Nairobi

Ég er að keyra á flugvöllinn í Nairobi.  UNESCO fundurinn afstaðinn og ég búin að tékka mig útaf fína hótelinu.

Á leið á flugvöllinn verð ég aftur slegin af þeim myndum sem við blasa.  Og ég hef aftur nægan tíma til að velta þeim fyrir mér; í Nairóbi virðist alltaf vera umferðarteppa og 18 kílómetrarnir á flugvöllinn eru farinir á einum og hálfum klukkutíma. Og hægt og rólega breytir borgin um svip:  frá grænum görðunum í kringum fínu hótelin og hús hinna ríku, til ruslahauganna utan við hverfi hinna fátæku.

Það gefst góður tími til spjalls við bílstjórann minn á leiðinni, eins og gefur að skilja. Hann heitir Peter, er giftur tveggja barna faðir.  Konan hans hefur verið frá vinnu frá því í nóvember eftir að hún smitaðist af berklum í kviðarholi.

Ég lít út um gluggann og sé konu bogra yfir litlum ræktunarskika utan við verksmiðjuhús.  Peter segir mér að fólk nýti sér auð svæði til þess arna.  Þessi reitur sé í eigu bjórverksmiðjunnar og að ef ákveðið verði að nýta hann verði hún að láta sig hverfa.  En á meðan skikar eru ekki nýttir reyni fólk að rækta matjurtir á þeim. 

Við ökum fram á geitahóp.   "Þetta eru ólöglegar geitur," segir Peter.  "Það er ólöglegt að selja þær hér, það á að selja þær á sérstökum stöðum.  En sláturhúsið er hér rétt fyrir innan og það er ekki ólöglegt að koma með geit á sláturhúsið.  Þess vegna stelst fólk til að kaupa geitur af þessum mönnum á lægra verði og rölta með í slátrun. 

Við silumst fram úr reiðhjólum með háum stöflum afg kössum, og mönnum sem ýta á undan sér drekkhlaðnar handherrur.  þetta eru menn sem kaupa vörur á markaðnum, fara með í úthverfin og selja þeim sem ekki eiga heimangengt.  Allstaðar er verið að búa til virðisauka.

Á ruslahaug við veginn er fólk að gramsa í leit að einhverju nýtanlegu.  Tötrum klæddur maður staldrar við og starir á ljósastaur.  Beygir sig niður, tínir plastsnifsi upp úr vatnsræsinu sem rennur meðfram haugnum.  Hann hristir plasitð til að hreinsa það, og fer svo að tína eitthvað af staurnum.  hvað það er sé ég ekki, en það er greinilega einhvers virði fyrir hann.  Svo setur hann samanbrotið plastið í vasann sinn og heldur áfram ráfi sínu.

Peter er duganaðarforkur. Eftir að konan hans veiktist fékk hann sér heimilishjálp, en auk þess er hann með tvo menn í vinnu við að yrkja 5 ekru land sem hann á.  Aðspurður um hvort honum líki það að aka leigubíl segir hann:  "It is better than doing nothing".

Hann er einnig með ákveðnar hugmyndir um hvað mætti betur fara í landinu.  Við horfum á þrjá menn með harðkúluhatta, sem virðast vera að moka holu.  Einn mokar og tveir standa hjá.  "Ég held að allir geti unnið í þessu landi.  Og ég held að það væri hægt að skapa atvinnu.  Ekki bara ríkisstjórnin heldur allir.  Sko, ef allir sem eiga peninga gerðu eins og ég, fjárfestu í jörð eða einhverju og réðu menn í vinnu, þá væru sköpuð fullt af störfum. Og þannig gætu hjólin farið að snúast."

Mér verður óhjákvæmilega hugsað til ráðherra í ríkisstjórn Kenya, sem eru með milljónkall í laun á mánuði.  Ætli þeir hugsi eins? 

 Aðspurður um spillingu segir hann að jú, það sé svolítil spilling núna meðal æðstu ráðamanna, en ekkert eins og þegar arap Moi var við völd.  þá var algengt að hringt væri í banka og mönnum tilkynnt að veita lán - til manna sem aldrei greiddu svo af þeim.  Þannig voru mörg hótel og stórhýsi í Nairobi byggð.

 

Aðalvandinn núna segir Peter að sé vanhæfni - incompetence.  Hann vísar í holóttar götur höfuðborgarinnar sér til stuðnings, en rekur líka dæmi um afurðageymslur, sem byggðar voru að hans sögn út um allt land fyrir 1,6 milljarða íslenskra króna.  Svo standa þær núna ónotaðar, vegna einhvers ótilgreinds vandamálss, en engu að síður séu ráðnir verðir og eytt í þær rafmagni til að viðhalda þeim. 

Það er hressandi að tala við Peter.  Hvort sem maður er sammála honum eða ekki, þá er hann með ákveðnar hugmyndir um land sitt og þetta eru ekki hugmyndir sem ganga út á aðkomu erlendra aðila - nema þá til fjárfestinga.  Ef ykkur sem lesið þetta vantar góðan leigubílstjóra í Nairóbi, þá er ég með nafnspjaldið hans. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það sem sló mig mest þegar ég var í Nairóbí um árið var þegar ég sá krakkana sniffa lím, alveg hreint ömurlegt... verður þú vör við það ?

Inga Hrund (IP-tala skráð) 21.5.2007 kl. 10:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband