Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Batnandi konu?

Mikil en tiltölulega hljóðlát tíðindi berast nú úr utanríkisráðuneytinu.  Þar á bæ augljóslega farið fram ærin vinna á sviði stefnumótunar að undanförnu.  Það er ástæða til að samfagna starfsfólki í ráðuneytinu, sem núna hefur fengið verkefni að uppbyggingu jákvæðrar stefnu í utanríkismálum, sem grundvallast á þeim gildum sem okkur Íslendingum fer vel að hafa í heiðri: mannréttindum, lýðræði og jafnrétti.  Heyr, heyr.

Ég skal verða fyrst til að játa það að ég er langt frá því að vera ánægð með Framsóknarflokkinn og aðkomu hans að þjóðmalum undanfarinna ára.  Ég hef ekki heldur verið hrifin af fulltrúum hans á þjóðþingi okkar og oftar en ekki viljað setja upp gervinef og skegg þegar heyrist til þeirra opinberlega.  Og Valgerður Sverrisdóttir hefur verið mér mikill þyrnir í augum, vegna starfa sinna í iðnaðarráðuneytinu og stóriðjustefnu þeirrar sem hún var óenitanlega talsmaður fyrir.  Ég skal og játa það að ég fylltist kvíða þegar hún tók að sér að verða andlit okkar á alþjóðavettvangi.

En hana nú - það bregður svo við að ég hef þurft að klappa fyrir henni (hljóðlega, hún er jú alltaf í þessari þreyttu ríkisstjórn) oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að undanförnu.  Stefnubreyting frá hallærislegum tindátaleik forvera hennar í málefnum friðargæslunnar, endurskoðun laga um ÞSSÍ, yfirlýsing hennar um að það fari best á því að Ísland sé herlaust land og breytingar á skipulagsmálum innan ráðuneytisins - allt eru þetta þörf verkefni og tímabær.

Ekki síst er ánægjulegt að sjá að hún virðist ætla að ná að setja mark sitt á utanríkismálin með jákvæðum hætti þann stutta tíma sem hún fær til að athafna sig í ráðuneytinu.  Það var sannarlega komin tími á að fá kvenmann í þetta ráðuneyti, eftir undanfarin hörmungarár, sem einkennst hafa af drengjalegri hernaðarhyggju, óráðsíu og þjónkun við einhverja ímyndaða einkavinahagsmuni til vesturs.  Hámarki náði þó niðurlægingin á þeim hörmungartíma sem var þegar Davíð Oddsson settist áhugalaus í embætti utanríkisráðherra, og gerði lítið annað en að ráða mis(ó)hæfa vini sína í sendiherrastöður, þannig að fjárhag ráðuneytisins sveið undan.  Eða fer sögum af stórvirkjum t.d. Júlíusar Hafstein í sendiherrastöðu sinni?

Enda heyrast raddir innan úr ráðuneyti þess efnis að almenn ánægja sé með það að starfa undir stjórn Valgerðar - og það eru ekki minnstu meðmælin, því að þótt ekki séu allir sammála störfum pólitíkusa, þá er mikils um vert að þeir fylgi málum sínum eftir af stefnufestu og jákvæðni, fagmennsku og alúð.  Þá er a.m.k. hægt að deila um málefnin sjálf en ekki á köflum hallærislega handvömm þeirra sem þeim stýra.

Það er ástæða til að taka ofan fyrir Valgerði. Én ég ætla samt ekki að kjósa Framsókn.


mbl.is Konur í friðargæslunni sendar til Afganistan, Balkanskaga og Líberíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flókin veröld II

Að öðru:

Í New England Journal of Medicine (http://click2.nejm.org/cts/click?q=137;155502;zD9Ipv%2FQ8tnl59I35jSVTPYqktU0CntwOmEnuibGOHw%3D)  birtist í dag forvitnileg grein, þar sem fjallað er um vaxandi offituvanda í fátækum ríkjum.  Bent hefur verið áður á þá andstæðu að í vestrænum ríkjum á borð við Bandaríkin sé offituvandinn frekar bundinn við fátækara fólk í samfélaginu, en í fátækari ríkjum s.s. Kína er hann frekar bundinn við hina betur stæðu. Fram kemur í þessari grein að 1.1 milljarður fullorðinna í heiminum séu of þungir, og að minnsta kosti 155 milljónir barna.

Ástæður þessa vaxandi vanda eru ekki ljósar - í sumum löndum er mótsögn að verða áberandi innan fjölskyldna: of þungir foreldrar sem vinna hörðum höndum að því að halda holdum á of léttum börnum sínum.  Jafnvel er talið að þetta eigi sér líffræðilegar orsakir.  Það verður þó ekki litið framhjá þætti aukins framboðs af ódýrum, óhollum og orkumiklum skyndimat í fátækari löndum, sem í samvinnu minni líkamlega áreynslu leiðir til þess að fólk fitnar - án þess að bæta við sig öðrum en innantómum orkueiningum.

Jafnframt aukinni offitu vex tíðni ýmissa áunna sjúkdóma sem tengjast öðru fremur lífsstíl, sykursýki II, hjartasjúkdómum og ýmsum krabbameinum.  Þessir sjúkdómar eru orðnir byrði á ýmsum löndum, s.s. í Austur Evrópu, Suður Ameríku og Asíu - og kemur þar fast á hæla vannæringar.

Raunar er í sama blaði (http://content.nejm.org/cgi/content/full/356/3/213?query=TOC) bent á að krónískir sjúkdómar á borð við hjartasjúkdóma séu afar algengir í fátækari ríkjum heims og sagt að þeir séu mun algengari en þeir smitsjúkdómar sem iðnríki leggja áherslu á í þróunaraðstoð sinni - af ýmsum ástæðum og ekki öllum byggðum á óeigingjarnri hjálpsemi.  Krónískir sjúkdómar eru fátækum samfélögum afar dýrir.  En, eins og bent er á í greininni, þá hefur það ólík áhrif á hjartastrengina að sjá fræga stjörnu halda á eyðnismituðu barni í fanginu og að sjá mynd af fertugum manni með háþrýsting.  Það hefur bara ekki sama sexappílið - og stundum er sexappílið í ýmsum myndum því miður grundvöllur að gjafmildi okkar.

 


Flókin veröld I

Hún er flókin veröldin og full af mótsögnum.  Þar sem ég þekki þessar kringumstæður af eigin raun, þá eru margar og misvísandi tilfinningar sem vakna þegar upplýsingar berast um nýja stefnu Kínverja í ættleiðingamálum.  Við sem ættleiðum erlend börn erum auðvitað meðvituð um það að okkar hamingja er óhjákvæmilega grundvölluð á angist annarrar manneskju og erfiðleikum.  Það er engan veginn hægt að setja sig í spor móður sem neyðist til að yfirgefa barnið sitt.

Þess vegna er það bæði jákvætt og neikvætt að þessi stefnubreyting hafi orðið - afskaplega jákvætt ef færri stúlkubörn er borin út, jákvætt ef það endurspeglar aukin veg stúlkubarna í dreifbýli í Kína og jákvætt ef auðveldara reynist að finna þessum börnum heimili á heimaslóðum, en sorg þeirra sem byggt hafa framtíðardrauma sína á þessum möguleika er líka staðreynd, kannski eigingjörn, en engu að síður mannleg tilfinning.

Samfélagslegar aðstæður sem tengjast framboði á ættleiddum börnum í Kína eru afar flóknar.  Í fullkomnum heimi væru öll börn óskabörn og öllum fært að eignast þau. Það virðist stundum óumræðilega óréttlátt að svo sé ekki.

 


mbl.is Einstæðir foreldrar missáttir við ákvörðun Kínverja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljótt ef satt er...

Í hádegisfréttum á Bylgjunni kom fram að Ríkisendurskoðandi sá aldrei skýrslu þá, sem gerð var um fjármál Byrgisins 2004 og sem fól í sér áfellisdóm um ástand mála. Sú skýrsla var stimpluð trúnaðarmál og komst aldrei í neina umfjöllun. Þó voru nokkrir sem þekktu innihaldið: þeir sem í starfshópnum voru, sem stóð að skýrslunni. Einn þeirra er núverandi formaður fjárlaganefndar. Hann þekkti sem sé til málefna Byrgisins, þegar hann ákvað umyrðalaust að verja fé úr sameiginlegum sjóðum okkar til stofnunarinnar á fjárlögum 2007. Og sagði ekki orð. Aðspurður segir hann að það sé ekki hans að vekja athygli á þessu?!? Ef formaður fjárlaganefndar á ekki að láta vita af því að verið sé að verja peningunum okkar í vitleysu, hver á þá að gera það að hans mati? Jú - Ríkisendurskoðandi - sem fékk aldrei að sjá úttektina.
Formaður fjárlaganefndar ber sem sé að eigin mati ekki ábyrgð á því sem í fjárlögin fer og ber enga upplýsingaskyldu um misferli. Og þennan mann var verið að kjósa á lista fyrir næstu Alþingiskosningar. Ja svei.
mbl.is Kvartað yfir að ekki fáist rætt um Byrgið utan dagskrár á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótsagnakenndur Moggi II

Í leiðara birtist svo skemmtileg þverstæða. Fyrri hluti leiðarans fjallar um skýrslu Nicholas Stern um loftslagsbreytingar. Í niðurlagi þess hluta er hvatt til þess að tekið verði mark á skýrslunni og spurt. "Eru vísbendingarnar ekki orðnar nógu margar til að loks verði tekið af skarið og alvörukraftur settur í glímuna við vandann?" Góð spurning hjá leiðarahöfundi og vert að fá skýr svör við henni. Þau koma líka með snilldarlegum hætti í síðari hluta leiðarans þar sem fjallað er um umferðaþungann í borginni.

Komið hefur fram að umferðarþunginn veldur m.a. svifryksmengun, sem veldur alvarlegum vandamálum hjá mörgum að vetrum, hann veldur útblástursmengun og er eitt stærsta umhverfisvandamálið sem við búum við hér í borginni. Þess vegna er það undarlegt þverstæða sem birtist þegar því er slegið föstu að ekki sé vænlegt að stefna að því að minnka umferðarþungann: "Þriðja leiðin gæti verið sú að vinna með markvissum hætti gegn fjölgun bíla og [að, innskot ÓÝA] aukinni notkun strætisvagna. En er það raunhæf leið á Íslandi þar sem veður er oft vont yfir vetrartímann? Tæplega." Ég geri ráð fyrir að eitt að hafi vantað þarna inn í, annars verður málsgreinin enn undarlegri. Undarlegheitin eru næg samt.

Eru verstu veður hnattarins á Íslandi? Tæplega. Hér er oft vont veður, en það er vont veður víðar, án þess að fólk skorist undan því að fara í úlpuna og nota almenningssamgöngur. Ég er einmitt að horfa á fréttir af ofsakenndu veðri víða í nágrannalöndum okkar. Óútreiknanlegt veður er af mörgum að hluta rakið til loftsalagsbreytinga. Er það innlegg í lausn á loftslagsvanda jarðar að búa til hraðbraut til að taka við enn aukinni umferð? Tæplega. Og hvers vegna má frekar eyða fjármunum í hraðbrautir en almenningssamgöngur? Eru þær þjóðhagslega og hnattrænt hagkvæmari? Tæplega.

P.S. Hvernig er hægt að gera línubil á þessu #$%T"#&%$& bloggi?


Mótsagnakenndur Moggi I

Tvennt vekur athygli í Morgunblaði dagsins:

Í Staksteinum er fjallað um nýlega blaðaumfjöllun í Danmörku um íslenska fjármálamenn. Það má vissulega til sanns vegar færa að umfjöllunin sé óvægin og hörð. Það má líka fallast á að hagfræðingur Danske Bank hafi hlaupið á sig með orðum sínum um komu Abramovitsj til Íslands og þess sem hann ýjaði að með þeim.

Hins vegar finnst mér undarlegt að Staksteinahöfundur skuli í síðustu efnisgrein leggja fund forsætisráðherra Íslands og Danmerkur að jöfnu við heimsókn Abramovitsj til Íslands. Þykir Staksteinahöfundi þar líku saman að jafna: fundur tveggja lýðræðislega kjörinna forsætiráðherra og einkaheimsókn (skipaðs, ekki kjörins) héraðshöfðingja til Íslands? Heimsókn Abramovitsj var ekki kynnt sem opinber í fjölmiðlum og ekki heldur á heimasíðu forsætiráðuneytisins.

Ég skal játa að ég skildi ekki alveg hvers vegna tekið var á móti Abramovitsj eins og þjóðhöfðingja og á hvaða forsendum hans snæddi í boði mínu á Bessastöðum. Var verið að greiða fyrir boðið á fótboltaleikinn? Ef svo er, þá langar mig að minnast á að ég á von á vinum mínum frá því að ég var í námi í útlöndum. Gáfaðar konur og marglærðar, gætu eflaust komið á rannsóknarsamstarfi við Íslendinga. Er einhver von til þess að ég fái að bjóða þeim í mat og meððí á Bessastöðum? Hélt ekki. Hvernig ætli reglurnar um slík boð séu?


Mestu markaðsbrestir sögunnar?

I fréttum í kvöld var fjallað um nýútkomna skýrslu Nicholas Stern um loftslagsbreytingar. Þar eru tíunduð áhrif loftslagsbreytinga á hagkerfi heimsins, og þeim lýst sem mestu markaðsbrestum sögunnar. Stern er fyrrum aðalhagfræðingur Alþjóðabankans. Sjá: http://news.bbc.co.uk/2/hi/business/6096594.stm

Í skýrslunni eru lagðar til aðgerðir, en einnig fjallað um áhrif loftslagsbreytinga á þróunarlönd og þriðja heiminn. Í frétt mbl.is í kvöld er vitnað í matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ, sem segir heiminum að mistakast í baráttunni við hungursneyð. http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1231673

Skýrsla Sterns kemur ögn of seint til að verða innlegg í þrófkjörsbaráttu Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, en í þeirri prófkjörbaráttu bar umhverfismál meira á góma en áður. Þar vildu margir kenna sig við þann málaflokk, án þess að játast undir að hann væri í eðli sínu örvhentur.

Þrátt fyrir þetta minnist ég ýmissa skrautlegra athugasemda frá þeim frambjóðendum, sem nú hafa raðast á lista til þingkosninga. Einn nýgræðingur ku þannig hafa kallað umhverfismálin "sósíalisma nútímans" eða eitthvað í þá átt. Var það áður en þau voru þvinguð í það að vera rétthent?

Hvernig fara yfirlýsingar annarra frambjóðenda um að markaðsöflunum sé best treystandi til að takast á við umhverfismálin saman við dóm Sterns? Mestu markaðsbrestir sögunnar? Gætu slíkir markaðsbrestir ekki réttlætt ríkisafskipti af þessum málaflokki? Aukna opinbera samvinnu á alþjóðavettvangi?

Eða eigum við kannski bara að treysta því að markaðurinn sjái allt í einu að sér sjálfur, hætti að stefna að hámarksafkomu á skammtímagrunni, hætti að nýta ódýrasta vinnuafl jarðar hverju sinni á sem ódýrastan hátt. Hætti að meta náttúruauðlindanýtingu úr samhengi við önnur verðmæti sem í náttúrunni felast; fyrirtæki verði allt í einu tilbúinn til að játast undir stórhækkaða rekstrarliði vegna þess að þau fara af sjálfu sér að gera auknar kröfur til sín á sviði mengunarvarna.

Loftslagsbreytingar bitna á þeim fátækustu. Hinir fátækustu eru ekki neytendur, eru ekki þrýstihópur á framleiðendur á markaði. Verða ekki til þess að breyta hegðan þeirra eða starfsemi. Stjórnmál framtíðarinnar, þau sem snerta okkur á daglegum grunni, munu í framtíðinni verða æ alþjóðlegri í eðli sínu. Umhverfismál eru alþjóðleg. Neytendamál eru alþjóðleg. Fyrirtæki eru alþjóðleg. Efnahagsmál verða æ alþjóðlegri. Við berum sammannlega ábyrgð í ört smækkandi heimi.

Ég hef einhvernveginn ekki trú á því að stórframleiðendur heimsins hafi miklar áhyggjur af langtímaloftslagsbreytingar og áhrifum þeirra á komandi kynslóðir - barnanna okkar og barna í öðrum heimshlutum. Ég er hrædd um að hið opinbera gegni veigamiklu hlutverki í að stýra markaðnum áfram. Lesið bara skýrslu Stern. Eða útdráttinn úr henni.

Það verður gaman að heyra álit hinna rétthentu og grænu á skýrslu Sterns á komandi vikum. Nú þurfa þau sem ekki vilja vera pólitískt örvhentir að bretta upp ermarnar og koma með raunhæfa pólitíska sýn á nauðsynlegar aðgerðir í umhverfismálum. Fyrir næstu kosningar takk.


Fyrirtækjamenning á Íslandi - dæmi II

Þetta er sú framleiðsla sem við vinnum við á Austfjörðum:

"A recent flow of Pentagon contracts to the Pittsburgh-based corporation is fueling Alcoa's search for increased capacity and, like many US corporations, it is outsourcing manufacturing to countries with relatively lax environmental laws.

In 2004 Alcoa won an initial $1.2 million contract from the US Army. The next year the US Army Tank-Automotive and Armaments Command signed a $12.5 million deal with Alcoa for ground combat and tactical vehicles. That same December 2005, Alcoa also signed a five-year, $30 million contract with Klune Industries to manufacture aluminum structural castings for the US Navy%u2019s Tactical Tomahawk Missile Program.

On July 22, Alcoa chose Bechtel as its primary partner in conducting feasibility studies for the proposed smelter. Bechtel, a private company with close ties to the Bush administration and the Republican party, was awarded a $680 million contract in Iraq through a process of secretive biddings in April 2003, with the possibility of contracts worth billions of dollars."

Við erum sem sé að leggja land okkar og orkuauðlindir undir áframhaldandi stríðsrekstur í Írak. Hvernig getur þjóð, sem var skv. skoðanakönnunum á móti aðkomu okkar í gegnum ráðherrana tvo (80-90% þeirra sem svöruðu könnunum á þessum tíma lýstu andstöðu við ákvörðun ráðamanna, ef mig misminnir ekki) - ég byrja aftur:
Hvernig getur þjóð sem er á móti því að við séum meðal viljugra þjóða, fagnað því að við tökum þátt í að framleiða vopnin sem notuð eru í stríðsrekstrinum? Getur þetta verið rétt? Tókst okkur að verða dáldið dauð - og ánægð með það?

Ég get nú varla verið stolt af því að tilheyra þjóð sem kallar sig hlutlausa og vopnlausa, en tekur virkan þátt í stríðsgagnaframleiðslu. Ég get varla fagnað þeirri pólitísku sýn, að það eina sem geti komið til bjargar landsbyggð og atvinnulífi á Íslandi sé stríðstólaframleiðsla, þótt óbein sé. Með óbeinum hætti erum við að auðgast á þjáningum óbreyttra borgara og þeirri forarvilpu sem ástand mála í Írak er orðið.

Hvað sem öðru líður er umhugsunarvert, bæði fyrir þá sem vilja nýta sem mest okkar orkuuppsprettur og þá sem vilja fara varlega eða ekki í það, að um leið og ALCOA ræðir fjálglega um samfélagsaðkomu sína á Austurlandi, hefur fyrirtækið líka mikil ítök í samfélögum í stríðshrjáðum löndum, bara á annan hátt - þar fer lítið fyrir uppbyggingu.

Það hlýtur að vera hægt, hvar sem menn standa í sambandi við nýtingarmöguleika íslenskrar orku, að taka afstöðu til þess hvernig menn vilja að orkan sé nýtt - og hverjum hún gagnist.


Fyrirtækjamenning á Íslandi - dæmi I.

Svona vinnar ALCOA að umhverfismálum (tekið af corpwatch.org):

"Despite Alcoa's reassurances that it will be a good citizen and an environmental steward, the company has a history of environmental violations. The US Department of Commerce released a statement that Alcoa had violated more than 100 regulations on the export of potassium fluoride and sodium fluoride between 1991 and 1995. According to the New York Times, Alcoa's New York state Massena aluminum smelter was fined $7.5 million in 1991, the largest criminal penalty at the time for hazardous waste violations. The US Justice Department and Environmental Protection Agency released a statement in March 2000, reporting that Alcoa paid out an $8.8 million settlement after complaints that the company illegally expelled waste into the Ohio River from its Warrick County, Indiana plant; that the waste was highly toxic to fish; and that the smoke, dust, and ash expelled from furnaces exceeded Clean Air Act limits."

Ég fór á heimasíðu EPA (Umhverfisstofnunar BNA), en þar eru því miður ekki varðveitt gögn um mál fyrir 1998 (eftir því sem ég komst næst). Hins vegar fann ég eitt mál frá 2003, sem varðar samfélag í Rockdale, Texas (http://www.epa.gov/compliance/resources/cases/civil/caa/alcoa.html).
Á heimasíðu dómssmálaráðuneytis BNA má finna yfirlýsinguna frá mars 2000: http://www.usdoj.gov/opa/pr/2000/March/121enrd.htm

Fyrir þá sem lásu eða sáu The Corporation hljómar þetta kunnuglega. Stórfyrirtæki brjóta lög á meðan stjórnkerfið er of veikburða til að hægt sé að hanka þau, eða á meðan ljóst er að refsiaðgerðirnar sem þau verða fyrir séu svo lítilvirkar að það er hagkvæmt að brjóta lögin og gera ráð fyrir að upp komist í X skipti.
Er þetta sú starfsemi sem við viljum að knýi áfram íslenskt hagkerfi? Er það svona sem við viljum nýta orkuauðlindir okkar? Eru "hreinar" orkuauðlindir okkar áfram hreinar ef þær eru nýttar í tengslum við mengandi starfsemi sem byggir á lögbrotum í öðrum löndum? Eða erum við í þessum efnum illa haldin af NIMBY (NOT IN MY BACK YARD) syndróminu sem Jakobi Björnssyni, fyrrverandi orkumálastjóra varð tíðrætt um hérna um árið, þó í allt öðru samhengi væri. Les: "Ef ekki kemst upp um brot þessara fyrirtækja á Íslandi, nú þá er allt í góðu og við klöppum áfram fyrir góðverkum þeirra í íslenskum samfélögum."
Ég spyr í þessu samhengi: hvernig er það með íslenskt regluverk? Er tryggt að umhverfisbrot á Íslandi borgi sig ekki? Eða verða þau líka debetmegin í bókhaldi íslenskra útibúa alþjóðlegra fyrirtækja?


Myndin stóra

Þegar við tökum ákvarðanir sem varða samfélagið okkar, styðjum ákveðnar aðgerðir ráðamanna - eða mótmælum þeim, þá er ekki úr vegi að við reynum að horfa á "stóru myndina" eða svo má að orði komast. Þetta ber mörgum saman um, en kannski má draga fólk í dilka eftir því hvers stór myndin á að vera. Á hún að rúma alla í hverfinu mínu? Alla sem líta út eins og ég? Alla í bæjarfélaginu mínu? Alla samlanda mína? Alla sem hafa búið á sama stað og ég í ákveðinn tíma? Eða bara allan heiminn?
Er hægt að leggja allan heiminn til grundvallar þeirri ákvarðanatöku sem snertir mig og mína nánustu? Eða get ég gert það í ákveðnum málum og öðrum ekki? Myndi það flokkast undir það að vilja vera dáldið dauður, svona stundum? Kannski er nóg að vera bara meðvitaður um þessa klemmu; sætta sig við að ganga angistarfullan veg ákvarðanatöku sem gagnast mér og mínum hér og nú, en sem hafa að líkindum eyðileggjandi áhrif á annað fólk annars staðar. Fólk sem ég á aldrei eftir að hitta og sem ég þarf ekki að láta hreyfa við mér. Kannski er "heimsþorpið" eitt af þessum innihaldslausu hugtökum sem við sláum um okkur með á góðri stundu, en sem við segjum okkur frá undireins og skóinn kreppir að daglegri værukærð okkar.
Ég hef tilhneigingu til að vilja sjá alla myndina. Mig langar ekki til að daglegar athafnir mínar tengist neikvæðum áhrifum á daglegt líf annarra. Helst vildi ég að þær hefðu jákvæð áhrif, ef einhver. Ég, eins og flestir aðrir, lendi þó í vandræðum með það hvar ég dreg mörkin. Ég hef hreinlega ekki lent í að þurfa að taka verulega stóra ákvörðun, þar sem ég þyrfti að gefa upp á bátinn hluta af eigin velferð (og velferð okkar á Íslandi er jú í heildina mikil) til að bæta lífsafkomu annarra. Kannski kæmi í ljós að ég væri mestur heigull allra í þessum efnum. Það er auðvelt að tala fjálglega þegar athafnir þurfa ekki að fylgja orðum.
En hvað um það. Með því að reyna að sjá eins stóra mynd og mögulegt er í hverju máli, með því að kynna sér mál með gagnrýnum hætti, með því að taka virkar ákvarðanir frekar en óvirkar, þá held ég að hægt sé í það minnsta að sættast við eigin ákvarðanir. Í því felst jafnframt erfiðleikinn við að vera til, vera borgari í opnu lýðræðissamfélagi. Stundum er sagt að vandamál íslensks samfélags felist í að megum allt, en nennum litlu. Okkur þyki sjálfsögð þau mannréttindi sem aðrir berjast fyrir, en erfitt að vera sagt að hlúa að þeim.
Ég held að þetta sé ekki rétt. Ég held að á meðan börn geta sungið um að mála allan heiminn, þá hljóti að vera til fullt af fullorðnum sem vilja virða fyrir sér strigann. Bæði í heild sinni og einstaka hluta í nærmynd.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband