Mýtan um heilnæmu höfuðborgina

Það er í rauninni ekki nýtt að sérfræðingar vari við loftmengun í Reykjavík.  Undanfarin ár hefur reglulega verið vakin athygli á mengunargildum á froststilltum vetrarmorgnum í höfuðborginni og skemmst er að minnast umfjöllunarinnar um svifryksmengun í fyrra - og aftur í vetur.

Og þetta er þrátt fyrir að Ísland sé mesti vindarass að jafnaði í heimi (frétt um jafnaðartölur vindhæðar birtust í Morgunblaðinu fyrir nokkrum árum, ég sé ekki ástæðu til að telja þær niðurstöður hafa breyst að ráði síðan).

Á meðan á þessari umfjöllun stendur, og þrátt fyrir að öllum sé ljós hvar upptök mengunarinnar sé helst að finna - í þungri umferð einkabílsins - þá hafa pólitíkusar til hægri (heyrði þetta síðast fyrir kosningar í vor í máli frambjóðanda X-D) í fúlustu alvöru talað um það hvernig við verðum bara að sætta okkur við það að Reykjavík sé borg einkabílismans. Það er fyrst núna sem úr því horninu heyrast raddir skynseminnar um að það verði að reyna að stemma stigu við umferðarþunga.

Á Akureyri er sjálfstæðiskona í bæjarstjórastóli.  Hún veitti ókeypis aðgang í strætó sem sitt fyrsta (eða þar um bil) embættisverk.  Heyr heyr fyrir henni.  Í Reykjavík, með loftmengunina, svifrykið, astmann og berkjubólguna, var þjónustan skert og verðskrá hækkuð.  Vegna þess að það sem mikilvægast er í hugum ráðamann hér er fjárhagsleg afkoma Strætisvagna hf., ekki heilsufarsleg afkoma borgarbúa.

 Og borgin dreifir æ meira úr sér, þannig að illmögulegra verður að halda strætó gangandi á forsendum peningahagfræðinnar. Flugvöllurinn blívur, vegna þess að það er svo gasalega hagkvæmt fyrir 300 þús manns að reka tvo flugvelli frekar en að stytta vegalengdina úr miðbænum til Keflavíkur, borga með hraðsamgöngum og reka bara einn. Það telst hneyksli að þurfa að borga í bílastæði í miðborginni - en sjálfsagt að hækka fargjöld í strætó.  Enginn virðist telja það eftir sér að borga úr sameiginlegum sjóðum til að halda við og fjölga umferðarmannvirkjum, en það er afar neikvætt að borga með almenningsfarartækjum.

Við rekum upp stór augu þegar reseptið er svo skrifað á berkjupústið.

Allt viðtalið við Þórarinn Gíslason lungnalækni má lesa hér:

http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?radnr=1126879


mbl.is Þúsundir búa við svipaða mengun hér og íbúar evrópskra stórborga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Hallsson

Sæl Ólöf Ýrr, sammála þessu! Hvernig væri að gera átak í almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu, koma upp hraðleiðum og auka tíðni ferða? Það myndi skila árangri mjög fljótlega í færri bílum og hreinna lofti. Og auðvitað á að hafa ókeypis í strætó. Það munar um þennan pening fyrir fólk en skiptir engu máli fyrir borgina. Farþegum í strætó á Akureyri fjölgaði strax um 60% sem er frábært. Og hvenær urðum við "bílaþjóð"? Þetta er bara bull sem hægt er að breyta. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 31.1.2007 kl. 12:52

2 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Þetta er sýna sig með stætó á Akureyri og Reykjanesbæ þar sem að farþegafjóldinn hefur aukist til muna við að fella niður strætógjöldin. Þá eru líka ráð sem ég var að heyra í morgun eins og að hreinsa göturnar daglega og sérstaklega þegar rignir til að að ná svifrikinu burtu áður en það þornar og kemst í andrúmsloftirð. Svona einfaldar aðferðir sem kosta tiltölulega lítið eru samt þær sem ríki og sveitarfélög er ólíkleg til að framkvæma. Eins það að umbuna fólki fyrir umhverfisvænari farartæki. T.d. fella tolla niður af hjólum,gera almennilega hjólastíga þannig að fólk komist allra sinna ferða á hjólum, lækka gjöld af umhvefisvænari ökutækjum og svoleiðis virðist ætla að koma seint

Magnús Helgi Björgvinsson, 31.1.2007 kl. 14:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband