Flókin veröld II

Að öðru:

Í New England Journal of Medicine (http://click2.nejm.org/cts/click?q=137;155502;zD9Ipv%2FQ8tnl59I35jSVTPYqktU0CntwOmEnuibGOHw%3D)  birtist í dag forvitnileg grein, þar sem fjallað er um vaxandi offituvanda í fátækum ríkjum.  Bent hefur verið áður á þá andstæðu að í vestrænum ríkjum á borð við Bandaríkin sé offituvandinn frekar bundinn við fátækara fólk í samfélaginu, en í fátækari ríkjum s.s. Kína er hann frekar bundinn við hina betur stæðu. Fram kemur í þessari grein að 1.1 milljarður fullorðinna í heiminum séu of þungir, og að minnsta kosti 155 milljónir barna.

Ástæður þessa vaxandi vanda eru ekki ljósar - í sumum löndum er mótsögn að verða áberandi innan fjölskyldna: of þungir foreldrar sem vinna hörðum höndum að því að halda holdum á of léttum börnum sínum.  Jafnvel er talið að þetta eigi sér líffræðilegar orsakir.  Það verður þó ekki litið framhjá þætti aukins framboðs af ódýrum, óhollum og orkumiklum skyndimat í fátækari löndum, sem í samvinnu minni líkamlega áreynslu leiðir til þess að fólk fitnar - án þess að bæta við sig öðrum en innantómum orkueiningum.

Jafnframt aukinni offitu vex tíðni ýmissa áunna sjúkdóma sem tengjast öðru fremur lífsstíl, sykursýki II, hjartasjúkdómum og ýmsum krabbameinum.  Þessir sjúkdómar eru orðnir byrði á ýmsum löndum, s.s. í Austur Evrópu, Suður Ameríku og Asíu - og kemur þar fast á hæla vannæringar.

Raunar er í sama blaði (http://content.nejm.org/cgi/content/full/356/3/213?query=TOC) bent á að krónískir sjúkdómar á borð við hjartasjúkdóma séu afar algengir í fátækari ríkjum heims og sagt að þeir séu mun algengari en þeir smitsjúkdómar sem iðnríki leggja áherslu á í þróunaraðstoð sinni - af ýmsum ástæðum og ekki öllum byggðum á óeigingjarnri hjálpsemi.  Krónískir sjúkdómar eru fátækum samfélögum afar dýrir.  En, eins og bent er á í greininni, þá hefur það ólík áhrif á hjartastrengina að sjá fræga stjörnu halda á eyðnismituðu barni í fanginu og að sjá mynd af fertugum manni með háþrýsting.  Það hefur bara ekki sama sexappílið - og stundum er sexappílið í ýmsum myndum því miður grundvöllur að gjafmildi okkar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband