Þriðjudagur, 6. mars 2007
Heimsborgaraleg hræsni
Það eru ekki nýjar fréttir að mannréttindi séu fótum troðin í Myanmar, eða Burma. Mér skilst að herforingjastjórnin sem nú er við völdhafi tekið upp Myanmar og vil því síður nota nafnið á meðan ég er ekki leiðrétt. Fæ óbragð í munninn þegar ég hugsa til þessara ráðamanna.
Aung San Suu Kyi fékk Friðarverðlaun Nóbels árið 1991, ári eftir að flokkur hennar sigraði í kosningum ári áður. Hún hefur í stofufangelsi meira og minna síðan. Í sextán ár. Á þeim tíma hafa synir hennnar tveir vaxið úr grasi og maður hennar látist - án þess að hún hafi getað hitt þá eða kvatt mann sinn. Aung San Suu Kyi er ein merkasta, ef ekki hin merkasta manneskja sem lifir í dag - líklega er Nelson Mandela hinn eini sem stendur henni jafnfætis. Hún heldur virðingu sinni að því er virðist, hvað sem á dynur, og í þeim fáu sjónvarpsviðtölum sem hefur verið hægt að taka við hana geislar hún frá sér yfirvegun og friði sem er með ólíkindum. Og jafnframt þessu fasi sýnir hún ótrúlegan, einbeittan vilja og andspyrnu gegn yfirvöldum sem hafa núna í hartnær tvo áratugi lagt á hana ómanneskjulegar byrðar til að brjóta niður vilja hennar. Hún er sú manneskja sem ég vil helst hitta. Og auðvitað allra helst í réttmætri ráðamannsstöðu sinni í Burma.
Lýðum hefur verið ljóst sem sé í sextán ár hið minnsta að mannréttindi eru fórum troðin í Burma. Umfjöllun um þetta land hefur verið lítt áberandi í íslenskum fjölmiðlum. Ekki verður t.d. séð að utanríkisráðuneytið hafi séð ástæðu til þess að minnast sextugsafmælis hennar í júní 2005 (enga fréttatilkynningu að finna á heimasíðu). Ekki verður heldur séð að ráðuneytið hafi gert sér mat úr mótmælum Bandaríkjanna í nóvember sama ár, né heldur ákvörðun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna að leggja áherslu á málefni Myanmar, en hún var tekin í september 2006. Ég minnist þess ekki að þessu síðasta hafi verið slegið upp í fjölmiðlum heldur.
http://www.un.org/apps/news/storyAr.asp?NewsID=19862&Cr=myanmar&Cr1=&Kw1=Myanmar&Kw2=&Kw3=
Hún er undarleg hræsni heimsins. Einhverra hluta vegna þykir þeim þjóðum, sem réttlæta hernaðaraðgerðir til að tryggja frið, engin ástæða til að safna saman liði til að koma á lýðræði í Myanmar - og þó er þar fyrir leiðtogi, sem er elskuð af landsmönnum. Ekki hefur heldur verið beitt sérstaklega miklum friðsamlegum þrýstingi - það skyldi þó aldrei tengjast verðmætum gasleiðslum sem yfirvöld hafa aðstoðað fjölþjóðafyrirtæki við að leggja (staðfestar sagnir bárust af þrælkun og nauðungaflutningum í sambandi við þá lögn).
Og við, hin viljuga og staðfast þjóð, gátum lesið fyrir örfáaum árum frásögn ferðafrömuðar, sem sagði að hann skildi ekkert í því að verið væri að tala um áþján búrmísks almennings - allir voru svo brosmildir í kringum hann og íslenska fimm stjörnu hópinn hans! Hið merkilega var eftir þessa frásögn heimsferðafrömuðarins, sem birtist sem bréf í Morgunblaðinu, að enginn kváði.
Ég vil að við kváum. Við eigum að spyrja, og þrýsta á um upplýsingar og velta fyrir okkur hvers vegna íslenskum stjórnvöldum fannst Hussein vera verri harðstjóri en herforingjastjórnin í Burma - hvers vegna ekki er vakið opinberlega máls á ástandi mannnréttindamála í Burma, með reglulegum hætti og á vegum yfirstjórnar utanríkismála á Íslandi. Við eigum að marka okkur einarða stefnu í mannréttindamálum. Núna strax.
Svört skýrsla um mannréttindi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.