Hvað er með þessar skjáauglýsingar í Háskólanum?

Klukkan er hálfníu.  Eða rétt rúmlega það.  Ég kem höktandi inn á taktlausu hálfvalhoppi og æði gegnum kennslustofuna í Neskirkju.  Ég er að leita að kaffi.  

Kaffistofan opnar auðvitað ekki fyrr en eftir hálftíma - það er jú ennþá nótt. Þannig að ég neyðist til að bakka inn í kennslustofuna, kaffilaus í umræðutíma.  Um miðja nótt. Og eftir örlitla stund verð ég vör við sífellt suð, ekki hávært en þó ágengt, svona hljóð sem þú tekur því sem næst ekki eftir, en sem sargar á taugarnar.  Skjávarpinn í stofunni er í gangi en þegar ég lít upp sé ég ekki virðulegt innsigli HÍ, heldur gervilegt gleiðgosabrosið á skogellunni.  Og það rifjast upp fyrir mér að ég sá hana í gær líka, í tíma á Aðalbyggingu.  Síðar um daginn, þegar ég er að hefja kennslufyrirlestur í Eirbergi, þá birtist ljótmynnta gellan aftur. 

Ég velti fyrir mér: Hver bauð henni í Háskólann?  Af hverju eru farnar að birtast auglýsingar í frímínútum Háskólans? Er háskólanám bíó? Verður frímínútum fjölgað og farið að selja popp? Verða seldar auglýsingar á kennarana næst? Á þakið á Aðalbyggingu? Verða kennslustofur eins og íþróttavellir, með auglýsingaspjöldum allt í kring?

 

Eða borgar sig kannski frekar að fikra sig neðar í skólakerfið, fá heimild grunnskóla til að auglýsa síma, sælgæti, gosdrykki, skyndimat og tölvuleiki. Kannski getum við svo að lokum gert eins og var eitt sinn í Kólórado.  þar "sponsoreraði" Kókakóla skóla gegn því að fá að setja upp sjálfsala alls staðar í skólanum.  Samningurinn gekk út á að ef drukkið væri ákveðið magn gosdrykkja í skólanum á ársgrundvelli, þá fengi skólinn ákveðna upphæð. Þegar samningurinn virtist í hættu vegna of lítillar neyslu nemenda, þá hvatti skólastjórinn kennara sína til að leyfa nemendum að drekka gosdrykki í tímum.

 

Ég segi ekki að við séum endilega á þessari leið með ljótum símauglýsingum milli tíma í HÍ.  En finnst öllum í lagi að auglýsendur komist að allstaðar?  Kannski verður farið að auglýsa í kirkjum?!

Úps - það var jú í Neskirkju sem skogellan birtist mér fyrst - það vígi er fallið.  Þessi messa var í boði Ogskosímans. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband