Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Þriðjudagur, 6. mars 2007
Heimsborgaraleg hræsni
Það eru ekki nýjar fréttir að mannréttindi séu fótum troðin í Myanmar, eða Burma. Mér skilst að herforingjastjórnin sem nú er við völdhafi tekið upp Myanmar og vil því síður nota nafnið á meðan ég er ekki leiðrétt. Fæ óbragð í munninn þegar ég hugsa til þessara ráðamanna.
Aung San Suu Kyi fékk Friðarverðlaun Nóbels árið 1991, ári eftir að flokkur hennar sigraði í kosningum ári áður. Hún hefur í stofufangelsi meira og minna síðan. Í sextán ár. Á þeim tíma hafa synir hennnar tveir vaxið úr grasi og maður hennar látist - án þess að hún hafi getað hitt þá eða kvatt mann sinn. Aung San Suu Kyi er ein merkasta, ef ekki hin merkasta manneskja sem lifir í dag - líklega er Nelson Mandela hinn eini sem stendur henni jafnfætis. Hún heldur virðingu sinni að því er virðist, hvað sem á dynur, og í þeim fáu sjónvarpsviðtölum sem hefur verið hægt að taka við hana geislar hún frá sér yfirvegun og friði sem er með ólíkindum. Og jafnframt þessu fasi sýnir hún ótrúlegan, einbeittan vilja og andspyrnu gegn yfirvöldum sem hafa núna í hartnær tvo áratugi lagt á hana ómanneskjulegar byrðar til að brjóta niður vilja hennar. Hún er sú manneskja sem ég vil helst hitta. Og auðvitað allra helst í réttmætri ráðamannsstöðu sinni í Burma.
Lýðum hefur verið ljóst sem sé í sextán ár hið minnsta að mannréttindi eru fórum troðin í Burma. Umfjöllun um þetta land hefur verið lítt áberandi í íslenskum fjölmiðlum. Ekki verður t.d. séð að utanríkisráðuneytið hafi séð ástæðu til þess að minnast sextugsafmælis hennar í júní 2005 (enga fréttatilkynningu að finna á heimasíðu). Ekki verður heldur séð að ráðuneytið hafi gert sér mat úr mótmælum Bandaríkjanna í nóvember sama ár, né heldur ákvörðun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna að leggja áherslu á málefni Myanmar, en hún var tekin í september 2006. Ég minnist þess ekki að þessu síðasta hafi verið slegið upp í fjölmiðlum heldur.
http://www.un.org/apps/news/storyAr.asp?NewsID=19862&Cr=myanmar&Cr1=&Kw1=Myanmar&Kw2=&Kw3=
Hún er undarleg hræsni heimsins. Einhverra hluta vegna þykir þeim þjóðum, sem réttlæta hernaðaraðgerðir til að tryggja frið, engin ástæða til að safna saman liði til að koma á lýðræði í Myanmar - og þó er þar fyrir leiðtogi, sem er elskuð af landsmönnum. Ekki hefur heldur verið beitt sérstaklega miklum friðsamlegum þrýstingi - það skyldi þó aldrei tengjast verðmætum gasleiðslum sem yfirvöld hafa aðstoðað fjölþjóðafyrirtæki við að leggja (staðfestar sagnir bárust af þrælkun og nauðungaflutningum í sambandi við þá lögn).
Og við, hin viljuga og staðfast þjóð, gátum lesið fyrir örfáaum árum frásögn ferðafrömuðar, sem sagði að hann skildi ekkert í því að verið væri að tala um áþján búrmísks almennings - allir voru svo brosmildir í kringum hann og íslenska fimm stjörnu hópinn hans! Hið merkilega var eftir þessa frásögn heimsferðafrömuðarins, sem birtist sem bréf í Morgunblaðinu, að enginn kváði.
Ég vil að við kváum. Við eigum að spyrja, og þrýsta á um upplýsingar og velta fyrir okkur hvers vegna íslenskum stjórnvöldum fannst Hussein vera verri harðstjóri en herforingjastjórnin í Burma - hvers vegna ekki er vakið opinberlega máls á ástandi mannnréttindamála í Burma, með reglulegum hætti og á vegum yfirstjórnar utanríkismála á Íslandi. Við eigum að marka okkur einarða stefnu í mannréttindamálum. Núna strax.
Svört skýrsla um mannréttindi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 2. mars 2007
Japanir enn í afneitun...
Í NYT í dag er fjallað um kúvendingu Japana í málum sem tengjast löngu tímabæru uppgjöri þeirra við atburði síðari heimstyrjaldar.
Japanir hafa, öfugt við Þjóðverja, enn ekki komist áleiðis í að gera upp fortíð sína og þau ódæðisverk sem staðið var fyrir í nafni þeirra á tímum síðari heimstyrjaldar. Árið 1992 fékk japanskur sagnfræðingur, Yoshiaki Yoshimi, nóg af afneituninni og birti sannanir þess efnis að japönsk hermálayfirvöld hafi staðið að rekstri vændishúsa þar sem kínverskar og suður kóreskar konur voru þvíngaðar til að þjóna hermönnum japanska keisaraveldisins. Í kjölfar þess viðurkenndu japönsk yfirvöld, í yfirlýsingu 1993 fyrst tilveru þessara vændishúsa að einhverju leyti, þrátt fyrir að gagnrýnt hafi verið með hvers konar hálfkáki staðið var að þeirri yfirlýsingu og greiðslum bóta til þessara kvenna.
Shinzo Abe, núverandi forsætisráðherra Japan hefur núna hafnað þessari viðurkenningu og meira að segja gefið til kynna að ekkert sýni fram á að konurnar hafi verið þvingaðar til að láta loka sig inni til að þjóna japönskum innrásarher.
Hm. Ég hefði talið að þessu ættu íslensk yfirvöld að mótmæla kröftuglega. Ef þetta er hin opinbera afstaða gagnvart nauðung kvenna á styrjaldartímum, við hverju er að búast þar sem Japanir ákveða að taka þátt í uppbyggingarstarfi á örsnauðum svæðum, t.d. á vegum Sameinuðu þjóðanna eða í nafni hjálparstarfs? Þurfa Japanir ekki að standa fyrir máli sínu til að vera teknir alvarlega í samfélagi þjóðanna? Við hverju getum við búist af þjóð sem enn afneitar 60 ára gömlum glæpum gagnvart konum? Og viljum við í alvöru vera í bissness við svona stjórnvöld? Og teljast samherjar í t.d. veiðum á sjávarspendýrum?
Hvar eru femínistar? Og afhverju eru ekki fréttir af þessu blásnar upp í fjölmiðlum hér á landi? Oj bara - skammastu þín Abe!
http://www.nytimes.com/2007/03/02/world/asia/02japan.html?_r=1&th&emc=th&oref=slogin
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 28. febrúar 2007
Afleiðingar Íraksstríðsins okkar
Enn er deilt um aðferðafræðina sem beitt var við mat á dauðsföllum í Írak, sem rekja má til stríðsins. Deilurnar komast alla leið í Nature og þar kemur fram að þessi rannsókn hafi verið sundurgreind og metin fram og tilbaka í vísindasamfélaginu, jafnvel hafi verið kennd framhaldsnámskeið á háskólastigi. Enda var hún áfall: niðurstöður hennar gáfu til kynna að 2,5% Íraka, eða yfir hálf milljón manna hefði látist sem afleiðing af stríðsrekstrinum. George Bush varð alveg vitlaus og réðist á rannsóknina strax sama dag og niðurstöðurnar birtust. Það fer þó ekki miklum sögum af vísindalegri röksemdafærslu hans í þeirri krítík.
Hvað sem öðru líður, þá hafa rannsakendur ekki getað fullvissað vísindasamfélagið með óyggjandi hætti um að aðferðafræðin sem beitt var sé hafin yfir gagnrýni. Nú hafa rannsakendur birt hrágögnin sín, til að auðvelda hlutlæga umfjöllun um niðurstöðurnar. Það er þá von til þess að hætt verði að deila um aðferðafræðina. Mér finnst hún líka draga athyglina frá því, að hvort sem niðurstöðurnar reynast réttar, eða að deila megi í þær með tveimur, þá hefur stríðsreksturinn tekið gífurlegan toll. Írökum blæðir.
http://www.nature.com/nature/journal/v446/n7131/full/446006a.html
Í ljósi þeirra fórna sem Írakar hafa þurft að færa, er athyglivert að skoða greiningu Foreign Policy á því hverjir það eru sem grætt hafa á stríðinu. Á topp tíu eru:
Íran: völd þeirra í þessum heimshluta hafa aukist
Moqtada al Sadr: orðinn einn valdamesti maðurinn í Írak - og er ekki beint að boða frið og lýðræði
Al Qaeda: hafa numið áður óaðgengileg lönd eftir niðurbrot hins íraska samfélags
Samúel Huntington: fræðimaður sem boðaði óumflýjanleg átök milli svk. "siðmenninga" (eða hópa sem hann skilgreindi út frá afar þröngum forsendum )
Kína: er að vaxa Bandaríkjunum yfir höfuð, treysta ítök í auðlindaríkum Afríkuríkjum og stöðu sína almennt í heiminum á meðan Bandaríikjamenn sökkva í dýpra í fenið í Írak
Einræðisherrar í Arabíulöndum: Allt í einu er ekki lengur þrýstingur á umbætur af þeirra hálfu
Olíuverð: hefur ekki alveg held ég skilað sér til arabísks almúga
Sameinuðu þjóðirnar: samræðustjórnmálin virðast allt í einu ekki svo vitlaus
Gamla Evrópa: Geta núna sagt "hvað sagði ég?"
Ísrael: það er allavega búið að brjóta niður einn óvin, eða hvað?
Og hvað er merkilegast við þennan lista - jú það sem vantar á hann. Sem sé Íraka sjálfa. Sem heldur áfram að blæða.
http://www.foreignpolicy.com/story/cms.php?story_id=3704&fpsrc=ealert070226
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 6. febrúar 2007
Tímabær ákvörðun
Sú ákvörðun umhverfisráðherra að fara fram á að erfðabreytt matvæli verði sérstaklega merkt er auðvitað löngu tímabær. Ég er raunar ein þeirra sem hef ekki verið andsnúin neyslu og nýtingu erfðabreyttra matvæla af prinsippástæðum og tel raunar að sé rétt að farið, þá sé um að ræða mikla möguleika til að framleiða matvæli í auknum mæli án þess gengdarlausa eiturefnahernaðar sem viðgengst í matvælaiðnaði víða um veröld. Ég geri mér þó grein fyrir að þessar skoðanir mínar eru umdeildar, svo ekki sé meira sagt.
Þegar ég var við nám í Bretlandi undir lok síðustu aldar (æ), þá fóru andstæðingar erfðabreyttra matvæla mikinn og mótmæli gegn óskilyrtri dreifingu þeirra og neyslu voru áberandi. Það var áhugavert að fylgjast með þessu andófi, því að þrátt fyrir að mörg þeirra varnaðarorða sem andstæðingarnir höfðu í frammi væru tímabær og nauðsynleg, þá sá maður að oft á tíðum var gengið of langt og villandi upplýsingum leyft að haldast, þrátt fyrir að andófsmenn réðu til sín hámenntaða erfðafræðinga til að koma með fræðileg innlegg í umræðuna. Mér eru sérstaklega minnisstæð skilti sem voru áberandi í amk einni mótmælagöngu - á þau ver letrað: Ekkert DNA í minn mat! Ég náði nú aldrei alveg hvernig menn ætluðu að komast hjá því að neyta þessa undirstöðuefnis í lífverum...
En hvað um það, í ríkjum ESB hafa nú um nokkra hríð verið í gildi reglur um merkingar matvæla. Að sjálfsögðu á að gefa fólki kost á því að taka upplýsta ákvörðun um hvort það vill neyta slíkra matvæla, alveg eins og ég tel rétt að ég sé upplýst um hvort í þeim mat sem ég neyti sé eitthvað sem ég í sérvisku, af heilsufarsástæðum eða prinsippi vill ekki láta inn fyrir mínar varir (þeir sem þekkja mig vita að það er þó nokkur fjöldi tegunda).
Á sama hátt ætti að sjálfsögðu að krefjast þess að innflytjendur grænmetis öfluðu upplýsinga um hvaða eiturefni og áburður voru notuð til að flýta fyrir vexti þess grænmetis sem hingað til flutt og merktu þessar upplýsingar á pokana. Slíkt hlyti að flýta fyrir almennri, upplýstri umræðu um málefni sem varða ræktun matvæla - umræðu sem ég hef beðið eftir síðan ég horfði upp á mótmælin í Bretlandi - á síðustu öld.
NS fagna ákvörðun um að merkja erfðabreytt matvæli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 31. janúar 2007
Mýtan um heilnæmu höfuðborgina
Það er í rauninni ekki nýtt að sérfræðingar vari við loftmengun í Reykjavík. Undanfarin ár hefur reglulega verið vakin athygli á mengunargildum á froststilltum vetrarmorgnum í höfuðborginni og skemmst er að minnast umfjöllunarinnar um svifryksmengun í fyrra - og aftur í vetur.
Og þetta er þrátt fyrir að Ísland sé mesti vindarass að jafnaði í heimi (frétt um jafnaðartölur vindhæðar birtust í Morgunblaðinu fyrir nokkrum árum, ég sé ekki ástæðu til að telja þær niðurstöður hafa breyst að ráði síðan).
Á meðan á þessari umfjöllun stendur, og þrátt fyrir að öllum sé ljós hvar upptök mengunarinnar sé helst að finna - í þungri umferð einkabílsins - þá hafa pólitíkusar til hægri (heyrði þetta síðast fyrir kosningar í vor í máli frambjóðanda X-D) í fúlustu alvöru talað um það hvernig við verðum bara að sætta okkur við það að Reykjavík sé borg einkabílismans. Það er fyrst núna sem úr því horninu heyrast raddir skynseminnar um að það verði að reyna að stemma stigu við umferðarþunga.
Á Akureyri er sjálfstæðiskona í bæjarstjórastóli. Hún veitti ókeypis aðgang í strætó sem sitt fyrsta (eða þar um bil) embættisverk. Heyr heyr fyrir henni. Í Reykjavík, með loftmengunina, svifrykið, astmann og berkjubólguna, var þjónustan skert og verðskrá hækkuð. Vegna þess að það sem mikilvægast er í hugum ráðamann hér er fjárhagsleg afkoma Strætisvagna hf., ekki heilsufarsleg afkoma borgarbúa.
Og borgin dreifir æ meira úr sér, þannig að illmögulegra verður að halda strætó gangandi á forsendum peningahagfræðinnar. Flugvöllurinn blívur, vegna þess að það er svo gasalega hagkvæmt fyrir 300 þús manns að reka tvo flugvelli frekar en að stytta vegalengdina úr miðbænum til Keflavíkur, borga með hraðsamgöngum og reka bara einn. Það telst hneyksli að þurfa að borga í bílastæði í miðborginni - en sjálfsagt að hækka fargjöld í strætó. Enginn virðist telja það eftir sér að borga úr sameiginlegum sjóðum til að halda við og fjölga umferðarmannvirkjum, en það er afar neikvætt að borga með almenningsfarartækjum.
Við rekum upp stór augu þegar reseptið er svo skrifað á berkjupústið.
Allt viðtalið við Þórarinn Gíslason lungnalækni má lesa hér:
http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?radnr=1126879
Þúsundir búa við svipaða mengun hér og íbúar evrópskra stórborga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 30. janúar 2007
Enn ein könnunin...
...án nokkurra áhrifa...
Íslenskir neytendur bíða í ofvæni eftir væntanlegri matarverðslækkun, á meðan söluaðilar keppast við að slá á væntingar. Fram að því virðumst við vera sátt við að lesa æ ævintýralegri frásagnir af niðurstöðum úr verðsamanburði milli landa á matvöru. Birta mun sem nú hleypur á hundruðum prósenta.
8-16% lækkun í mars virðist hjómið eitt miðað við þennan mun. Og enginn virðist enn geta komið með almennilegar skýringar á honum. Ég minnist enn þunglyndislegrar tómleikatilfinningarinnar sem fyllti mig, nýkomna frá Þýskalandi 2005 þegar ég tók við hálftómum, tepokalegum haldapokanum í Hagkaupum og rétti á móti fimmþúsundkallinn. Afgangurinn hefði ekki talist boðlegur sem þjórfé á hamborgarastað ytra.
Og verðlagsósóminn einskorðast vissulega ekki við matvæli - getur verið að þetta sé orðinn einskverskonar flottræfilsháttur hins blanka? Við pöbullinn, sem ekki höfum efni á að endurreisa Elvis frá dauðum og bjóða í ammæli, göngumst upp í að borga hærra verð en aðrir Evrópubúar fyrir lífsnauðsynjar. Og æmtum lítið, höfumst enn minna að.
Jamm, þetta er vissulega statussymból - en fyrir hvað vil ég hafa sem fæst orð um.
Matarkarfan 170% dýrari á Íslandi en á Spáni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Þriðjudagur, 30. janúar 2007
Ósýnilegu börnin
Í Achilahéraði í norður Úganda flykkjast börn á hverju kvöldi úr nálægum þorpum á lestarstöðina í Gula til að forðast það að vera rænt af uppreisnarher Drottins, eða réttara sagt Josef Kony. Þetta eru krakkar einkum á aldrinum 5-12 ára, sem eiga annars von á því að ráðist sé inn á heimili þeirra, þeim rænt og þau heilaþvegin til blóðsúthellinga og morða, eða ef um stúlkur er að ræða, þær nýttar sem næturgagn liðsmanna Konys. Um þessi börn hefur verið gerð heimildamynd, sem hægt er að horfa á hérna:
http://video.google.com/videoplay?docid=3166797753930210643&q=invisible+children&pl=true
Saga þessara barna er því miður ekkert einsdæmi, eins og fram kemur í hasarmyndinni um blóðdemantinn, sem nú er sýnd í bíó. Börn þykja af mörgum tilvalinn peð í grimmdarlegum hernaði, auðmótanleg, auðendurnýjanleg og auðdeyðanleg.
Saga þessara barna er heldur ekki ný af nálinni. Börn voru nýtt með þessum hætti m.a. í borgarastyrjöldinni í Mósambík á níunda áratugnum (reyndar stóð það stríð í 16 ár og lauk formlega 1993), sem viðhaldið var m.a. með stuðningi frá aðskilnaðarstjórninni í Suður-Afríku, hægri öfgamönnum í Bretlandi og Kukluxklan í Bandaríkjunum. Í því stríði, eins og kom fram í skýrslu UNHCR um málið, voru börn, auk þess að vera nýtt í hermennsku og til nauðgana, látin ganga upp undir 50 km á dag með vistir handa uppreisnarmönnum, eftir að hafa í mörgum tilfellum horft upp á foreldra sína myrta með hrottalegum hætti fyrir augum sínum. Og það mætti víðar tína til dæmi. Alltof víða.
Um daginn skarst í brýnu milli frækins sjávarútvegsráðherra Íslendinga og nágranna okkar í vestri. Í tengslum við þær stympingar voru Bandaríkjamenn (og raunar Bretar) sakaðir um á láta sér meira annt um sjávarspendýr en mannfólkið. En kannski ættum við að líta okkur nær áður en við híum á aðra.
Við híum á Bandaríkjamenn og Breta fyrir það að senda hermenn til Írak, en geta svo fyrst sameinast um að koma í veg fyrir hvaladráp.
Gott og vel en við? Við hreykjum okkur af því að berjast farsællega gegn banni við botnvörpuveiðum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna en þrýstum ekki á um, tökum ekki þátt í fordæmingu á þeim mannaveiðum sem viðgangast í Achilihéraði í Uganda. Ráðherrar okkar berjast ekki fyrir aðgerðum á þessu sviði. Enda er þar bara um að ræða börn, en ekki fiskveiðar sem auka hagvöxt. Við viljum ekki einu sinni hleypa foreldrum barna í Afríku að með landbúnaðarafurðir sínar.
Við berjumst ekki hávært gegn vopnaframleiðslu og sölu til viðurstyggilegra ofbeldismanna um heiminn, gagnrýnum ekki Bandaríkin fyrir að bera ábyrgð á 92% af þeim vopnum sem notuð eru af börn til að myrða börn. Höldum ekki ræður um styrjaldarátök í vestur Afríku, skæruliðahernað í suðaustur Asíu, herforingjasstjórnir á Malakkaskaga. Að ekki sé minnst á arðrán og þrælkun barna í öllum heimsálfum undir formerkjum frjálsra viðskipta.
Hvar er hneykslunin? Hvar er ákallið um samstöðu? Hvar er yfirlýsingagleðin?
En, nóta bene, við studdum að sjálfsögðu innrásina í Írak - og stjórnarliðar okkar (þar á meðal ráðherrarnir okkar) segja enn að það hafi verið bara jútakkfyrir rétt ídea á sínum tíma.
Ég hvet fólk til að eyða klukkustund af lífi sínu í að horfa á myndina á ofannefndum tengli. Það er hægt að brása útsölurnar seinna.
Föstudagur, 26. janúar 2007
Vísindi og tækni í Afríku
Í Nature þessa vikuna er athyglisverð frétt.
Þjóðarleiðtogar innan Afríska þjóðarráðsins (mín þýðing á "African Union") munu halda fund í næstu viku, þar sem annað meginumræðuefnið varðar hagnýtingu vísinda og tækni í þágu þróunar. Hitt meginviðfangsefnið eru loftslagsbreytingar, eins og ekki þarf að koma á óvart.
Á fundinum verður lögð tillaga um stofnun afrísks vísindasjóðs sem ætlað er að efla vísindarannsóknir og nýsköpun, með svipuðum hætti og rammaáætlanir Evrópusambandsins. Auk verður lagt til að stofnað verði leiðtogaráð innan þjóðarráðsins, þar sem leiðtogar verða upplýstir um viðfangsefni og stöðu innan rannsóknargeirans og og stefnumarkandi ákvarðanir á sviði vísinda og tækni verða ræddar. Ekki síst er gert ráð fyrir að miklar umræður verði um stöðu líftækni innan landbúnaðar.
Þrátt fyrir að þetta fyrirhugaða fyrirkomulag sé gagnrýnt af þeim sem óttast aukin ítök misviturra þjóðarleiðtoga á þróun innan vísinda, þá endurspegla þessir dagskrárliðir tvennt: aukin ítök lýðræðislegra kjörinna leiðtoga í álfunni og vaxandi opna umræðu um vísindi.
Það ætti því að vera áhugavert að fylgjast með því til hvers umræðan á fundi næstu viku leiðir. Lítil von er þó til þess að ég fái að gera það gegnum íslenska fjölmiðla. Í fyrsta lagi vantar í þá blaðamenn með þekkingu á vísindum og vísindastefnu - og í öðru lagi virðist fátt fréttnæmt frá Afríku í augum fjölmiðla, nema að það feli í sér sögur af hörmungum og vanþróun. Væri ekki ráð að breyta þeirri slagsíðu?
http://www.nature.com/nature/journal/v445/n7126/full/445339a.html...og fréttin opnast m.a.s. fyrir öllum (einhverra hluta vegna er HÍ ekki með netaðgang að þessu virtast vísindatímariti heims og því oft ómögulegt að komast í greinar þaðan á netinu...)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 22. janúar 2007
Missum aldrei sjónar á okkar lukku
Við getum þakkað fyrir það að búa ekki í Mogadishu.
http://www.nytimes.com/2007/01/19/world/africa/19victim.html?pagewanted=1&_r=1&th&emc=th
Landið hefur í 16 ár verið í helgreipum borgarastyrjaldar, sem er auðvitað löngu hætt að vera styrjöld og orðin að einhverskonar eftirmynd fútúrískra bíómynda og skáldsagna þar sem allur samfélagsstrúktúr er horfinn og hnefinn ræður ríkjum. Við getum þakkað fyrir það hversu ólíklegt það er að börnin okkar þurfi nokkurntímann að upplifa það sem börnin í Mogadishu upplifa dag eftir dag, viku eftir viku, ár eftir ár - án þess að í sjónmáli sé nokkur raunverulega endanleg lausn.
Það eru flóknar og margbreytilegar ástæður (sem ég ætla mér ekki þá dul að kunna skil á) sem leiða til þess að brothætt stjórnskipulag fellur saman. Þau dæmi sem við höfum þar um hljóta að vekja okkur til umhugsunar um sammannlega ábyrgð, sem er grundvöllur að tilveru og velferð afkomenda okkar.
Við skulum líka þakka fyrir það að búa ekki í Darfur. Þar hefur núna í allt of langan tíma viðgengist þjóðarmorð og sér ekki fyrir endann á nokkurri úrlausn þar á. Hvers vegna ætli þjóðarleiðtogar heimsins séu ekki eins framtakssamir í málefnum þess fátæka fólks sem í Darfur býr og í afskiptum annars staðar í heiminum? hvers vegna þetta athafnaleysi, sem minnir með hrollvekjandi hætti á athafnaleysið gagnvart Rúanda fyrir rúmum áratug?
http://topics.nytimes.com/top/news/international/countriesandterritories/sudan/index.html?8qa
Ofbeldi, erfiðleikar og hörmungar í öðrum heimshlutum koma okkur við, og því meira sem heimurinn tengist hnattvæddari böndum. Við skulum ekki gleyma því í daglegu þjarki okkar hér á klakanum, ekki síst núna fyrir kosningar, að við eigum að láta okkur aðra varða - og að við erum flest aflögufær með einhverjum hætti. Sem betur fer.
Föstudagur, 19. janúar 2007
Biðraðamenning?
Ja hérna hér. Ég sé þetta nú ekki ganga alveg upp. Mín eina reynsla af því að ferðast til Kína eykur ekki trú mína á að unnt verði að skikka þennan fólksmassa til. Og ekki sé ég að atgangurinn sem nú er vegna uppbyggingar í kringum Ólympiuleikana sé líklegar til að auka þá ró (eða andvaraleysi?) sem nauðsynleg er til að biðraðir geti lifað.
Ferðin var reyndar mesta upplifun ævi minnar af ýmsum orsökum - hana má lesa um hér: www.barnaland.is/barn/17251. Og ekki verður næsta ferð síðri, fyrir eða eftir Ólympíuleika 2008. Kína er...já nú skortir mig hugtak?!? |
Íbúar Peking skikkaðir í röð einu sinni í mánuði og þeim kenndir mannasiðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |