líka staðreynd, kannski eigingjörn, en engu að síður mannleg tilfinning.

Samfélagslegar aðstæður sem tengjast framboði á ættleiddum börnum í Kína eru afar flóknar.  Í fullkomnum heimi væru öll börn óskabörn og öllum fært að eignast þau. Það virðist stundum óumræðilega óréttlátt að svo sé ekki.

 


mbl.is Einstæðir foreldrar missáttir við ákvörðun Kínverja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband