Færsluflokkur: Vísindi og fræði
Þriðjudagur, 16. október 2007
Bólgueyðandi áhrif þjálfunar
Áhugaverð grein birtist í American journal of Lifestyle Medicine nýverið. Í henni kemur fram að ýmislegt bendi til þess að líkamsþjálfun vinni gegn ýmsum bólgusjúkdómum með sjálfstæðum hætti. Meðal þeirra sjúkdóma sem tengjast bólguferlum í líkamanum eru hjarta- og æðasjúkdómar, beinþynning og sykursýki.
Hingað til hafa bólgueyðandi áhrif líkamsþjálfunar verið tengd áhrifum hennar á BMI stuðul eða fituhlutfall líkamans, en nú er að koma í ljós að þjálfun hefur jákvæð áhrif óháð þessum tengslum - þjálfunin sjálf virkist verka á einhverja líffræðilega ferla, sem enn eru ekki þekktir.
Enn ein ástæðan til að drífa sig upp úr sófanum....
http://ajl.sagepub.com/cgi/content/abstract/1/3/220?eaf
Miðvikudagur, 7. febrúar 2007
Athyglisverð hlið á fuglaflensufárinu
Í NYT í dag er sagt frá því að Indónesíustjórn sé hætt að veita Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni aðgang að fuglaflensuveirunni vegna þess að hún stendur í samningaviðræðum við lyfjafyrirtæki um sölu á veirusýnum til þróunar á bóluefni.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur þannig ekki fengið send sýni af H5N1 veirunni frá landinu síðan seint á síðasta ári. Indónesía er það land sem tilkynnt hefur um flest tilfelli fuglaflensu og talið er nauðsynlegt að hafa aðgang að veirum þaðan til rannsókna og þróunar á bóluefni.
Indónesía og önnur fátæk ríki hafa gagnrýnt það að þeim sé ætlað að afhenda veirur án endurgjalds, þar sem bóluefni sem svo eru þróuð eru oft of dýr til að íbúar þessara landa geti nýtt sér þau. Auk þess eru fuglaflensan og aðrar flensur ekki í forgangi í þessum löndum; þar eru landlægir sjúkdómar sem verða fjölda barna að aldurtila á ári hverju, s.s. mislingar og lömunarveiki, sem ekki valda lengur áhyggjum á Vesturlöndum.
Fréttin af því að Indonesíaætli að bjóða lyfjafyrirtækinu upp á einkaaðgang að veirusýnum sínum er athygliverð fyrir afar margra hluta sakir:
- Enn og aftur erum við minnt á þá gjá sem ríkir í aðstæðum Vesturlanda og fátækra ríkja þegar kemur að aðgangi að heilsugæslu
- Sú spurning vaknar hvers vegna fuglaflensa, sem ekki smitast milli manna, fær svona mikla athygli á meðan ekki hefur verið fundin leið til að auka jafnræði í vörnum gegn algengum og lífshættulegum barnasjúkdómum
- Geta veirustofnar talist til hugverkaréttinda - og ættu Indónesar þá að geta krafist hlutdeildar í bóluefni sem þróað er út frá þeim? Eða er um sameiginlega eign mannkyns að ræða? Og ef svo - ætti þá ekki að tryggja aðgang allra að nauðsynlegum bóluefnum?
Ég bara spyr svona...
http://www.nytimes.com/2007/02/07/world/asia/07birdflu.html?th&emc=th
Þriðjudagur, 6. febrúar 2007
Myndir fyrir líffræðinörda
Get ekki að því gert, það er alltaf eitthvað heillandi við myndir sem teknar eru innan í mannskepnunni með hátæknilegum óskiljanlegum aðferðum. Bendi öðrum áhugasömum á þessar, myndir ársins hjá tímaritinu BMC Cell Biology:
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 26. janúar 2007
Vísindi og tækni í Afríku
Í Nature þessa vikuna er athyglisverð frétt.
Þjóðarleiðtogar innan Afríska þjóðarráðsins (mín þýðing á "African Union") munu halda fund í næstu viku, þar sem annað meginumræðuefnið varðar hagnýtingu vísinda og tækni í þágu þróunar. Hitt meginviðfangsefnið eru loftslagsbreytingar, eins og ekki þarf að koma á óvart.
Á fundinum verður lögð tillaga um stofnun afrísks vísindasjóðs sem ætlað er að efla vísindarannsóknir og nýsköpun, með svipuðum hætti og rammaáætlanir Evrópusambandsins. Auk verður lagt til að stofnað verði leiðtogaráð innan þjóðarráðsins, þar sem leiðtogar verða upplýstir um viðfangsefni og stöðu innan rannsóknargeirans og og stefnumarkandi ákvarðanir á sviði vísinda og tækni verða ræddar. Ekki síst er gert ráð fyrir að miklar umræður verði um stöðu líftækni innan landbúnaðar.
Þrátt fyrir að þetta fyrirhugaða fyrirkomulag sé gagnrýnt af þeim sem óttast aukin ítök misviturra þjóðarleiðtoga á þróun innan vísinda, þá endurspegla þessir dagskrárliðir tvennt: aukin ítök lýðræðislegra kjörinna leiðtoga í álfunni og vaxandi opna umræðu um vísindi.
Það ætti því að vera áhugavert að fylgjast með því til hvers umræðan á fundi næstu viku leiðir. Lítil von er þó til þess að ég fái að gera það gegnum íslenska fjölmiðla. Í fyrsta lagi vantar í þá blaðamenn með þekkingu á vísindum og vísindastefnu - og í öðru lagi virðist fátt fréttnæmt frá Afríku í augum fjölmiðla, nema að það feli í sér sögur af hörmungum og vanþróun. Væri ekki ráð að breyta þeirri slagsíðu?
http://www.nature.com/nature/journal/v445/n7126/full/445339a.html...og fréttin opnast m.a.s. fyrir öllum (einhverra hluta vegna er HÍ ekki með netaðgang að þessu virtast vísindatímariti heims og því oft ómögulegt að komast í greinar þaðan á netinu...)
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)